-Auglýsing-

Konur vaktar til umhugsunar um hjartasjúkdóma

Á konudaginn sunnudaginn 22. febrúar verður hafin kynning í Ráðhúsi Reykjavíkur á alþjóðlegu verkefni sem gengur undir nafninu GoRed. Verkefnið á að vekja athygli á því að konur fá ekki síður hjartasjúkdóma en karlar og að hjartasjúkdómar séu raunverulega langalgengasta dánarmein kvenna.

“Einhverra hluta vegna hafa ekki verið gerðar jafn miklar og merkar rannsóknir á hjarta- og æðasjúkdómum hjá konum og körlum og því vantar mikið upp á að konur og karlar sitji við sama borð þegar á þetta svið er litið,” segir Ingibjörg Pálmadóttir, fyrrverandi heilbrigðisráðherra og verndari GoRed-verkefnisins á Íslandi. Hún segir verkefnið hafa borist hingað til lands í gegnum Vilborgu Sigurðardóttur lækni sem kynntist því á ráðstefnu í Chicago. “Hún er aðalsprautan í þessu ásamt Hjartavernd,” útskýrir Ingibjörg sem leist strax vel á að gerast verndari verkefnisins þegar hún var beðin um það enda um aðkallandi málefni að ræða.

“Konur hafa litið á þetta sem karlasjúkdóm og verið uppteknar við að reka bændur sína í læknisskoðanir, en litið fram hjá þeirri staðreynd að þeim er jafn hætt og körlum við að fá hjarta- og æðasjúkdóma,” segir Ingibjörg og bendir á að mælt sé með að konur fari á fimm ára fresti í tékk eftir 35 ára aldur.

“Konur hafa verið meira vakandi fyrir forvörnum á öðrum sjúkdómum eins og til dæmis krabbameini með þeirri sterku vakningu sem orðið hefur á undanförnum áratugum hjá Krabbameinsfélaginu,” segir Ingibjörg og telur að sú vitundarvakning hafi lyft grettistaki og lengt og bætt líf ótaldra Íslendinga. “Hjartavernd hefur einnig náð gríðarlega góðum árangri í sínu starfi en vill nú taka höndum saman með GoRed og hefja nýja vitundarvakningu meðal kvenna á Íslandi,” útskýrir Ingibjörg en ætlunin er að fá heilsugæslustöðvar um land allt í lið með hópnum sem vinnur að GoRed-verkefninu. “Svo er undir hverri heilsugæslu komið hve mikið þær nýta sér það fræðsluefni sem búið er að búa til,” segir Ingibjörg og vonast eftir mikilli þátttöku.

Kynningin á GoRed-verkefninu verður eins og áður segir í ráðhúsinu á sunnudag. “Dagskráin hefst rétt fyrir klukkan eitt með blossandi músík til að koma hjartslættinum almennilega í gang. Síðan verður fræðsla á staðnum og básar með ýmsum fróðleik,” segir Ingibjörg en allir eru velkomnir á kynninguna sem stendur yfir til klukkan 16. “Svo væri góð hugmynd fyrir karlana að gefa konum sínum kort í Hjartavernd í tilefni konudagsins,” segir Ingibjörg glaðlega og hvetur sem flesta til að mæta.

solveig @frettabladid.is

- Auglýsing-

Fréttablaðið 20.02.2009

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-