-Auglýsing-

Fortíðin í farangrinum

saliVið erum summa þess lífs sem við höfum lifað. Við upplifum, lærum, prófum nýtt og þroskumst. Sú viska er vinsæl að reynsla fortíðar skapi mann nútíðar og því sé eftirsjá tilefnislaus og þakkir verðskuldaðar fyrir hindranir lífsins. Að mörgu leyti rétt enda fátt betri skóli en að sigrast á erfiðleikum og að læra að við gátum það sem við töldum okkur ekki geta.

Það er eðlilegt að bregðast við þegar bjátar á. Nauðsynlegur undanfari þroska er að upplifa erfiðleikana, finna fyrir tilfinningunum og fara í gegnum þau áföll sem á veginum verða. Hún er heldur óheilbrigð sú hugmynd að styrkur felist í viðbragðaleysi og því að standa sem minnst hreyfður í stormviðri lífsins. Tilfinningalegt ójafnvægi og erfiðrar tilfinningar sem maður skilur jafnvel ekki hvaðan koma eru eðlilegar í kjölfar erfiðleika. Hægt og rólega nær fólk þó oftast fótfestu á ný, jafnar sig í sveiflum, en smám saman stefnir líðanin upp eftir því sem tími og aðstæður leyfa.

-Auglýsing-

En erfiðleikar fólks eru mismunandi og viðbrögðin við þeim líka. Margir upplifa hluti sem í daglegu tali flokkast seint undir eðlilegar hindranir eða erfiðleika sem auðvelt sé að komast í gegnum. Margir sitja líka með hugmyndir um að þeir hefðu átt að bregðast öðruvísi við, vita betur, gera annað, ef þeir bara hefðu… Erfiðleikarnir koma nefnilega ekki allir með tryggingu um þroska og betra líf. Þær upplifanir eiga það til að skilja eftir sig lærdóm vantrausts, vanmats, sjálfsniðurbrots, depurðar og kvíða.

Í farangri okkar allra er blanda birtu og skugga fortíðar. Fyrir flesta er birtan ráðandi og skuggarnir til staðar en dempa ekki leiðandi ljós lærdómsins. Fyrir aðra er farangurinn þyngri, dekkri og ljósi fortíðar erfiðara um vik að lýsa veginn áfram.

Þessu er sem betur fer hægt að breyta. Það er erfitt að taka skrefið, tekur á, tekur tíma, en léttinum, gleðinni og frelsinu þegar skuggum fortíðar léttir er erfitt að lýsa.

Ef þú ert að upplifa viðbrögð sem þér finnst ekki í samræmi við aðstæður þínar í dag, ef sjálfstraustið mætir þér ekki með væntumþykju í spegli morgunsins, ef styttra er í reiðina, depurðina og kvíðann en þér þykir viðeigandi eða þörfin fyrir stjórn og fullkomleika er meiri en hjá öðrum í kringum þig, þá ættir þú kannski að setjast um sinn. Hætta að berjast og skoða farangurinn og þá fortíð sem hann geymir. Hvað situr í þér, hvað viltu ekki ræða, hvað forðast þú að hugsa um eða dreymir jafnvel ógnvæglega drauma um að næturlagi? Eru hlutir í farangri þínum sem varpa skugga á það líf sem þú lifir í dag?

- Auglýsing-

Það verður kannski aldrei þannig að fortíðin í farangrinum veiti einungis birtu. En hvað ef það er hægt að auka birtuna, bæta jafnvægið og auka lífsgæði og gleði? Væri þá ekki þess virði að reyna?

Mjöll Jónsdóttir, sálfræðingur Heilsustöðinni, heilsustodin.is

Þessi pistill birtist í Morgunblaðinu mánudaginn 10. mars 2014

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-