-Auglýsing-

Fötluð stæði!

Fotlud_staediÞetta hljómar kannski eins og óheppilega orðuð fyrirsögn, en þetta er af vilja gert. Staðreyndin er sú að ég upplifi þessi bílastæði fyrir fatlaða stundum sem hálfgerð fötluð stæði!

Það er ótrúlega margt sem þarf að takast á við í svona lífi þar sem sjúkdómar og afleiðingar þeirra eru endalaus uppspretta verkefna. Fötluðu stæðin ættu því að vera þvílík smáatriði að þau ættu ekkert erindi í pistil eins og þennan. Ætti maður ekki fyrr að tala um sorg, von og trú, aðgerðir og aðgerðaleysi, verki og verkjalausnir, einmanaleika, tvöfalt líf aðstandenda og fleira. En nei, þetta litla atriði, þessu ómerkilegu stæði merkt fötluðum ná því að komast hér á blað, ekki vegna yfirgnæfandi stærðar vandans heldur vegna þess hve þessi vandi er ítrekaður og truflar okkur oft í hinu daglega lífi. Eiginlega eins og lítill pirrandi kláðablettur sem skaðar kannski ekkert en pirrar og truflar.

-Auglýsing-

 

Málið er þetta. Fötluð stæði út um allan bæ, já og allan heim ef út í það er farið eru merkt með merki sem sýnir  hjólastjól. Ítrekað heyrir maður svo umræðu um þessi stæði þar sem fólk röflar yfir jeppakörlunum sem leggja þarna á kostnað þess að fólks sem ekki getur notað fætur sínar eðlilega eða er í hjólastól.
Sammlála, ég þoli ekki þegar fólk leggur í þessu stæði sem ekki hefur til þess leyfi. En annað mál hvílir eiginlega þyngra á mér varðandi þessi stæði.

Í fyrsta lagi er málið það að margir hafa leyfi til að nota þessi stæði en geta vel notað fætur sínar og eru ekki í hjólastól. Bjössi minn er með veikt hjarta, hann hefur mjög takmarkaða orku, sérstaklega í vondu veðri, roki eða kulda. Almennt þá er hann bara verri yfir veturinn þar sem kuldinn fer illa í hann. Hann meira að segja á vestu dögunum þyrfti að vera með grímu á sér sem er með slöngu á neðst sem er stungið inn undir jakkann því þá getur hann andað að sér heitu lofti þaðan í stað þess sem er “utan fata” og þar með kalt… Honum finnst það hins vegar brjálæðislega ömurlegt að ganga um með þessa grímu og reynir því að forðast það eins og hann getur! Vandinn er að það sést ekki á honum að hann sé veikur og ótrúlegt en satt þá er hann ekki beyglaður, grár og gugginn, með gervifót en hann má samt leggja í þessi stæði!

- Auglýsing-

Það getur skipt sköpum fyrir hann að nota þessi stæði þegar illa stendur á en við notum venjuleg stæði þegar hann er  hressari og getur gengið lengri vegalengdir. Það eru líka margir lungnasjúklingar sem þurfa að nota þessi stæði og fleiri og fleiri sem ekki eru endilega í hjólastól.

Við hins vegar höfum lent alveg svakalega í því fyrir að nota fötluðu stæðin, þó við séum með merki í framrúðunni sem sýnir veitt leyfi til þess. Þetta er orðið þannig að ég fæ alltaf smá kvíða í magann í hvert sinn sem við leggjum þarna því það skiptir engu þó við séum með leyfi til að vera þarna og skiltið sé á sínum stað, þegar fólk í kringum okkur sér okkur svo standa upp út úr bílnum og ganga í burtu þá dæmir það okkur fyrir að vera að nota þetta stæði í leyfisleysi. Við höfum fengið brjálæðislega illar augngotur, við höfum fengið yfir okkur svívirðilegar skammir, við höfum verið elt inn í verslun og skömmuð og stundum er meira að segja alveg sama þó við sýnum fólki merkið og útskýrum hjartaveikina eins og við getum, fólk öskrar þá bara á okkur að það sjái engan hjólastól og að því eigum ekki að leggja þarna!

Ég upplifi þetta alltaf sem pínu ofbeldi í hvert skipti því ofsi fólks er svo mikill og mér finnst þetta svo vont… og samt erum við með skilti í glugganum! Í raun vona ég samt alltaf frekar að fólk öskri á okkur heldur en að nota augngoturnar því ég get svarað öskrinu og útskýrt en ég get ekkert gert ef fólk bara horfir, hristir hausinn og gengur burt.

Það er erfitt að missa heilsuna. Það er mjög erfitt að vera 42 ára karlmaður að takast á við veikindi sem margir ekki skilja og flestir átta sig ekki á vegna þess að þau sjást ekki. Fólk sér ekki þreytuna og finnur ekki verkina og oft er það þannig að fólki finnst þetta eiginlega bara vera pínu leti eða uppgerð af því það áttar sig ekki á því hvernig þetta er. Það að verða móður við það að ganga smá spöl er bara að vera í slæmu formi er það ekki? Það sorglega er að það fá fáir samúð eða skilning ef þeir ekki bera veikindi sín utan á sér á einhvern hátt.

Það er líka erfitt að samþykkja að maður sé fatlaður og það er erfitt skref að samþykkja að maður þurfi að fá blátt fatlað merki í bílinn sinn, þó það sé nauðsynlegt. Ég verð því að segja að þó ég fagni allri umræðu um að ófatlaðir eigi ekki að leggja í fötluð stæði, þá myndi ég fagna enn meira umræðu um hið fatlaða merki fötluðu stæðana! Það þarf að verða almenn vitneskja að það eru mjög margir sem mega nota þessi stæði sem þó er ekki að sjá við fyrstu sýn að ami neitt að. Ef fólk er með skilti í bílnum þá er einhver ástæða fyrir notkun þessara stæða og viðkomandi hefur væntanlega nóg að díla við þó ekki bætist við öskur og skammir frá fólki sem telur sig vera sjálfskipaða lögreglumenn! Það er auðvitað út úr korti að fólk þurfi úti á bílaplani að réttlæta sig og útskýra fyrir öðrum sem kemur það bara ekkert við hvaða veikindi hrjá það! Ég óska því eftir umræðu um notkun þessara stæða fyrir fatlaða og umræðu um breytt merki. Mér finnst merki með manni í hjólastól ekkert eiga neitt sérstaklega vel við um alla fatlaða. Það vantar í raun merki sem er merki fatlaðra án þess að vísa í einhverja ákveðna fötlun.

Með von í hjarta hugsa ég til þess dags sem ég legg í fatlað stæði með honum Bjössa mínum og öllum er sama! Engin illskuleg augnaráð og engin öskur! Ahhh góður dagur 🙂

Reykjavík 25.01.2009

Mjöll

-Auglýsing-
-Auglýsing-
mjoll
mjoll
Mjöll er klínískur sálfræðingur og hjartamaki. Hún þekki hlutverk aðstandenda hjartasjúklings með hjartabilun vel.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-