-Auglýsing-

Föstudagur á hjartadeild og Hjartagátt

BjörnÉg hef oft furðað mig á því fyrirkomulagi að loka Hjartagátt (bráðamóttöku brjóstverkja LSH Hringbraut) um helgar og velt því fyrir mér hvað verður um fólkið sem liggur þar og hvað verður um fólkið sem liggur á hjartadeild og er sent heim til að rýma fyrir Hjartagáttarsjúklingunum þegar deildin lokar á föstudögum.

Mér hefur fundist þetta dálítið galið allt saman því óhjákvæmilega hlítur þetta að þýða mikið rót, meiri líkur á gangainnlögnum og hugsanlega að fólk sé kannski sent full snemma heim af hjartadeild.

Á hin bóginn er svo kannski fólk sem væri hægt að útskrifa af Hjartagátt eftir nokkrar klukkustundir ef hún væri opin lengur, eða um helgar. Í stað þess er sumt af þessu fólki kannski lagt inn á hjartadeild yfir helgi og hlítur þetta að valda óþægindum og jafnvel óþarfa kostnaði.

Ekki er það bara óhagræðið heldur hlítur þetta líka að kalla á auka álag á starfsfólk og sjúklinga og sjálfsagt í einhverjum tilfellum endurinnlagnir hjá þeim sem sendir eru heim of snemma fyrir utan allskonar önnur óþægindi sem af þessu hlýst.

Ég hafði aldrei séð það með mínum eigin augum hvað gerist raunverulega á hjartadeildinni á föstudögum þegar farið er að tæma Hjartagáttina og koma mannskapnum fyrir á hjartadeild.

Ég varð hinsvegar vitni af þessu í sumar og satt best að segja brá mér því ég hafði ekki gert mér grein fyrir því hvað þetta er mikið álag á alla og veldur mikilli spennu inni á deildinni bæði meðal starfsfólks og sjúklinga.

Í fyrsta lagi er farið að tilkynna fólki að það eigi að útskrifast og varð ég vitni af því að það olli óróa meðal sumra sjúklinga og óöryggi þar sem viðkomandi fannst hann eða hún ekki tilbúinn til að fara heim.

- Auglýsing-

Fannst mér jafnframt að starfsfólkið væri jafnvel ekki endilega á því að sumir sjúklingarnir ættu að fara heim.

Það hlítur að vera erfitt að púsla þessu saman enda fann ég hvernig spennustigið hjá starfsfólki fór hækkandi, álagið sagði til sín.

Þarna er verið að búa til auka og óþarft álag sem ætti alls ekki að eiga sér stað, nóg er nú fyrir. Ég geri ráð fyrir að það sé það sama uppi á tengingum á Hjartagátt þar sem staðan er kannski þannig að það er hugsanlega einhver hluti hópsins sem ekki er alveg búið að vinna upp og vinnst ekki tími til þess en hugsanlega væri þetta fólk sem væri hægt að útskrifa af Hjartagátt um kvöldið eða morguninn eftir ef deildin fengi að vera opinn.

Í stað þess er þetta fólk jafnvel lagt inn á hjartadeild og þarf hugsanlega að liggja inni fram yfir helgi að óþörfu í einhverjum tilfellum, væntanlega í dýrara legurými.

Það er talið að það kosti um 30 til 50 milljónir á ári að hafa Hjartagátt opna um helgar og það eru ekki miklir peningar þegar það er haft í huga að þarna er bjargað mannslífum á hverjum degi. Það eru heldur ekki miklir peningar þegar haft er í huga margt af því sem ríkið setur í peninga vegna nýútkominna fjárlaga sem eru eins og venjulega vonbrigði.

Það má jafnvel leiða að því líkum að það sé hreinlega þjóðhagslega hagkvæmt að hafa opið á Hjartagátt um helgar.

Ef Hjartagátt væri opin um helgar myndi létta af óþarfa álagi af starfsfólki og sjúklingum á bráðamóttöku í Fossvogi svo dæmi sé nefnt þar sem biðtími er stundum margar klukkustundir.

Auk þess myndi opnun Hjartagáttar um helgar minnka líkur á gangainnlögnum á hjartadeild og koma í veg fyrir óþarfa innlagnir á fólki sem ekki þarf á þeim að halda.

- Auglýsing -

Fyrir vikið yrði starfsfólk ánægðara og sjúklingar öruggari og ekki myndaðist þessi mikla streita sem óneitanlega verður til þegar tæma þarf Hjartagátt fyrir lokun á föstudögum.

Hjartagátt hefur margsannað gildi sitt og auk þess sem það er margsannað að það getur beinlínis verið hættulegt að senda fólk á brámóttöku í Fossvogi um helgar og flytja svo með sjúkrabíl niður á Hringbraut.

Sjálfur lenti ég í því og afleiðingarnar urðu miklar skemmdir á hjartavöðva, málaferli við spítalann sem tóku tæp níu ár og gera má ráð fyrir að þau málaferli hafi kostað ríkið tveggja til þriggja ára helgaropnun á Hjartagátt.

Ég veit fyrir víst að ég er ekki sá eini sem hef lent í svipuðum hremmingum þar sem helgarlokun Hjartagáttar hefur haft alvarlegar afleiðingar.

Er ekki verið að spara aurinn og kasta krónunni í nafni hagræðingar?

Björn Ófeigsson

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-