Föstudagspistill forstjóra Landspítalans er um margt áhugaverður og sérlega gleðilegur sá árangur sem náðs hefur í lyfjamálum spítalans. Það er auk þess ánægjuleg sú áhersla sem hann leggur á öryggi sjúklinga. Pistilinn í heild sinni birti ég hér fyrir neðan.
Öryggi sjúklinga er ávallt okkar mikilvægasta verkefni en tenging þess við hagræðingu verður lykillinn að árangri í rekstri LSH. Það er snúið verk að flétta saman öryggi, hagræðingu og niðurskurð í rekstri, ekki síst þegar við gerum miklar kröfur til beggja þátta. Enn og aftur má sjá að starfsmenn spítalans vinna frábært starf við þessa samþættingu og gjörnýta mannafla og tæki spítalans, sjúklingum til hagsbóta.
Þótt ekkert komi í stað einbeittra starfsmanna sem helga sig hag sjúklinga er nauðsynlegt að beita kerfisbundinni skráningu svo að til verði vönduð gögn sem nýtt eru til ákvarðana, eftirfylgdar og til að meta hvort markmið náist. Dæmi um þetta eru rafrænar skrár um notkun og kostnað lyfjameðferða annars vegar og greiningarrannsókna hins vegar sem komið hefur verið á fót hér á spítalanum á síðastliðnum mánuðum.
Samþætting klínískrar vinnu, lyfjamála, tölvukerfa og fjármála hér á spítalanum hefur hjálpað til í því að sparnaður í lyfjamálum á þessu ári nemur um 13% eða 100 m.kr. fyrstu tvo mánuði ársins miðað við árið í fyrra. Samtímis er fylgst grannt með sjúklingum og farið eftir alþjóðlegum leiðbeiningum um bestu meðferð. Hliðstætt átak er nú gert hvað varðar notkun greiningarrannsókna en það byggir einnig á nýjum gagnagrunni sem veitir upplýsingar um notkun og kostnað. Upplýsingarnar leiða í ljós að tekist hefur að fækka beiðnum um rannsóknir um 16% og þar með spara fé. Samhliða er þess gætt að stöðluðum klínískum leiðbeiningum um meðferð sé fylgt til þess að efla öryggi sjúklinga.
Árangurinn mun áfram byggjast á því að ákvarðanir um skipulag og meðferð sjúklinga séu teknar sem næst sjúkrabeðinu. Ég hvet ykkur því til að óska eftir upplýsingum frá ykkar næstu yfirmönnum um lyfjagátt og rannsóknargátt. Vinna af þessu tagi mun áfram verða eitt af okkar helstu tækjum til að tryggja farsæla samþættingu öryggis sjúklinga og hagræðingu í rekstri.
Baráttukveðjur,
Björn
bjornz@landspitali.is
www.landspitali.is 19.03.2010