-Auglýsing-

Segja nýtt vaktakerfi ógna öryggi sjúklinga

FYRIRHUGAÐ er að sameina báðar bráðamóttökur Landspítalans í eina sem verður í Fossvogi og tekur breytingin gildi 1. apríl. Deildarlæknar eru mjög uggandi og segja þeir afleitt að um leið sé verið að taka upp breytt vaktakerfi sem ekki eigi eftir að ganga upp. Öryggi sjúklinga verði beinlínis ógnað vegna allt of mikils vinnuálags lækna, skapast muni hættuástand.

Nýja vaktakerfið muni merkja stóraukið vinnuálag og með því verði þverbrotnar reglur um hámarksvinnutíma. Hafa læknarnir þegar fengið lögfræðing til að undirbúa málsókn gegn spítalanum vegna þessara brota sem einnig stangist á við evrópskar reglur. Ljóst er að með vaktakerfinu er einnig verið að skerða í reynd laun lækna.

Röng tímasetning

Almennir læknar, sem áður voru oft kallaðir unglæknar, á spítalanum héldu í gærkvöldi fund til að ræða málin og er búist við að þeir hittist á ný í næstu viku.

„Við erum ekki í sjálfu sér að deila á þá ákvörðun að bráðamóttökurnar skuli vera sameinaðar,“ segir Gunnar Thorarensen, talsmaður vinnuhóps læknanna vegna þessa máls. „En það er alveg með ólíkindum að þetta sé látið gerast á sama tíma og vaktakerfinu er kollvarpað og það algerlega án samráðs við okkur. Við höfum fullan skilning á því að nú verði að spara því að ástandið í þjóðfélaginu er skelfilegt. En það hlýtur líka að verða að draga línu og hugsa til þess hvað við getum leyft okkur með tilliti til öryggis.

Mönnunin verður langt undir öryggismörkum. Það er margsannað að lækni sem hefur unnið allt of lengi er mun hættara en öðrum við að gera mistök. Um er að ræða brot á Evróputilskipun sem menn hafa innleitt á mörgum árum hér. En nú er verið að stefna í öfuga átt, verið að lengja vinnuvikuna okkar.“

- Auglýsing-

Eftir Kristján Jónsson

kjon@mbl.is  

Morgunblaðið 19.03.2010

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-