-Auglýsing-

Fjarverandi

g_og_Mjll_bÉg hef verið fjarverandi eins og sést á því að ekki hefur verið mikið um nýjar fréttir eða pistla síðustu mánuðina inni á hjartalíf.is. Ástæður fjarveru minnar eru þær helstar að ég þurfti á smá fríi að halda og hugsa um eitthvað allt annað en hjartans mál. 
Í júní síðastliðnum lauk átta ára baráttu minni fyrir dómstólum vegna læknamistaka sem urðu við greiningu mína og meðferð þann 9. febrúar 2003. Þetta var erfið barátta sem hefur tekið mikið á, ég hef verið þreyttur síðan og fundið hjá mér þörf til að halda mig til hlés, láta lítið fara fyrir mér, hvíla mig.

Að þessu loknu kemur nýtt upphaf með nýjum hugmyndum og ég kem til með að halda áfram að setja inn efni á hjartalíf.is eins og ég er vanur. Eins höfum við Mjöll verið að vinna að útgáfu bókar um reynslu okkar en ekki liggur alveg ljóst fyrir hvenær hún lítur dagsins ljós.

Málið mitt fór tvisvar fyrir dómstóla, fyrst til að skera úr um hvort um væri að ræða læknamistök eða ekki og niðurstaðan var ótvíræð, greiningin var röng, meðferðin sem ég fékk röng og eftirliti með mér stórlega ábótavant. Dómurinn var fjölskipaður og mjög afdráttarlaus að öllu leit og ákvað ríkislögmaður fyrir hönd LSH að una dómi þessum.

Í seinni hluta málaferlanna voru svo ákvarðaðar þær bætur sem ég átti að fá fyrir mistökin og tjónið sem af þeim hlaust. Það mál fór eins vel og hugsast gat nema að því leitinu til að vegna lagaumhverfis sem ríkti þegar mistökin voru gerð þá heimiluðu þau lög sem giltu á þeim tíma, að draga mætti frá bótunum hluta af þeim bótum og lífeyrisgreiðslum sem ég hafði fengið og átti eftir að fá í framtíðinni. Þessi lög eða réttara sagt ólög gerðu það að verkum að bótafjárhæðin mín lækkaði um næstum því helming og eins og gefur að skilja var það mikið áfall. Þessum lögum var reyndar breytt 2009 þannig að ef atvikið hefði átt sér stað eftir þann tíma hefði ég fengið bæturnar óskertar. Þetta var súr biti að kyngja og satt best að segja er hann ekki kominn alveg niður ennþá, en hvað um það við þessu er ekkert að gera.

Það var ótal margt sem kom okkur á óvart í þessu máli og meðal annars varnir spítalans og viðhorf stjórnenda á þeim bænum. Reyndar vörðust þeir af svo mikilli hörku að okkur fannst, að við sáum ástæðu til að kvarta til persónuverndar hvernig starfsmenn LSH gengu um sjúkraskrá mína og unnu upp úr henni greinargerðir sem voru mjög einhliða. Virtust menn á þeim bænum ekki reknir áfram af sannleiksást heldur mikið frekar réttlætingum til varnar sínum manni. Í sjálfu sér gerðum við okkur ljóst að þeir væru að verja sig og reyna draga úr þeim skaða sem þeir höfðu orðið valdir að og virtust kæra sig kollótta um aðferðarfræðina, tilgangurinn helgar meðalið.

Okkur fannst mikilvægt að fá úr því skorið hjá persónuvernd hvort slík umgengni við sjúkragögn mín stæðist lög eða ekki. Í rauninni fannst mér varla skipta máli hvernig málið færi hjá persónuvernd, vinnulagið væri jafn lágkúrulegt og ófaglegt, hvort sem lög leyfðu vinnubrögðin eða ekki. Það fór svo þannig á endanum að persónuvernd komst að þeirri niðurstöðu að meðferð gagnanna úr sjúkraskrá minni stæðist lög þar sem þeir væru að verja spítalann. Gott og vel það var svosem ágætt að fá það út úr heiminum. 

- Auglýsing-

En það var eitt og annað sem kom fram í bréfaskriftum yfirmanna LSH meðan á gagnaöflun persónuverndar stóð sem okkur þótti athyglivert. T.d. skrifar þá starfandi lækningaforstjóri á einum stað að þeir hafi metið hagsmuni spítalans ofar friðhelgi einkalífs hjá sjúklingi þ.e. mér. Mér þótti þetta merkilegt viðhorf og út af fyrir sig umhugsunarefni að embættismenn taki þá ákvörðun upp á sitt einsdæmi yfir kaffibolla að rétt sé að víkja friðhelgi einkalífs til hliðar og taka hagsmuni stofnunarinnar framyfir, ja dæmi hver fyrir sig en mér finnst það óhemju vitlaust svo ekki kveði ég nú fastar að orði. 
Eins þótti mér merkilegt að lesa greinargerð sem þá starfandi lækningaforstjóri fékk tvo yfirlækna til að vinna fyrir sig. Ekki verður annað séð á þeirri greinargerð en hún sé hreinlega pöntuð til að gefa ákveðna mynd af mér sem rýri trúverðugleika minn og persónulega upplifun mína af veikindunum, engin tilraun er gerð til að hafa samband við meðferðarlækna mína til að greinargerðin gefi glögga mynd af ástandi mínu og getu, heldur er gefið er í skyn að ég sé latur og geri mér upp einkenni. Nú er það svo að báðir eru þessir yfirlæknar mikilsmetnir fyrir sín störf og eflaust afbragðs læknar en satt best að segja hafa þeir ekki skorað sérlega hátt í virðingarstiganum hjá mér síðan. Ég gæti talið upp mörg fleiri dæmi um oft á tíðum undarlegan málflutning og hártoganir þeirra landspítalamanna, en læt það kyrrt liggja. 

Það er þó merkilegt við þetta mál að í þau tvö skipti sem það komu fyrir dómstóla var málinu í hvorugt skiptið áfrýjað til hæstaréttar. Í fyrra skiptið ákvað spítalinn að una dómnum en í seinna skiptið höfðum við samband við ríkislögmann og skýrðum honum frá því að okkur finndist nóg komið og vildum gjarnan láta staðar numið og varð það að samkomulagi að áfrýja ekki til hæstaréttar.

Ég er fegin að þessu leiðindaharki er lokið og lít fram á veginn, þó minnugur þess læknis sem framkvæmdi mistökin og þeim sem stóðu fyrir því að verja vinnulagið og félaga sinn. Það er ekki gleymt og ekki fyrirgefið enda tel ég það varla í mínum verkahring að fyrirgefa það sem reynt er að verja og breiða yfir út í hið óendanlega, það er þeirra að lifa með það.

Það er engin vafi á því að trú mín og traust á íslenskt heilbrigðiskerfi hefur beðið hnekki og um tíma gat ég ekki hugsað mér að sækja þjónustu á LSH þar sem ég treysti þeim ekki. Þetta er afar slæmt og leiddi að hluta til til þess að við fjölskyldan fluttum af landi brott svo ég gæti notið góðrar þjónustu án þess að hafa áhyggjur af yfirhylmingaráráttu lækna. Eins hefur verið erfitt síðustu árin þegar nýir sjúkdómar hafa látið á sér kræla sem líklegt má telja að séu afleiðing mistakana með einum eða öðrum hætti, þá hefur enn og aftur verið tilhneiging lækna á Íslandi að gera lítið úr því.
Það skal þó tekið fram að á Landspítalanum vinnur framúrskarandi fólk við ummönnun og vel er hægt að finna góða lækna inna um. Hitt er annað mál að skemmdu eplin innan læknastéttarinnar eru að mínu mati fyrirferðarmeiri og því er verr.

Ég er feginn að hafa verið búsettur í Danaveldi síðustu tvö og hálfa árið og finnst það hafa verið góð ákvörðun hjá okkur fjölskyldunni að skipta um umhverfi. Hér hef ég notið þess að vera eins og hver annar sjúklingur án einhverrar sögu um mistök og átök frammi fyrir dómstólum, hérna er ég bara ósköp venjulegur hjartabilaður Björn og kann því vel.

Árósum 16. Desember 2011

Björn Ófeigsson

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-