Lyf sem innihalda virka efnið atomoxetín geta aukið hjartslátt og hækkað blóðþrýsting meira en áður var talið. Lyfjastofnun hvetur þá sem verða varir við óvenju hraðan púls, hjartsláttarónot, svima eða höfuðverk, að hafa samband við lækni.
Lyfjastofnun telur hins vegar ekki ráðlegt að hætta meðferð eða breyta nema í samráði við lækni.
Vinnuhópur um lyfjagát á vegum Lyfjastofnunar Evrópu, PhVWP, hefur samþykkt hertar varúðarreglur við notkun atomoxetíns, vegna hættu á klínískt mikilvægri hækkun á blóðþrýstingi og hjartsláttartíðni.
Mat á fyrirliggjandi gögnum úr klínískum rannsóknum á atomoxetíni sýnir að lyfið getur valdið meiri aukningu á blóðþrýstingi og hjartsláttartíðni en áður var talið. Hjá 6-12% sjúklinga með ADHD (barna og fullorðinna) hefur komið fram klínískt mikilvæg hækkun á blóðþrýstingi (15-20 mmHg eða meiri) og/eða aukning á hjartsláttartíðni (20 slög/mínútu eða fleiri) sem ágerðist og/eða reyndist þrálát í 15-32% tilvika.
Ekki er vitað til þess að lyfið hafi valdið alvarlegum aukavekunum á hjarta- og æðakerfið en ekki er hægt að útiloka alvarlegar aukaverkanir hjá litlum hópi sjúklinga sem upplifir vaxandi og/eða þráláta hækkun á blóðþrýstingi og/eða aukningu á hjartsláttartíðni.
www.mbl.is 27.12.2011