-Auglýsing-

Fékk nýtt hjarta en líður vel í dag

KjartanKjartan Birgisson fæddist með hjartagalla og fékk nýtt hjarta árið 2010. Hann hefur oft farið í hjartaþræðingu og fimm sinnum í hjartaskurðaðgerð. Í dag starfar hann sem sjálfboðaliði hjá Hjartaheillum.

Þegar Kjartan Birgisson var þriggja ára kom í ljós að hann var með meðfæddan hjartagalla. Bæði var hann með gat á milli hólfa sem ekki óx saman og með bilaða hjartaloku. “Þetta háði mér alltaf. Ég var þreklaus og gat ekki hlaupið þrátt fyrir að ég væri kröftugur krakki,” segir Kjartan sem gat aldrei hlaupið lengra en 50 metra.

Kjartan fór í sína fyrstu hjartaþræðingu 12 ára gamall árið 1972 á Íslandi. Hann fór aftur árið 1975 til að fylgjast með ástandi hjartans og í framhaldi af því í sína fyrstu skurðaðgerð árið 1976. “Hjartaþræðingarnar voru notaðar sem eftirlitskerfi til að fylgjast með hvort hjartað þyldi álagið fram að fyrstu aðgerð. Beðið var með þá aðgerð þar til ég var 16 ára en á þeim aldri er hjarta drengja talið fullvaxið,” útskýrir Kjartan. Í aðgerðinni var gert við gatið en slíkt væri hægt að gera með þræðingu í dag. Þá var einnig skipt um hjartaloku.

Eftir aðgerðina var fylgst með hjartalokunni með hjartaþræðingu en Kjartan þurfti á fleiri skurðaðgerðum að halda og fór alls í fimm slíkar. Í þeirri síðustu, árið 2010, fékk Kjartan nýtt hjarta. “Eftir þá aðgerð fór ég í mjög margar þræðingar þar sem tekin voru sýni úr hjartanu. Það má því segja að hjartaþræðingar hafi fylgt mér alla tíð,” segir Kjartan. Hann telur víst að hann væri ekki á lífi ef hjartaþræðingartækja nyti ekki við. “Það komu þrisvar í ljós hafnanir á nýja hjartanu við reglubundið eftirlit sem hefðu ekki komið í ljós öðruvísi,” segir Kjartan en hann hefur alls farið í yfir tíu þræðingar á ævinni.

Í dag líður Kjartani vel. “Þetta hefur gengið vonum framar. Lífið er yndislegt, sérlega ef litið er til þess að fyrir fjórum árum var ég að leita mér að rafskutlu til að komast milli staða. Í dag get ég hlaupið tíu kílómetra og verið góður á eftir.”

Kjartan er hægt og rólega að ná upp starfsgetu og starfar sem sjálfboðaliði hjá Hjartaheillum en félaginu segist hann eiga mikið að þakka. “Í mínum mestu veikindum hjálpaði fólkið hér mér í að finna greiningu. Ég var búinn að fara í ótal aðgerðir og skoðanir en það fannst aldrei almennileg skýring. Þá fékk ég nýjan hjartalækni sem las sig í gegnum gögnin mín og sá að þetta var hjartabilun og hjartaskipti mín eina lækning.”

- Auglýsing-

Kjartan hefur ekki fulla starfsgetu en reynir að leggja áherslu á að æfa sig og þjálfa til að geta tekist á við vinnudaginn. “Ég lít á þetta sem starfsþjálfun. Það gefur lífinu gildi að koma í Hjartaheill og hitta fólk í stað þess að hanga heima.”

Pistillinn birtist í Fréttablaðinu í dag.

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-