-Auglýsing-

Hin breiðu bök og skömm stjórnmálamanna

Sandkorn úr hnefaÞað er með töluverðum trega og sorg í hjarta sem ég færi í letur þennan pistil og ég er sannfærður um margir deili með mér þeim tilfinningum sem ganga til sinna starfa í dag.

Ég hef ekki lagt það í vana minn að nota þennan vettvang til að opinbera stjórnmálaskoðanir mínar en í ljósi þess að sannfæringar mínar á því sviði eru ekki lengur til staðar tel ég óhætt að viðra skoðanir mínar á síðustu vendingum stjórnarherranna hér í landi, ég get með öðrum orðum ekki orða bundist.

-Auglýsing-

Ég veiktist og fékk hjartaáfall í febrúar 2003, 37 ára gamall, en fékk vitlausa greiningu og meðferð vegna mistaka sem voru viðurkennd með dómi. Niðurstaðan varð 75% örorka, hjartabilun, verulega skert þrek og skert lífsgæði. Yfir þessum örlogum mínum hef ég aldrei kvartað.

Málaferlin við ríkið tóku átta og hálft ár þar til endanleg niðurstaða fékkst og það er ömurlegt að það taki almenning svo langan tíma að fá réttlætinu fullnægt. Bæturnar sem mér voru dæmdar voru lækkaðar um helming vegna úreltra laga sem voru í gildi þegar ég veiktist. Það sem ég fékk fyrir rest jafngilti 60.000 krónum á mánuði út starfsævi mína.

Forgangsröðun og stjórnmál. 

Árið 2009 fannst þáverandi vinstristjórn frábær hugmynd að svipta öryrkja og gamla fólkið kjarabótum sem þó höfðu fengist í gegn, sækja það fé í þau „breiðu bök.“

- Auglýsing-

Ég var flokksbundinn sjálfstæðismaður í 25 ár, var munstraður í flokkinn 16 ára gamall á Sauðárkóki af Eyjólfi Konráð Jónsyni og var stoltur yfir. Þegar sjálfstæðismenn misstu niður um sig í Reykjavík haustið 2007 sagði ég mig úr flokknum þar sem ljóst var að þetta var ekki lengur minn flokkur.

Ég kaus flokkinn aftur í vor þar sem ég trúði því að kjör okkar sem hafa hingað til höfum verið hluti af „breiðu bökunum“ yrðu leiðrétt. Ég hafði rangt fyrir mér. Ríkisstjórnin ákvað að leiðrétta fyrst kjör þeirra lífeyrisþega sem fá mestan lífeyri frá lífeyrissjóðum, með því að minnka skerðingar. Við hinir máttum éta það sem úti frýs.

Nú hefur verið ákveðið að setja gjald á þá sem leggjast inn á spítala. Það vill svo til að þeir sem leggjast inn á spítala eru í flestum tilfellum bráðveikt fólk, eldri borgarar og öryrkjar. Enn og aftur ætla stjórnarherrarnir að sækja aura í vasa þeirra sem minna mega sín, eða „breiðu bakanna.“ Skömm þeirra er mikil.

Ég bjó í þrjú ár í Danmörku og þar komu oft upp undarlegar sparnaðarhugmyndir en nánast alltaf var komið í veg fyrir að þeir sem minna máttu sín þyrftu að blæða, enda hafa þeir þar, sterk sjúklingasamtök. Þar var viðurkennt að fólk þyrfti ákveðnar tekjur til að lifa mannsæmandi lífi, svo er ekki hér á landi. Sjúklingasamtök á Íslandi eru afspyrnuslöpp í því að berjast fyrir sitt fólk og í raun varla sjáanleg í opinberri umræðu með örfáum undantekningum og í sérstökum tilfellum.

Ég fylgdist með netinu í gær og sá þar nokkra stjórnmálamenn senda frá sér tilkynningar og svara í kommentakerfum. Þeim fannst þetta mörgum hverjum skrambi gott frumvarp en fólk skyldi bara ekki hvað fyrir þeim vakti og fólk ætti bara að fylgjast með umræðunum, þar tækju málin einhverjum breytingum.

Guð hjálpi mér, á ég enn einu sinni að fara að treysta stjórnmálamönnum fyrir því að komast að skynsamlegri niðurstöðu í umræðum? Er nema furða að almenningur geti ekki tekið stjórnmálamenn mjög alvarlega og beri takmarkaða virðingu fyrir þeim. Ég hlustaði líka á stjórnmálamenn tala í gær og satt best að segja varð ég þyngri á brún við hverja setningu sem hraut af munni þeirra, þetta var ekki mitt fólk og talaði ekki mínu máli.

Þið verðið að fyrirgefa en ég hef ekki mikla trú á því að hér verði lífvænlegt fyrir venjulegt fólk að lifa næstu áratugina, hvað þá sjúklinga, öryrkja og eldri borgara. Forgangsröðunin er alla vega ekki þessu fólki í hag.

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-