-Auglýsing-

Erfiðleikar og staðurinn handan við orðin

“Málaferli vegna mistaka sem áttu sér stað við greiningu mína og meðferð í febrúar 2003 tóku níu ár, það tók í”

Þremur mánuðum eftir hjartaáfallið voru afleiðingarnar að koma í ljós. Ekkert gekk að berja í mig þreki, ég var gráfölur og endurhæfing mín fór að mestu fram þannig að ég lá á bekk og útlitið ekki glæsilegt.

Enn var ég kominn inn á spítala og nú voru liðnir tæpir þrír mánuðir frá því ég fékk hjartaáfallið og batinn hafði látið á sér standa en síðustu sex vikurnar hafði ég verið á Reykjalundi. Smám saman var að renna upp fyrir mér að afleiðingar þess að hafa verið rangt greindur og tafir á réttri greiningu voru skelfilegar. Í ljósi alls þess sem á undan var gengið var ég tortryggin en treysti þó hjartalækninum mínum, ennþá.

Ég átti að fara í hjartaþræðingu þar sem átti að freista þess að meta ástand hjartans. Þræðing var kvalræði, læknirinn sem þræddi mig var kaldlyndur og harðneskjulegur í allri framgöngu, hann var fantur.

Þegar þræðingunni var lokið tók hann leggina úr náranum í einum rykk sem olli mér miklum sársauka sem nísti um allan líkamann. Hann sýndi mér enga samúð. Hann þrýsti fast í nárann til að stöðva blæðinguna, kom þvingunni fyrir og herti að um leið og hann sagði mér að þræðingin hefði komið vel út og ég ætti bara að vera betri.

Ég var aumur eftir og þegar yfirlæknirinn kom til mín og endurtók að ég ætti að vera betri þá leist mér ekki á blikuna. Mér fannst það þungur kross að bera að þrátt fyrir öll hjartabilunareinkennin sem ég hafði þá virtust læknarnir ekki taka umkvartanir mínar sérlega alvarlega og það verður að segjast eins og er að það var mikið áfall.

Einn morguninn kom svo á stofugang sérfræðingur sem sagði mér að hjartað virkaði alls ekki illa og ég ætti að vera hressari og sneri sér að félögum sínum hálfglottandi að sennilega væri eitthvað ógreint eins og t.d. síþreyta að hrjá mig. Ég var miður mín og fullur efasemda um mitt eigið geðheilbrigði eftir þessa innlögn og framgöngu læknanna. Hvernig mátti það vera að upplifun mín á líðan minni væri svo gjörólík skoðunum læknanna þriggja á spítalanum?

- Auglýsing-

Í þessari innlögn hafði mér verið gefið lyf sem bæta átti samdráttarhæfni hjartans þannig að það átti að dæla betur og varð ég nokkuð hressari um tíma, ég varð vonbetri. Þetta varð þó skammgóður vermir því tveim til þrem vikum eftir lyfjagjöfina fór að halla undan fæti að nýju. Ég var kominn aftur á Reykjalund og harmaði hlutskipti mitt en þakklátur fyrir að eiga þar skjól.

Fantaskapurinn sem læknirinn hafði sýnt mér í þræðingunni hafði þær afleiðingar að ég var blár og marinn niður á hné, fjólublár og gulur upp á kvið og svona var ég fram á mitt sumar. Ég var sár, reiður og fannst eins og ég hefði verið svikinn.

Fjórum dögum eftir hjartaáfallið í febrúar hafði yfirlæknirinn kallað mig inn á skrifstofu og sagt mér að honum þætti leitt að rétt greining hefði tekið svona langan tíma og hann skildi vel ef ég væri honum reiður og vildi skipta um lækni. Ég skildi hann eins og hann væri að biðjast afsökunar á atvikinu en nú sagði hann það vera misskilning í mér, það væri fullkomlega eðlilegt að greining tæki stundum langan tíma þegar einkenni væru ekki dæmigerð eins og í mínu tilfelli.

Þessi síðasta uppákoma og viðbrögð læknana gerðu það að verkum að ég var orðinn enn sannfærðari um að það hefðu verið gerð mistök við greininguna og meðferðina á mér í febrúar. Allt hafði þetta tekið of langan tíma og ég skilinn eftir langtímum saman, vanræktur.

Ég sannfærðist enn frekar um að eitthvað hefði farið stórkostlega úrskeiðis. Ég var líka orðinn sannfærður um að læknarnir á spítalanum vissu það þó þeir segðu annað, mismunurinn á líðan minni og skoðunum þeirra var svo mikill að það var útilokað að það væri tilviljun. Ég treysti þeim ekki.

Fullviss um að ég hefði á réttu að standa leitaði ég til lögmanns og sagði honum alla sólarsöguna um samskipti mín við læknana á Landspítalanum. Lögmaðurinn tók mér vel og var ákveðið að hann myndi skrifa spítalanum bréf þar sem farið væri fram á að spítalinn viðurkenndi að mistök hefðu verið gerð og að um bótaskylt atvik væri að ræða .

Mér til undrunar var erindinu hafnað og sjúkrahúsið vísaði því algjörlega á bug að eitthvað óeðlilegt hefði átt sér stað og studdi það meðal annars með greinargerð frá yfirlækninum á Hringbraut. Það rann upp fyrir mér að Það væri greinilega tvennskonar sannleikur í gangi, minn sannleikur og þeirra, ég vildi komast að því hvor hefði rétt fyrir sér og því var ekkert annað að gera í stöðunni en að undirbúa lögsókn á hendur spítalanum.

Mitt í öllu þessu og þrátt fyrir erfiða daga þá gladdi það mitt hrjáða hjarta að í lok maí gerðust þau undur og stórmerki að inn í líf mitt gekk kona sem færði mér von um betri daga mitt í öllum hörmungunum. Konan var hún Mjöll, Mjöllin mín.

- Auglýsing -

Okkur hafði alltaf komið vel saman en það hafði reynst þrautin þyngri að stilla saman strengina fyrir hjartaáfall þar sem ég hafði haft tilhneigingu til þess áður en ég fékk hjartaáfallið að búa til meiri flækjur en einum manni er hollt og átti þetta ekki hvað síst við um kvennamál mín.

Mér reyndist þetta dálítið erfitt í fyrstu, en Mjöll býr yfir einstökum hæfileikum. Ég spurði sjálfan mig að því hvaða kona með réttu ráði vildi mig þar sem ég vissi varla hvort ég væri að koma eða fara frá þessari veröld, ég sem hafði þá mynd af sjálfum mér að ég væri í raun orðinn aðeins agnarsmátt brot af sjálfum mér.

Sjálfsmynd mín var illa skökk og kannski ekki við öðru að búast miðað við það sem á undan var gengið en ég fann samt sem áður í sambandi okkar Mjallar vonarneista um að geta eignast líf á ný.

Þetta gerðist allt á örskammri stund og áður en ég vissi af hafði fræjum ástar verið sáð í löskuðu hjarta mínu og hvað svo sem mér fannst um sjálfan mig þá skynjaði ég undarlega tilfinningu innra með mér. Ég veit ekki hvort ástin kveikti vonina eða öfugt, en ég gerði uppgötvun. Ástin lifir í andanum en ekki efninu, á stað þar sem himininn er blárri og sólsetrin fegurri.

Á stað þar sem ríkir eilífur friður og enginn hefur áhyggjur af ristruflunum eða mari, særðu stolti eða brotinni sjálfsvirðingu.

Á stað sem er heilagur og handan við orðin.

Dagbókarbrot frá því í maí 2003

Björn Ófeigs.

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-