-Auglýsing-

Öryggi sjúklinga

hendurÍ gær voru sjö ár síðan ég fékk hjartaáfall. Í gær voru sjö ár síðan starfsmenn Landspítala háskólasjúkrahúss tóku sér átta klukkustundir til að greina ástand mitt og veita mér viðhlítandi meðferð. Í gær voru sjö ár síðan að mistökin áttu sér stað og hefur það verið staðfest með dómi svo óyggjandi er. Fram kom í réttarhaldinu að sérfræðilæknirinn á vakt hafði ekki skoðað öll gögn sem búið var að vinna þegar hann hitti mig auk þess sem hann skoðaði ekki ný gögn þegar þau bárust heldur nokkrum klukkustundum síðar.
Sérfræðilæknirinn bar við önnum á öðrum deildum og gaf í skyn að ábyrgðina mætti skrifa á skipulag og ferla. Satt best að segja fannst mér það léleg málsvörn og þykir enn. Sérstaklega þegar haft er í huga hvernig starfsmenn Landspítala háskólasjúkrahúss hafa haldið áfram að verja þessi mistök löngu eftir að dómur féll. Þetta var árið 2003 löngu fyrir kreppu.

Ég verð aldrei samur maður og ég öðlast aldrei aftur þá heilsu sem ég hafði. Ég lifi með hjartabilun og verulega skert lífsgæði. Engin frá LSH hefur nokkru sinni beðið mig afsökunar eða látið í ljós að þar þyki fólki leitt að mistökin hafi átt sér stað.

Frá þessum tíma hefur öryggi sjúklinga verið mér hugleikið. Undanfarnar vikur hefur mér oft verið hugsað til þeirra vinnubragða sem ég hef fengið að upplifa frá mörgum í læknastétt, stjórnendum LSH og jafnvel eftirlitsaðilum. Á undanförnum vikum hef ég fylgst með því hvernig sumir þessara aðila hafa risið upp á afturlappirnar og brugðist illa við gagnrýni á vinnubrögð.
Lái mér hver sem vill en satt best að segja ber ég ekki mikið traust til þeirra sem reyna að kæfa niður alla umræðu um öryggi sjúklinga og svara jafnvel gagnrýni með hroka eða taka ekki tillit til athugasemda varðandi vinnubrögð.  Ég held að margir deili þeim áhyggjum með mér að það sé mjög alvarlegt mál að jafnvel sé níðst á heilu starfsstéttunum í nafni sparnaðar sem svo bitnar á öryggi sjúklinga þegar upp er staðið. Fregnir um niðuskurð í hjúkrunarnámi auka enn frekar á þessar áhyggjur mínar.

Ég sem sjúklingur hef staðið í málaferlum við LSH í á áttunda ár og á þeim tíma hef ég fengið að kynnast þeim meðulum sem læknastéttin notar til að verja sig og sína. Til þess eru þeir tilbúnir til að verja miklum fjármunum og tíma.  Ég geri ekki ráð fyrir öðru en svipuðum aðferðum sé beitt á alla þá sem leggja fram gagnrýni á störf þeirra og starfsaðferðir sem þar ráða ríkjum. Sú staðreynd gerir það að verkum að á köflum velti ég því alvarlega fyrir mér hvort þessir aðilar eru tilbúnir til að kasta meiri hagsmunum fyrir minni vegna þess að það hentar þeim og tryggir þeim völd. 
Það hefur til dæmis vakið athygli mína að mikið er talað um landflótta lækna og af einhverjum ástæðum eiga þau sjónarmið mjög greiða leið inn í fjölmiðla. Ég veit ekki betur en að viðvarandi skortur sé í læknastétt á öllum norðurlöndunum þannig að vandamálið er þekkt.  Það er aftur á móti ekki mikið fjallað um þá framtíð sem við blasir í heilbrigðisþjónustu framtíðarinnar ef niðurskurði verði beitt af því afli sem nú virðist ætla að verða raunin á um allt land.

Það er dapurlegt að fylgjast með þeirri aðför sem nú á sér stað gagnvart heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni í nafni niðurskurðar. Kannski er það dapurlegast hvernig stjórnendur LSH virðast nota tækifærið og reyna að kippa stoðunum undan rekstri margra heilbrigðisstofnanna í kring um sig undir þeim formerkjum að á LSH sé stóri bróðir og þar eigi að vera upphaf og endir alls.

Því skal haldið til haga að ég efast ekki um, þrátt fyrir gagnrýni mína á ýmsa í læknastétt að meginþorri þeirra sem þar starfa sinna sínum störfum af mikilli kostgæfni og eiga heiður skilið fyrir sín störf.
Ég geri mér grein fyrir því að heilbrigðismál eru vandmeðfarinn málaflokkur. En einmitt þess vegna er nánast óþolandi sá hringlandaháttur sem boðið hefur verið upp á af ríkisvaldinu á undanförnum misserum. Það er óþolandi að starfsfólk innan þessa geira þurfi svo mánuðum og jafnvel árum skiptir að sitja undir niðurskurðarhníf annarsvegar og þöggunarlegum stjórnunarstíl og valdahroka hinsvegar. Það er mín skoðun að öll sú óvissa sem heilbrigðisstéttir eru settar í hvað eftir annað hér á landi vegi þyngra í atgervis eða landflótta heilbrigðistarfsmanna en kreppa.  Eftir allt þá eru sennilega fáar stéttir í landinu sem þekkja þá tilfinningu jafn vel að vera undir niðurskurðarhnífnum eins og heilbrigðisstarfsfólk.

- Auglýsing-

Árósum 10. Febrúar. 2010
Björn Ófeigsson

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-