-Auglýsing-

Ekki gera ekki neitt – Um byggingu sameinaðs Landspítala

03-landspitali-torg-1 minni1Eftir Ölmu D. Möller: “Sameining Landspítala við Hringbraut mun auka gæði og öryggi heilbrigðisþjónustunnar. Jafnframt munu fjármunir sparast með hagkvæmari rekstri.”

Ofangreindu slagorði innheimtuþjónustu (notað með leyfi) er ætlað að vekja menn til umhugsunar um að stundum er dýrkeypt að aðhafast ekkert. Þannig er því einmitt farið með húsnæði og rekstur Landspítala. Við frestun á endanlegri sameiningu Landspítalans myndu tapast miklir fjármunir, annars vegar í óhagkvæmum rekstri og hins vegar í óhjákvæmu viðhaldi og viðbyggingum. Þá er ljóst að lélegur aðbúnaður, sem ekki er í takt við þarfir sjúklinga og starfsfólks, mun koma niður á öryggi sjúklinga og gæðum þjónustunnar. Loks er ótalið að núverandi húsnæði mun engan veginn anna aukinni þjónustuþörf vegna fjölgunar þjóðarinnar og hækkunar meðalaldurs. Sameining og stækkun Landspítalans mun hins vegar auka virði heilbrigðisþjónustunnar (virði = gæði/kostnaður) með því að hvort tveggja auka gæði og minnka kostnað.

Gæði og öryggi
Með gæðum í heilbrigðisþjónustu er átt við að meðferð sjúklinga sé örugg, árangursrík, skilvirk, rétt tímasett, notendamiðuð og að jafnræðis sé gætt.

Ljóst er að bættur aðbúnaður mun auka öryggi sjúklinga. Í nýja spítalanum munu sjúklingar vistast á einbýlum með sérsalerni en vitað er að slíkt fækkar spítalasýkingum. Það aftur bætir árangur meðferðar, styttir legutíma og lækkar kostnað. Einnig verður betur hægt að virða friðhelgi sjúklinga og óumdeilt er að rétt hannað og fallegt umhverfi flýtir bata.

Framfarir í meðferð margra sjúkdóma hafa orðið vegna sérhæfingar en einnig vegna aukinnar teymisvinnu margra sérfræðinga. Núverandi skipting starfseminnar í mörg hús torveldar teymisvinnu og leiðir til flutninga á sjúklingum og starfsfólki milli húsa. Flutningar á mikið veikum sjúklingum eru því miður oft nauðsynlegir og beinlínis áhættusamir.

Þá er víst að í hentugu húsnæði verður auðveldara að skipuleggja og bæta starfsemina t.d. flæði sjúklinga og verkferla. Einnig er gert ráð fyrir margs konar tækninýjungum sem auka munu gæði.

- Auglýsing-

Kostnaður
Athuganir sýna að sameining starfseminnar við Hringbraut er hagkvæm til skemmri og lengri tíma. Í ársgamalli skýrslu norska ráðgjafarfyrirtækisins Hospitalitet AS (sjá http://www.nyrlandspitali.is/nyrlandspitali/upload/files/driftsokonomisk_analyse_landsspitali_111020-final_version.pdf) er áætlað að rekstrarlegur ávinningur með sameiningu Landspítalans verði um 2,6 milljarðar króna á ári sem samsvarar 7% af rekstrarkostnaði ársins 2011. Sparnaðurinn fæst einkum með betri nýtingu mannafla en einnig minni flutningskostnaði og leigu. Stuðst var við spár Hagstofu Íslands um þróun mannfjölda og aldursdreifingu þjóðarinnar til ársins 2025 og rauntölur LSH frá 2010.

Norsku sérfræðingarnir mátu einnig hagræðingu til lengri tíma (til ársins 2050), með s.k. nettó núvirði (net present value) þar sem metinn er heildarábati umfram heildarkostnað að teknu tilliti til fjármagnskostnaðar (miðað við 3% vexti), byggingarkostnaðar, rekstrarkostnaðar húsnæðis og hagræðis í rekstri. Niðurstaðan varð að nettó núvirði þessarar fjárfestingar væri 2,3 milljarðar króna. Þetta þýðir að hagræðing af fyrirhugaðri byggingu gerir betur en að greiða upp byggingarkostnaðinn. Nettó núvirði þess að reka LSH án nýbyggingar er hins vegar verulega neikvætt, jafnvel þegar miðað er við hærri vexti en 3%.

Staðsetning við Hringbraut
Mikið hefur verið rætt og ritað um þá ákvörðun að byggja við Landspítala Hringbraut. Í fullkomnum heimi hefði eflaust verið best að byggja nýtt sjúkrahús frá grunni á vel völdum stað. Það er hins vegar meira en tvöfalt dýrara en að byggja við núverandi sjúkrahús við Hringbraut þar sem hægt er að nýta áfram 56.000 fermetra í eldri byggingum. Nauðsynlegt er að byggja sem fyrst s.k. bráðakjarna, rannsóknahús og sjúkrahótel, samtals 77.000 fermetra. Kostnaður við þennan áfanga er 48 milljarðar króna samkvæmt nýrri áætlun. Áætlaður kostnaður við að byggja nýtt sjúkrahús frá grunni er hins vegar að lágmarki 130 milljarðar.

Margir hafa lýst yfir áhyggjum varðandi umferð. Þær rannsóknir sem gerðar hafa verið benda til að þær séu orðum auknar og vísast til sérfræðinga Reykjavíkurborgar varðandi þetta efni, sjá http://www.nyrlandspitali.is/nyrlandspitali/upload/files/umferd/landspitali_umferd_16_12__2011.pdf.

Mikil vinna hefur verið lögð í að áætla þarfir spítalans til framtíðar og að húsnæðið verði sem hentugast. Samanburður við sambærileg sjúkrahús á Norðurlöndunum sýnir að nýting fyrirhugaðs húsnæðis er góð og áætlanir hóflegar. Fyrir liggja teikningar sem langþreytt starfsfólk er ánægt með. Ef ekki verður bætt úr þeirri aðstöðu sem sjúklingum og starfsfólki er búin er hætta á auknum atgervisflótta, einkum að heilbrigðisstarfsmenn sem hlotið hafa sérfræðimenntun við betri aðstæður erlendis snúi ekki heim.

Margt fleira mætti nefna sem rök fyrir áframhaldandi framgangi verkefnisins en hér verður staðar numið. Það er kominn tími til að leggja til hliðar mismunandi sjónarmið og sameinast um að starfsemi Landspítalans verði sameinuð í húsnæði sem hæfir nútímaheilbrigðisþjónustu.

Landsmenn eiga það skilið.

Höfundur er yfirlæknir gjörgæsludeildar Landspítala við Hringbraut.

- Auglýsing -

Greinin britist í Morgunblaðinu 22.11.2012

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-