-Auglýsing-

Ekki bara sjúkdómur eldra fólksins

iStock 000010762149XSmallUnga fólkið trúir því ekki að það geti fengið hjartaáfall en það er samt til í dæminu,“ segir Þórdís Jóna Hrafnkelsdóttir læknir.

Endrum og eins berast fregnir af fólki sem fær kransæðastíflu fyrir fertugt. Davíð O. Arnar, yfirlæknir á Hjartagátt Landspítalans, segir það þó ekki tilfinningu sína að hjarta- og æðasjúkdómar hafi aukist meðal ungs fólks. „Svona mál eru samfélaginu jafnan mikið áfall og umræða um þau er áberandi á samfélagsmiðlum. Ég skil það því vel að fólk fái á tilfinninguna að tilfellum hafi fjölgað,“ segir hann.

Davíð segir það mjög sjaldgæft að fólk undir þrítugu fái hjartaáfall vegna kransæðastíflu. „Sá yngsti sem ég man eftir var 25 ára,“ segir hann og bætir við að það komi læknum minna á óvart þegar þetta gerist hjá fólki á milli þrítugs og fertugs.

Algengasta banamein kvenna

Þórdís Jóna Hrafnkelsdóttir læknir er í forsvari fyrir átakið „Go red“. Átakið miðar að því að fræða konur um áhættuþætti og einkenni hjarta- og æðasjúkdóma. Þessir sjúkdómar eru algengasta dánarorsök kvenna og karla á Íslandi en einkennin geta verið ólík eftir kyni.
„Á alþjóðavísu reynum við að hafa áhrif á stefnumótun stjórnvalda og stuðla að því að þeir sem rannsaka hjarta- og æðasjúkdóma taki mið af konum líka,“ segir Þórdís.

Hún segir það óalgengt að konur fái hjartaáfall fyrir fertugt en það sé þó ekki óþekkt. „Konur sem hafa fengið meðgöngusykursýki eða háþrýsting á meðgöngunni þurfa að vera sérstaklega meðvitaðar þar sem slíkt eykur líkurnar á hjarta- og æðasjúkdómum síðar meir,“ segir hún. Þórdís mælir með því að konur fari í skoðun um fertugt og fyrr ef sterk ættarsaga um kransæðasjúkdóma er til staðar.

- Auglýsing-

Vilmundur Guðnason, forstöðumaður Hjartaverndar, segir reykingar oft koma við sögu þegar fólk fær hjartaáfall fyrir fertugt. Kókaínneysla getur líka valdið verulegum skaða á hjarta- og æðakerfinu. „Það veldur krampa í æðum, mjög örum hjartslætti og hjartadrepi,“ segir Vilmundur.

Hann nefnir einnig að fólk sem er með arfgenga blóðfituröskun geti fengið hjarta- og æðasjúkdóma ungt. „Fólk með slíka röskun getur fengið áfall ef það reynir of mikið á sig,“ segir hann. Einn af hverjum 500 Íslendingum er með arfgenga blóðfituröskun.

„Þessir einstaklingar eru oft með kólesteról sem er þrefalt eða fjórfalt hærra en eðlilegt er,“ segir Vilmundur og bætir við að blóðfita þessa fólks sé há frá blautu barnsbeini en hjá öðrum byrji blóðfitan ekki að hækka fyrr en um og eftir þrítugt. „Líkami þessa fólks ræður ekki við fituna. Að vera með alltof hátt kólesteról í mörg ár getur samsvarað því að hafa reykt pakka á dag í mörg ár,“ segir Vilmundur. Hann telur afar mikilvægt að meðhöndla þá einstaklinga sem hafa ættgenga blóðfituröskun.

„Það eru til mjög öflug lyf sem lækka blóðfituna og með því að taka þau hefur þetta fólk oft sömu lífslíkur og aðrir,“ segir hann. Vilmundur ráðleggur fólki að leita læknis finni það verk í brjóstholi sem minnir á kransæðaverk. Aldur skipti þar ekki máli.

Thor Aspelund, tölfræðingur hjá Hjartavernd, hefur rannsakað tíðni hjartaáfalla. Rannsókn sem hann gerði ásamt Vilmundi Guðnasyni og fleirum sýnir að á árunum 1981-2006 fækkaði dauðsföllum vegna hjarta- og æðasjúkdóma um 80 prósent hjá fólki á aldrinum 25-74 ára. Hjartaáföllum fækkaði um 66 prósent á sama tíma. Thor segir að breyttur lífsstíll hafi haft langmest að segja. Vilmundur tekur undir það. „Tíðni dauðsfalla af völdum hjarta- og æðasjúkdóma hefur fallið jafnhliða neyslu á feitum matvælum og transfitu,“ segir hann og tekur fram að það sé aldrei of seint að bæta lífsstílinn. „Jafnvel þótt fólk sé komið með kransæðasjúkdóm á byrjunarstigi er hægt að hægja á sjúkdómnum og þróunin getur jafnvel snúist við.“

Fréttaskýring Arnhildur Hálfdánardóttir

arh31@hi.is

Morgunblaðið 11.03.2013

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-