-Auglýsing-

Vilt þú gefa líf?

iStock 000008004887XSmallÍ veröld þar sem dauðinn er tabú er skiljanlegt að fólki leiði almennt ekki hugann að því hvað skuli gera við líkama þess þegar það kveður þennan heim. Fæstir hafa hugleitt eigin jarðarför, hvað þá hvort gefa eigi úr þeim líffæri. Það er þó þess virði að staldra við og svara þeirri spurningu, því dauði getur gefið líf.

Í þeim könnunum þar sem fólk þarf að svara þessari spurningu virðist mikill meirihluti vilja að líffærin nýtist öðrum ef til þess kemur, eða um 80–90 prósent þátttakenda. Hlutfall lifandi nýrnagjafa hér á landi er einnig með því hæsta sem þekkist sem bendir einnig til þess að þegar á reynir sé fólk almennt jákvætt fyrir líffæragjöf.

-Auglýsing-

Fæstir hafa þó orð á því við sína nánustu eða skrá þennan vilja. Umræðuefnið er fjarlægt, erfitt og óþægilegt. Það lendir því á ­aðstandendum að taka ákvörðunina mitt í erfiðu sorgarferli. Sjúkrahúsprestur sem skrifaði um líffæragjafir reyndi að lýsa þessum aðstæðum: „Andspænis dauðanum er ekki alltaf allt sem sýnist og margt af því sem bærist hið innra tekur meira til hjartans en höfuðsins ef svo má að orði komast. Það er til að mynda erfitt að færa skynsamleg rök fyrir því að látinn maður sé færður í ullarsokka af því að hann var alltaf svo fótkaldur. Krufning og líffærataka eru aðgerðir sem þarf að framkvæma af virðingu fyrir líkama látinnar manneskju. Sú virðing nær út yfir gröf og dauða.“

Samkvæmt honum samþykkja flestir líffæragjöf ef þeir eru þess fullvissir að það hafi verið vilji hins látna. Í þeim tilvikum getur það hjálpað að vita hverjum þessi gjöf bjargaði. Slíkt hefur jafnvel ratað í minningarbækur ásamt sálmaskrá og minningargreinum eða verið innrammað uppi á vegg.

Tilhugsunin getur þó verið óbærileg og í um fjörtíu prósentum tilvika hafna aðstandendur því að líffæri séu gefin úr ástvinum þeirra. Ef hægt væri að ná hlutfallinu niður um helming gæti það bjargað þremur til fimm mannslífum á ári.

Í vetur afgreiddi Alþingi þings­ályktunartillögu til ­velferðarnefndar varðandi það hvort fela eigi velferðar­ráðherra að semja frumvarp sem gerir ráð fyrir ætluðu samþykki í stað ætlaðrar neitunar, sem þýðir að látinn einstaklingur verður sjálfkrafa líffæragjafi nema hann hafi látið í ljós vilja til annars eða ­aðstandendur hafni því. Þannig á að létta aðstandendum ákvörðunina og fjölga líffæragjöfum. Auk er bent á að eðlilegra sé að ganga út frá samþykki en neitun nema annað sé tiltekið, því „í siðuðu samfélagi sé eðlilegra að gera ráð fyrir því að manneskjan vilji koma náunga sínum til hjálpar í neyð en að hún hafni því,“ eins og heimspekiprófessorinn sagði í bókinni Siðfræði lífs og dauða.

- Auglýsing-

Á undanförnum árum hefur eftirspurnin eftir ígræðslum vaxið jafnt og þétt. Biðlistarnir eru langir og sumir lifa biðina ekki af. Skortur á líffærum er mikill hvarvetna í heiminum og á Vesturlöndum deyja nú fleiri sjúklingar á biðlista en fá ný líffæri. Einn látinn einstaklingur getur hins vegar gefið allt að sjö einstaklingum annað líf.

Löggjöf ein og sér dugar skammt. Velferðarnefnd komst því að þeirri niðurstöðu á föstudag að velferðar­ráðherra skipi nefnd sem ætlað er að skoða fleiri leiðir til þess að fjölga líffæragjöfum, meðal annars möguleikann á því að krefja fólk svara í skattframtali eða læknisheimsóknum. Stærsta skrefið felst alltaf í því að fólk taki afstöðu og greini frá því ef það vill að líffærin nýtist öðrum ef þær kringumstæður skapast. Um leið og það léttir á sálarangist aðstandenda þá getur það orðið öðrum lífbjörg.

Leiðari skrifaður af Ingibjörgu Dögg Kjartansdóttir í dv. www.dv.is  11.03.2013

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-