-Auglýsing-

Einna flestar hjartaþræðingar á Íslandi

Um 190 manns bíða nú eftir að komast í hjartaþræðingu á Landspítalanum. Tekist hefur að stytta biðlistann verulega en í febrúar biðu um 250 manns eftir aðgerð. Þótt biðlistinn sé langur eru einna flestar aðgerðir gerðar hér í Evrópu.

Tíðni kransæðaþræðinga er hvað hæst hér á landi miðað við aðrar þjóðir Evrópu. Þetta sýna tölur sænskrar gæðaskrár sem Ísland á aðild að. Í Svíþjóð voru á árinu 2007 gerðar 402 kransæðaþræðingar á hverja 100 þúsund íbúa en 544 hér á landi. Munurinn nemur því 142 aðgerðum á hverja 100 þúsund íbúa. Í nýlegri grein sem Magnús Pétursson, fyrrverandi forstjóri Landspítalans, ritar bendir hann á að ef tíðni þessara aðgerða hefði verið hin sama hér og í Svíþjóð hefðu kransæðaþræðingar hér verið 426 færri og útgjöld vegna þeirra um 66 til 112 milljónum krónum lægri.

Þrátt fyrir mikil afköst hjartadeildar Landspítalans hefur verið langur biðlisti eftir því að komast í þræðingu. Nú bíða um 190 manns eftir slíkri aðgerð og segir Þórarinn Guðnason, hjartalæknir á Landspítalanum, að þeir sjúklingar sem lengst þurfi að bíða séu í um sjö mánuði á biðlistanum. Hann segir þá stöðu alls ekki góða en bendir á að tekist hafi að stytta listann en þegar verst var biðu um 250 manns. Auk þess sem þeir sem þurfi bráðaþræðingu komist ávallt strax að.

Þórarinn segir að þótt Íslendingar geri flestar kransæðaþræðingar í Evrópu ásamt Þjóðverjum og Svisslendingum sé alls ekki um oflækningar að ræða. “Við finnum meira af alvarlegum og lífshættulegum kransæðasjúdómum en Svíarnir og þræðum þó ekki fleiri sjúklinga með eðlilegar kransæðar en Svíar,” segir Þórarinn en þær upplýsingar telur hann benda til þess að íslenskir læknar vandi vel vinnubrögð sín þegar þeir velja þá sjúklinga sem talið er að þurfi á þræðingu að halda. Í nýlegri skýrslu OECD um heilbrigðismál kemur fram að tíðni dauðsfalla vegna hjartasjúkdóma er undir meðaltali á Íslandi miðað við önnur aðildarríki OECD en Þjóðverjar, (sem gera álíka margar aðgerðir og Íslendingar) eru undir meðaltalinu ásamt Svíum.

Gestur Þorgeirsson, yfirlæknir á hjartadeild Landspítalans, segir langa biðlista einkum skapast vegna skorts á legurýmum en þeim hafi fækkað mjög frá því eftir sameiningu spítalanna. “Það var veruleg fækkun eða úr um það bil 50 í 30 pláss. Þá voru líka dagdeildir á spítalanum áður fyrr en nú hafa þær verið lagðar niður og því þurfa allir að leggjast inn á legudeildir og oftar en ekki þurfa þeir að liggja á göngum,” segir Gestur um stöðuna. Þá bendir hann á að í Svíþjóð sé tíðni þræðinga mjög mismunandi eftir héruðum, sums staðar sé tíðnin meiri en hér gerist en annars staðar mun minni.

karen@frettabladid.is

- Auglýsing-

Fréttablaðið 20.04.2008

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-