-Auglýsing-

Dómur héraðsdóms í heild sinni

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 16. nóvember 2007 í máli nr. E-3992/2006:

-Auglýsing-

 

 

 

- Auglýsing-

Björn Ófeigsson

(Heimir Örn Herbertsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Guðrún M. Árnadóttir hrl.)

 

 

            Mál þetta var höfðað 27. júní 2006 og dómtekið 22. október 2007. Stefnandi er Björn Ófeigsson, Grundarhúsum 8, Reykjavík. Stefndi er íslenska ríkið.

- Auglýsing -

            Dómkröfur stefnanda eru þær að viðurkennd verði með dómi skaðabótaskylda stefnda vegna líkamstjóns sem stefnandi hlaut í kjölfar bráðakransæðastíflu sem starfsfólki Landspítala – háskólasjúkrahúss hafi fyrir mistök yfirsést að greina og veita meðferð við í tæka tíð þann 9. febrúar 2003. Þá krefst stefnandi þess að honum verði dæmdur málskostnaður að skaðlausu úr hendi stefnda líkt og málið væri ekki gjafsóknarmál.

            Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og honum tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati dómsins. Til vara er þess krafist að málskostnaður verði látinn niður falla.

I.

            Hinn 9. febrúar 2003 fékk stefnandi slæma verki fyrir brjóstið sem leiddu út í hendur og aftur í bak. Fór hann á slysa- og bráðamóttöku Landspítala – háskólasjúkrahúss (LSH) í Fossvogi, þar sem hann var innritaður kl. 16:25. Í bráðasjúkraskrá segir að við komu hafi hann verið fölur og illa haldinn af verk, en hann hefði fundið fyrir slæmum brjóstverkjum fyrr um daginn. Þá kemur fram að hann hafi verið slappur síðustu viku, verið með aukna mæði, leiðni út í báða handleggi og „stýfni“. Jafnframt segir að hann hafi ættarsögu um hjartasjúkdóma og hafi reykt í 20 ár. Hjartalínurit var tekið af honum og í bráðasjúkraskrá er getið um háa T-takka á hjartariti og e.t.v. „væg ST↑“. Línurit þetta liggur ekki fyrir í gögnum málsins og er það ekki til hjá LSH. Mæling á hjartaemsínum kl. 16:46 sýndi að S-CK-MB var 2,1, S-Trópónín T var <0,1 og S-Mýóglóbín var 32. Stefnanda var gefið magnyl, morfín og nitroglycerin.

            Þessu næst var stefnandi fluttur á bráðamóttökuna við Hringbraut og var hann innritaður þar kl. 17:39. Lyfjameðferðin í Fossvogi virðist hafa haft áhrif á líðan stefnanda að því leyti að honum leið betur fyrst eftir komu á Hringbraut. Í bráðasjúkraskrá, vegna komu á Hringbraut, segir að stefnandi hafi haft slæma brjóstverki sem byrjuðu skyndilega fyrr um daginn upp úr hvíld kl. 14:30. Verkurinn hefði minnkað og verið öndunartengdur. Hann væri búinn að vera slappur í viku, verið með ógleði, höfuðverk og fundið fyrir mæði daginn áður. Um kl. 16 hefði verkurinn versnað mjög og stefnandi verið kaldsveittur. Verk hefði leitt aftur í bak og báða handleggi. Þetta hefði verið öndunartengt. Einnig segir að verk hafi létt við morfín. Þá kemur fram að stefnandi hafi reykt í 20 ár, hann hafi ættarsögu um hjartasjúkdóma og sé of þungur.

            Fyrsta hjartalínurit sem tekið var á Hringbraut er tímasett kl. 17:41 og var því tekið við innritun. Mæling á hjartaemsínum kl. 17:40 sýndi að S-CK-MB var 2,3, S-Trópónín T var 0,03, og S-Mýóglóbín var 72. Talið var að stefnandi væri með gollurshússbólgu (pericarditis). Var honum gefið morfín og Voltaren Rapid, sem er bólgueyðandi verkjalyf. 

            Þegar leið á kvöldið fóru einkenni versnandi. Um klukkan 20 höfðu áhrif  morfíns dvínað. Var verkurinn orðinn meira stöðugur og síður öndunartengdur, eins og segir í sjúkraskrá. Stefnandi fann fyrir þreytuverkjum í handleggjum og var með ógleði af og til, eins og áður. Nýtt hjartalínurit var tekið kl. 19:55. Þá var línurit endurtekið kl. 22:13 sem leiddi til þess að gerð var ómskoðun á hjarta til að útiloka gollurshúsbólgu. Ómun sýndi ekki vökva í hjarta en skerta hreyfingu framveggs. Um svipað leyti og ómskoðunin var gerð lá fyrir niðurstaða úr blóðprufum, sem benti til hjartadreps, en S-Mýóglóbín reyndist vera 676. Stefnandi var með bráðakransæða­stíflu og var hann meðhöndlaður með segaleysandi lyfi. Á lyfjablaði sem liggur fyrir í málinu kemur fram að hann hafi fengið þá meðferð kl. 23:15 og er það í samræmi við athugasemd sem rituð er á hjartalínuriti sem tekið var kl. 23:56 þess efnis að það sé tekið 45 mínútum eftir segaleysandi meðferð.

            Í kjölfar kransæðastíflunnar hefur stefnandi átt við mjög erfið veikindi að stríða sem ekki er séð fyrir endann á. Af þeim sökum hefur hann þurft að dvelja á Reykjalundi til endurhæfingar og hefur hann verið óvinnufær frá því hann varð fyrir áfallinu.

            Vegna umsóknar stefnanda um bætur úr sjúklingatryggingu, samkvæmt lögum nr. 111/2000, aflaði Tryggingastofnun ríkisins umsagnar Gunnars Þórs Gunnarssonar, sérfræðings í lyflækningum og hjartalækningum á Fjórðungssjúkra­húsinu á Akureyri. Í umsögn Gunnars Þórs, frá 26. apríl 2004, kemur m.a. fram að ákvarðanataka um segaleysandi meðferð hefði getað farið fyrr fram, meðal annars með tilliti til breytinga á hjartalínuriti. 

            Stefnandi var metinn til örorku af Tryggingastofnun ríkisins í tengslum við umsókn sína um bætur úr sjúklingatryggingu og lá niðurstaða matsins, sem fram­kvæmt var af Rögnu Haraldsdóttur lögfræðingi og Haraldi Jóhannssyni trygginga­lækni, fyrir hinn 20. desember 2004. Samkvæmt matinu var tímabil tímabundins atvinnutjóns stefnanda samkvæmt 2. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 metið frá 22. mars 2003 til 24. ágúst 2004, þjáningabætur samkvæmt 3. gr. laganna vegna rúmlegu voru ákveðnar í 111 daga en 410 daga án rúmlegu, varanlegur miski samkvæmt 4. gr. laganna var metinn 50% og varanleg örorka samkvæmt 5. gr. skaðabótalaga var metin 50%.

            Stefnandi fékk greiddar hámarksbætur frá Tryggingastofnun ríkisins með ákvörðun stofnunarinnar 3. febrúar 2005, en samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga um sjúklinga­tryggingu var hámark bótafjárhæðar fyrir hvert einstakt tjónsatvik á árinu 2003 5.559.129 kr. Stefnandi telur niðurstöður örorkumatsins verulega vanmetnar, einkum varanlega örorku, en ástæðulaust hafi verið að kæra ákvörðun stofnunarinnar til úrskurðarnefndar almannatrygginga þar sem hámarki bóta samkvæmt lögunum hafði verið náð. Stefnandi telur hins vegar að hann eigi lögvarða hagsmuni af því að fá bætt það tjón sem hann varð fyrir, umfram þær bætur sem hann fékk greiddar úr sjúklingatryggingu. 

            Í janúar 2004 óskaði stefnandi eftir áliti landlæknisembættisins á því hvort um mistök hafi verið að ræða við greiningu á sjúkdómi stefnanda og viðbrögðum við honum. Í álitsgerð landlæknis, dags. 11. mars 2005, sem að mestu leyti byggir á samantekt óháðs sérfræðings, auk álits dr. Árna Kristinssonar, sérfræðings í lyflækn­ingum og hjartasjúkdómum, sem embættið leitaði til, er komist að þeirri niðurstöðu að meðferð stefnanda hafi verið áfátt á þá leið að hann hefði átt að fá segaleysandi meðferð um tveimur klukkustundum fyrr en raun varð á, sem hugsanlega hefði takmarkað drepsvæði í hjarta meira. Þá hvatti landlæknir stjórnendur LSH til að breyta vinnureglum sínum þannig að sjúklingar sem koma á bráðamóttöku í Fossvogi séu fluttir sem fyrst á hjartadeild við Hringbraut.

            Í kjölfar álits landlæknis óskaði stefnandi, með bréfi dags. 4. apríl 2005, eftir afstöðu ríkislögmanns til bótaskyldu íslenska ríkisins vegna meðferðarinnar. Að beiðni ríkislögmanns, og í samráði við heilbrigðis- og tryggingarmálaráðuneytið, var óskað umsagnar læknaráðs svo hægt yrði að taka afstöðu til bótaskyldu í málinu. Læknaráð leitaði sérfræðiráðgjafar Tómasar Guðbjartssonar brjóstholsskurðlæknis. Í umsögn ráðsins, dags. 15. desember 2005, segir m.a. að eðlilega hafi verið staðið að greiningu stefnanda og að dráttur á því að segaleysandi meðferð hæfist hafi fyrst og fremst stafað af óljósum klínískum einkennum stefnanda og ósértækum hjartalínurits­breytingum. Með hliðsjón af umsögn læknaráðs hafnaði ríkislögmaður bótaskyldu með bréfi, dags. 2. janúar 2005. Stefnandi höfðaði því mál þetta til viðurkenningar á rétti til skaðabóta úr hendi stefnda.

                                                                     II.

            Stefnandi reisir kröfu sína um viðurkenningu á skaðabótaskyldu stefnda á því að starfsmenn LSH hafi gert mistök við greiningu og meðferð á honum þegar hann kom á bráðamóttöku LSH 9. febrúar 2003. Segaleysandi meðferð á stefnanda hafi ekki hafist fyrr en rúmum sex klukkustundum eftir komu á bráðadeild og því um sjö klukkustundum eftir að talið sé að kransæð hafi lokast. Töf á greiningu og meðferð telur stefnandi skýrast af mistökum starfsfólks LSH við rétta greiningu sjúkdómsins.

            Stefnandi telur að við mat á því til hvaða meðferðar eigi að grípa hljóti að skipta meginmáli að kransæðastífla var alvarlegasta og hættulegasta orsökin sem til greina kom. Engar upplýsingar hafi legið fyrir sem gátu útilokað þá greiningu heldur hafi þvert á móti legið fyrir ýmsar upplýsingar sem studdu hana. Hvað sem öðru líði, og vegna eðlis sjúkdómsins, skipti öllu máli að meðferð vegna hans hæfist án nokkurrar tafar þar sem líkur á árangri dvíni verulega eftir því sem lengri tími líði. Við þær aðstæður hljóti allur vafi að vera metinn á þann veg að sem mestar líkur séu á árangri meðferðar. Það hafi ekki verið gert, heldur beðið með að hefja viðeigandi meðferð töluvert lengi eftir að stefnandi lagðist inn á spítalann og jafnvel beðið með það í rúmlega tvær klukkustundir eftir að fyrir lá hjartalínurit sem „við yfirvegaða skoðun“, eins og það er orðað í álitsgerð landlæknisembættisins, benti sérstaklega til hjartadreps.

            Um álit landlæknisembættisins, sem að mestu leyti byggir á áliti óháðs sérfræðings og áliti dr. Árna Kristinssonar, fyrrverandi prófessors, segir stefnandi að þar sé komist að þeirri ótvíræðu niðurstöðu að meðferð stefnanda hafi verið áfátt að því leyti að hann hefði átt að fá segaleysandi meðferð um tveimur klukkustundum fyrr en raun varð á, sem hugsanlega hefði takmarkað drepsvæði í hjarta meira en raun varð á. Sérfræðingar landlæknisembættisins telji að hjartalínurit, sem tekið var kl. 19:55, hafi sýnt nýjar breytingar sem við yfirvegaða skoðun hafi bent mjög sterkt til þess að um brátt hjartadrep hafi verið að ræða. Það sé mat þeirra að þær breytingar sem komi fram á þessu hjartariti hafi verið „það afgerandi að þær hefðu átt að taka af vafa sem að fyrir var um rétta greiningu. Hefði því verið réttast á þeim tíma að endurskoða upphaflega mismunagreiningu og hefja segaleysandi meðferð tafarlaust, þar sem líkur á gollurshúsbólgu voru nú orðnar hverfandi“. Hugsanlega hefði því mátt bjarga meira af hjartavef stefnanda, hefði réttri meðferð verið beitt fyrr og langtímahorfur stefnanda þar með batnað.

            Þá vísar stefnandi til þess að í sérfræðiáliti dr. med. Gunnars Þórs Gunnars­sonar, dags. 26. apríl 2004, komist læknirinn einnig að þeirri niðurstöðu að unnt hefði verið að sjúkdómsgreina stefnanda með réttum hætti fyrr en raun varð á. Telji hann að gera hefði átt ítarlegri rannsóknir fyrr til að reyna að útiloka eins vel og hægt var að um kransæðastíflu væri að ræða. Ástæður þess nefni hann í fyrsta lagi að kransæða­stífla sé mun hættulegra ástand en gollurshúsbólga og krefjist hún skjótrar meðferðar. Einkenni stefnanda og breytingar á hjartalínuriti hefðu átt að vekja sterkan grun um kransæðastíflu. Í öðru lagi nefni hann að breytingar á hjartalínuriti hafi verið nær óbreyttar allan tímann og staðbundnar í V1-V5 og því uppfyllt skilyrði fyrir sega­leysandi meðferð. Í þriðja og síðasta lagi nefni Gunnar Þór að aðstæður upp úr kl. 22, og ómskoðun sem sýndi samdráttarskerðingu í framvegg hjartans, er svarar til þrengingar á LAD sem sást við hjartaþræðingu daginn eftir, hafi ekki verið frábrugðnar þeim sem hafi verið til staðar fyrr. Það sé því niðurstaða hans að þær forsendur sem leiddu til ákvarðanatöku um segaleysandi meðferð hafi virst vera til staðar fyrr en raun varð á.

            Með hliðsjón af áliti landlæknisembættisins, sérfræðiáliti Árna Kristinssonar læknis, og sérfræðiáliti Gunnars Þórs Gunnarssonar, sérfræðings í lyf- og hjarta­lækningum, telur stefnandi sýnt að bótaskyld mistök hafi átt sér stað við greiningu og meðferð stefnanda hjá starfsfólki LSH við komu hans þangað.

            Stefnandi telur synjun stefnda um bótaskyldu ólögmæta, en afstaða stefnda byggist alfarið á umsögn læknaráðs. Í umsögn læknaráðs sé komist að þeirri niðurstöðu að eðlilega hafi verið staðið að greiningu. Dráttur á að segaleysandi meðferð hæfist hafi fyrst og fremst stafað af óljósum klínískum einkennum stefnanda og ósértækum hjartalínuritsbreytingum. Stefnandi er ósammála umsögn læknaráðs og telur hana að engu hafandi. Umsögnin byggi á ítrekuðum staðreyndavillum og óljósum gögnum. Þessu til stuðnings bendir stefnandi í fyrsta lagi á að læknaráð nefnir í umsögn sinni að fyrsta hjartalínuritið sem tekið var af stefnanda sé glatað. Læknaráð styðjist því við ónákvæmar lýsingar úr sjúkraskrá í stað þess að byggja á niðurstöðu Gunnars Þórs Gunnarssonar, sérfræðings í lyf- og hjartalækningum, sem sé bæði nákvæm og skýr, en miklu skipti að Gunnar Þór hafi séð umrætt línurit áður en hann komst að niðurstöðum sínum. Í niðurstöðum Gunnars Þórs segi m.a. að ST-hækkun hafi verið meiri en 2 mm hjá stefnanda í umræddu hjartalínuriti, en það sé eitt af þeim skilyrðum sem þurfi að uppfylla til að segaleysandi meðferð sé beitt. Telur stefnandi mjög ámælisvert af hálfu starfsmanna LSH að hafa týnt hjartaritinu þar sem það hafi gefið veigamiklar upplýsingar um ástand stefnanda við komuna á bráðamóttöku. Í ljósi þess að þetta mikilvæga gagn í málinu sé glatað telur stefnandi að sönnunarbyrði um ástand stefnanda við komuna á bráðamóttöku hafi snúist við og hvíli því á stefnda.

            Stefnandi vísar til þess að læknaráð telji að þrjú einkenni sjúklinga þurfi að vera uppfyllt svo hægt sé að greina kransæðastíflu. Þessi atriði séu: a) dæmigerður verkur, b) dæmigerðar breytingar á hjartalínuriti og c) hækkun hjartaensíma. Telji læknaráð að ekkert af þessum einkennum hafi verið til staðar hjá stefnanda. Þessu hafnar stefnandi og bendir í fyrsta lagi á að við komuna á LSH í Fossvogi hafi hann verið „fölur og illa haldinn af verk“ (Geir Þ. Gunnarsson læknir í sjúkraskýrslum) og „gráfölur við komu [auk] flökurleika“ (Inga Kolbrún hjúkrunarfræðingur í sjúkraskýrslum). Þessi einkenni séu dæmigerð fyrir kransæðastíflu, sbr. lýsingu Davíðs O. Arnar læknis í tímaritinu Hjartavernd, 1. tbl., 37. árg., 2000, þar sem segi orðrétt:

 Dæmigerður brjóstverkur sem fylgir kransæðastíflu eða blóðþurrð í hjartavöðva er fyrir miðju brjósti, gjarnan með leiðni upp í háls, jafnvel kjálka og út í vinstri handlegg. Honum fylgir stundum ógleði, sviti og jafnvel andnauð. Stundum er einkennum lýst sem seyðingi eða þyngslum í stað brjóstverkja. Sumir hafa þó einkenni sem eru ekki þvert yfir brjóst, jafnvel út í báða handleggi.

Stefnandi bendir á að í gögnum málsins komi fram að hann hafi verið meðhöndlaður líkt og um kransæðastíflu væri að ræða við komuna í Fossvoginn. Allt bendi því til þess að hann hafi haft dæmigerða verki kransæðastíflu við komuna. Í öðru lagi telur stefnandi ljóst að breytingar á hjartalínuritum hafi verið til staðar. Í greinargerð Gunnars Þórs Gunnarssonar læknis, sem taki af allan vafa um þetta atriði, segi:

BÓ var meðhöndlaður í Fossvogi með magnýl, nítróglyceríni og morfíni eins og um sterkan grun um kransæðastíflu hafi verði að ræða […] EKG [hjartalínurit] tekið í Fossvogi sýnir ST hækkanir í leiðslum V1-V5 (meira en 2 mm), það eru ekki marktækar ST hækkanir í öðrum leiðslum (1/2 mm í III og VF). Einnig er til staðar s.k. QS mynstur í leiðslum V1-V3. Við komu á Hringbraut eru sömu EKG breytingar til staðar en ST hækkunin í III orðin tæplega 1 mm. Hér er því ekki um dreifðar ST hækkanir að ræða heldur afmarkaðar sem gætu samsvarað lokaðri kransæð í framvegg hjartans þó ekki hafi verið um s.k. convex útlit á ST hækkununum að ræða. EKG við komu í Fossvog eða Hringbraut fyllir því skilyrði fyrir segaleysandi meðferð/PCI. EKG tekið kl. 22:13, þegar ákveðið er að gera ómskoðun, er óbreytt frá fyrri ritum hvað það varðar.

            Í þriðja lagi telur stefnandi að fyrir liggi í gögnum málsins að hækkun hjartaensíma hafi átt sér stað hjá stefnanda og sé fullyrðing læknaráðs því röng að þessu leyti. Í sérfræðiskýrslu Árna Kristinssonar, fyrrverandi yfirlæknis, segi að „myoglobin í sermi var 32 microg/L kl. 16:46, mælt í Fossvogi en 72 microg/L kl. 17:40 við komu á Hringbraut“. Mýóglóbín gefi vísbendingar um vöðvaskemmdir og þessar mælingar nánast tvöfaldast á innan við einni klukkustund, en mýóglóbín byrji að hækka einni til fjórum klukkustundum eftir kransæðastíflu.

            Stefnandi telur samkvæmt framansögðu að við blasi að öll þrjú skilyrði þess að greina megi kransæðastíflu í sjúklingi hafi verið uppfyllt í tilfelli stefnanda. Umsögn læknaráðs geti því ekki af þeim ástæðum verið lögð til grundvallar við mat á því hvort mistök hafi átt sér stað. Að lokum bendir stefnandi á að í umsögn læknaráðs er fullyrt að ekki sé æskilegt að flytja bráðveika sjúklinga á milli húsa áður en endanleg greining liggur fyrir, líkt og gert var með stefnanda. Það sé hins vegar ekki hægt að gagnrýna þá lækna sem komu að uppvinnslu stefnanda og tóku ákvörðun um flutning hans yfir á bráðamóttökuna við Hringbraut, þar sem verið var að fylgja vinnureglum LSH á þessum tíma um verkaskiptingu á milli bráðamóttöku LSH í Fossvogi og við Hringbraut. Stefnandi telur sérstaka ástæðu til þess að vekja athygli á því að í áliti læknaráðs sé gengið út frá því að atvikið hafi átt sér stað í febrúar 2002, þegar það hafi í raun gerst ári síðar.

            Af öllu framangreindu telur stefnandi ljóst að umsögn læknaráðs sé haldin verulegum efnislegum annmörkum og sé því með engu móti hægt að byggja á henni synjun um bótaskyldu.

            Stefnandi dregur ekki í efa að greining á orsökum brjóstverkja geti verið vandkvæðum háð. Sumar orsakir brjóstverkja séu þó miklum mun alvarlegri en aðrar og sé kransæðastífla þar á meðal. Greining í upphafi hljóti því fyrst og fremst að beinast að því hvort mögulegt sé að um lífshættulegan kvilla, eins og kransæðastíflu, sé að ræða. Stefnandi fær ekki annað séð en að hann hafi ekki notið vafans um þetta við sjúkdómsgreininguna, heldur hafi verið beðið of lengi með að hefja viðeigandi meðferð þótt nægar upplýsingar til að hefja hana fyrr hafi legið fyrir. Í því sambandi nefnir hann í fyrsta lagi að engar upplýsingar hafi komið fram við fyrstu skoðun eða rannsóknir sem gátu útilokað brátt hjartadrep. Í öðru lagi hafi legið fyrir í upphafi, þegar stefnandi var lagður inn á bráðamóttökuna í Fossvogi, upplýsingar um 20 ára reykingasögu og ættgengi hjartasjúkdóma, sem gefi aukið tilefni til greiningar kransæðastíflu. Í þriðja lagi hafi verið tekin hjartalínurit við komu á bráðamóttöku í Fossvogi og aftur við Hringbraut kl. 19:55. Telur stefnandi að þá hafi verið komnar fram skýrar vísbendingar um hjartadrep. Engin skýring hafi verið gefin á því, hvers vegna segaleysandi meðferð hófst ekki fyrr en eftir kl. 23.

            Stefnandi telur ljóst að framangreindur dráttur á réttri meðferð við meini hans, sem raunar hafi verið mun lengri en tvær klukkustundir, svari til bótaskyldra mistaka við læknismeðferð sem stefndi beri bótaábyrgð á, vegna LSH. Mistök við læknismeðferð hans hafi valdið honum verulegu heilsu- og fjártjóni umfram það sem sjúkdómurinn hefði getað leitt af sér ef fagleg meðferð starfsfólks LSH, sem sérfróðra aðila, hefði verið forsvaranleg og það gert þær varúðarráðstafanir sem eðlilegar og nauðsynlegar máttu teljast og voru til þess fallnar að hindra svo alvarlegar afleiðingar af sjúkdómnum sem raun ber vitni. Með hliðsjón af framangreindum sérfræðiálitum telur stefnandi að lögfull sönnun sé til staðar um bótaskyldu stefnda. Enn hafi ekki verið aflað mats á afleiðingum hinna bótaskyldu mistaka en það muni verða gert að viðurkenningardómi gengnum.

            Kröfu sína um viðurkenningu á bótaskyldu stefnda styður stefnandi einnig þeim rökum að um skaðabótaskylt tilvik sé að ræða vegna mistaka í starfi á grundvelli almennra reglna skaðabótaréttar og að ábyrgð á þeim sé mun ríkari þar sem um sérfróða aðila sé að ræða. Í þeim tilvikum þar sem um sé að ræða tjón sem hljótist af störfum sérfræðinga hafi dómstólar beitt ströngu sakarmati og telur stefnandi blasa við að slíku sakarmati verði að beita í máli þessu. Fyrir liggi í málinu álit embættis landlæknis og sérfræðiálit tveggja sérfræðinga í hjartalækningum sem gefi til kynna að um mistök í starfi hafi verið að ræða. Stefndi beri ábyrgð á þessum mistökum starfsmanna LSH á grundvelli meginreglu skaðabótaréttar um húsbóndaábyrgð.

            Á því er einnig byggt að samkvæmt 9. gr. læknalaga nr. 53/1988 beri lækni að sinna störfum sínum af árvekni og trúmennsku, halda við þekkingu sinni og fara nákvæmlega eftir henni. Hann beri ábyrgð á greiningu og meðferð þeirra sjúklinga, sem til hans leiti eða hann hafi til umsjónar.

            Um heimild stefnanda til þess að krefjast viðurkenningar á bótaskyldu stefnda fyrir dómi vísar stefnandi til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. 

            Kröfu sína um viðurkenningu á bótaskyldu reisir stefnandi á almennum reglum skaðabótaréttar, auk meginreglu íslensks réttar um ábyrgð vinnuveitanda á skaða­verkum starfsmanna (reglunnar um húsbóndaábyrgð). Þá er einnig um ábyrgð læknis á greiningu sjúkdóma vísað til 9. gr. læknalaga nr. 53/1998.

            Um málskostnað er vísað til ákvæða í XXI. kafla laga nr. 91/1991. Stefnandi krefst þess að honum verði dæmdur málskostnaður að skaðalausu að teknu tilliti til greiðslu virðisaukaskatts, líkt og málið væri ekki gjafsóknarmál.

                                                                     III.

            Stefndi hafnar sjónarmiðum stefnanda og kröfum hans. Stefndi telur að  staðhæfingar stefnanda, um efnislega annmarka á áliti læknaráðs, fái ekki staðist og að tilgreining ártalsins 2002 í stað 2003 sé augljós prent­villa. Stefndi heldur því fram að eðlilega hafi verið staðið að greiningu og að dráttur á því að segaleysandi meðferð hæfist stafi fyrst og fremst af óljósum klínískum einkennum stefnanda og ósértækum breytingum á hjartalínuriti. Engum saknæmum mistökum sé til að dreifa sem stofnað geti til skaðabótaábyrgðar stefnda.

            Vegna hjartalínurits sem ekki finnst, og tekið var í Fossvogi við komu stefnanda umræddan dag, segir stefndi að þáverandi lögmaður stefnanda hafi leitað eftir afstöðu LSH til bótaskyldu og óskað eftir afriti af sjúkraskrám. Honum hafi verið send ljósrit af sjúkragögnum, með bréfi 10. júlí 2003, en málinu að öðru leyti vísað til embættis ríkislögmanns. Með bréfi yfirlæknis 23. júlí 2003 til lækningaforstjóra hafi greinargerð verið send og tekið fram að sama greinargerð hafi verið send með umbeðnum gögnum til Tryggingastofnunar ríkisins. Með bréfi LSH, dags. 25. júlí 2003, hafi ríkislögmanni verið framsend gögn varðandi mál stefnanda svo og sjúkragögn sem fyrir lágu. Afrit af hjartalínuriti teknu í Fossvogi hafi ekki verið að finna í þeim gögnum sem ríkislögmanni voru send og því ólíklegt að ljósrit sjúkraskrár sem sent var til Tryggingastofnunar hafi haft að geyma það rit.

            Hvað varðar umfjöllun í stefnu um að Gunnar Þór Gunnarsson hafi séð hjarta­línurit sem tekið var við komu í Fossvogi, sem fannst ekki í sjúkraskrá stefnanda, bendir stefndi á að í umsögn hans kveðst hann ekki hafa sjúkraskrá úr Fossvogi utan hjartalínurits og að rit tekið kl. 20 fylgi ekki með. Lýsing á hjartalínuriti sem Gunnar Þór Gunnarsson telji vera upphafshjartalínurit frá Fossvogi samsvari hins vegar útliti hjartalínurits sem tekið var á Hringbraut kl. 19:55, en á því riti sé límmiði sem hafði verið prentaður út í Fossvogi við komu kl. 16:25. Stefndi telur að greinilegt sé að hann rangtúlki það sem rit tekið í Fossvogi og þar með tímasetningu ritanna. Samkvæmt því sé umsögn hans, sem byggir á því að lesa úr ritum í öfugri röð, svo verulegum annmörkum háð að ekki verði á henni byggt. Einnig sé alveg ljóst að umsögn Gunnars Þórs Gunnarssonar geti fráleitt talist óhlutdræg, enda segi í henni á bls. 1 orðrétt, „Ef allur efi og huglægt mat er túlkað sjúklingi (BÓ) í vil þá telur undirritaður BÓ eiga rétt á bótum samkvæmt lögum nr. 11/2000, 2. gr., lið 1. Sjá rökstuðning hér að neðan.“

            Stefndi telur að staðhæfingar stefnanda, um að meðferð í Fossvogi hafi byggst á greiningu um kransæðastíflu, fáist ekki staðist. Skýrt komi fram í sjúkraskrá að nákvæm greining hafi ekki legið fyrir og hafi meðferð verið í samræmi við vinnugreiningu um gollurshúsbólgu og kransæðastíflu sem hugsanlega mismuna­greiningu. Mismunagreining brjóstverks sé fjölbreytt og taki meðal annars til eftir­farandi sjúkdóma: Kransæðasjúkdóms, gollurshúsbólgu, vélindabakflæðis, magasárs, brjóst­himnubólgu, lungnablóðreks og stoðkerfisvandamála.

            Stefndi segir að greining kransæðastíflu taki mið af eftirfarandi þáttum: a) Dæmigerðum brjóstverk sem nær undantekningalaust versni ekki við innöndun. b) Dæmigerðum línuritsbreytingum þ.e. afmarkaðar/staðbundnar ST-hækkanir. c) Hækkun á hjartaensímum í blóði umfram viðmiðunarmörk. Við bráðamat á brjóstverk gegni reykingar- og ættarsaga mun veigaminna hlutverki en sjúkrasaga, líkamsskoðun og hjartarit. Ekki hafi komið fram saga um aðra sterka áhættuþætti hjá stefnanda fyrir kransæðasjúkdómi við innlögn, þ.e. sykursýki, hækkaða blóðfitu eða blóðþrýsting.

            Stefndi bendir á að stefnandi hafi leitað til slysa- og bráðamóttöku í Fossvogi sunnudaginn 9. febrúar 2003 kl. 16:25 vegna brjóstverkjar. Hann hafi verið slappur undanfarna viku og verið með höfuðverk daginn áður, fundið fyrir stífleika í hnakka, verið óglatt og móður. Innlagnardaginn hafi hann verið hálfslappur og lagt sig eftir hádegi en vaknað kl. 14:30 með verk fyrir miðju brjósti sem versnaði við innöndun. Varð þetta til þess að hann leitaði á bráðamóttöku LSH í Fossvogi og var innritaður þar kl. 16:25. Þar kvartaði hann um verk fyrir miðju brjósti sem leiddi út í báða handleggi og aftur í bak. Samkvæmt bráðasjúkraskrám í Fossvogi sé stefnanda lýst sem kaldsveittum og þjáðum af verkjum en á sama tíma stöðugum í lífsmörkum og súrefnismettun. Stefndi telur að einkennamynstur stefnanda verði því að teljast flókið og alls ekki dæmigert fyrir kransæðastíflu. Þar að auki hafi komið fram að hann hefði verið slappur vikuna á undan og haft einkenni sem geti öll bent til veirusýkingar, en þær séu oft undanfari bólgu í fleiðru- og/eða gollurhúsi, sem sé ein af mismunagreiningum bráðra kransæðastíflu og eigi sérstaklega við í þessu tilviki.

            Stefndi telur að versnandi verkir við innöndun, sem skýrt sé getið um í sjúkraskrá stefnanda, verði að telja óvenjulegt einkenni við bráða kransæðastíflu. Það sé hins vegar vel þekkt einkenni við bólgu í fleiðrum og lungum, en einnig í gollurs­húsi. Í bráðasjúkraskrá geti unglæknir, sem tók á móti stefnanda í Fossvogi, þess að á hjartalínuriti sjáist hækkaðir T-takkar og e.t.v. ST-hækkanir í fleiri leiðslum. Dreifðar ST-hækkanir sem getið sé um í sjúkraskrá geti vel samrýmst bólgum í gollurshúsi og séu ekki dæmigerðar fyrir bráða kransæðastíflu, þar sem ST-hækkanir séu yfirleitt staðbundnar. Stefnandi hafi fengið magnyl, morfín, nytroglyserín og primperan. Í samræmi við verkaskiptingu milli bráðamóttöku LSH í Fossvogi og við Hringbraut hafi stefnandi verið fluttur yfir á bráðamóttöku á Hringbraut og verið innritaður þar kl. 17:39. Fyrsta lyfjameðferð í Fossvogi virðist hafa haft áhrif á hjarta þar sem stefnanda hafi liðið betur fyrst eftir komu á Hringbraut.

            Stefndi bendir á að nær samstundis við komu á Hringbraut hafi verið tekið nýtt hjartarit sem sé tímasett kl. 17:41. Stefndi telur ólíklegt að línurit tekið nokkrum mínútum áður í Fossvogi hafi sýnt verulega breytta mynd og því varla mikil stoð í því varðandi greiningu umfram það rit sem tekið var strax við komu á Hringbraut. Línurit tekið klukkan 17:41 hafi sýnt frekar vægar ST-hækkanir á flestum leiðslum (aVL III og V3-V6) af svokallaðri concave tegund sem sé algengara í gollurshúsbólgu, en í kransæðastíflu séu breytingarnar oftast af convex tegund. Einnig hafi sést PR lækkun í leiðslu II sem sé breyting sem sjáist í gollurshúsbólgu. Þessar línuritsbreytingar séu ekki dæmigerðar fyrir kransæðastíflu og ST-hækkanir jafnframt dreifðari en búast megi við þegar um bráða kransæðastíflu sé að ræða (afmarkaðar/staðbundnar ST-hækkanir). Jafnframt hafi ekki verið að sjá svokallaðar reciprocal ST-lækkanir. Þar sem þessar breytingar og einkenni stefnanda gætu samrýmst gollurshúsbólgu hafi hann fengið meðferð í samræmi við þá greiningu með Voltaren Rapid, sem er bólgueyðandi verkjalyf. Hafi líðan stefnanda samkvæmt sjúkraskrá verið sögð betri eftir að sú meðferð var hafin. Mæling þá á hjartaensímum hafi sýnt eðlileg gildi CK- MB, trópóníns og mýóglóbíns. Hjartaensím teljist hækkuð ef gildi þeirra fari yfir ákveðin viðmiðunarmörk og svo hafi ekki reynst í þessu tilfelli. Efri mörk eðlilegs gildis mýóglóbín sé 76 mígrógr/L, sem mældist 32 mígrógr/L í Fossvogi, og 72 mígrógr/L við komu á Hringbraut. Önnur hjartaensím, S-Trópónín T og S-CK-MB, hafi einnig verið eðlileg við komu á Hringbraut. Sú niðurstaða í áliti læknaráðs að hjartaensím hafi ekki verið hækkuð standist því fyllilega. Hjartaensím hafi ekki hækkað fyrr en í blóðmælingu sem send var af stað frá bráðamóttöku kl. 22 umrætt kvöld.

            Ákveðið hafi verið að fylgjast með stefnanda á brjóstverkjamóttöku sjúkra­hússins. Vinnulag á brjóstverkjamóttöku feli í sér að fylgst er með sjúklingum, hjarta­takti þeirra á hjartarafsjá og hjartalínurit og blóðrannsóknir endurteknar 6 klst. eða fyrr eftir komu. Samkvæmt bráðasjúkraskrá hafi verkur enn verið öndunartengdur kl. 20. Hjartalínurit var tekið aftur kl. 19:55 og hafi það sýnt ST-hækkanir í framvegg sem fyrr og enn hafi verið að sjá vægar ST-hækkanir í undirvegg. Engar reciprocal ST-lækkanir hafi sést. Að auki hafi sést væg lækkun á PR bili í undirveggsleiðslum. Slíkt geti sést í gollurshúsbólgu sem fyrr segir. ST-hækkun sé ef til vill örlítið meiri í leiðslum V3 og V4 en klukkan 17:41. Annars séu ST hækkanir mjög samskonar og áður og enn af concave tegund. Mjög lítill R takki sem hafi verið í leiðslu V2 klukkan 17:41 sjáist ekki lengur. Einkenni sjúklings og línuritsbreytingar klukkan 20 hefðu verið túlkuð á þann veg að gollurshúsbólga þótti enn líklegasta sjúkdómsgreiningin.

            Verkurinn, sem hafi skánað eftir upphaflega lyfjagjöf, hafi farið versnandi er leið á kvöldið og haft þá minni tengsl við öndun. Nýtt hjartalínurit hafi verið tekið kl. 22:13 sem sýndi ekki lengur ST-hækkanir í undirvegg. Þetta, ásamt breyttu eðli verkjarins, hafi leitt til ómskoðunar á hjarta sem sýndi samdráttarskerðingu í fram­vegg. Þarna hafi verið komnar fram mjög sterkar vísbendingar fyrir því að um kransæðastíflu væri að ræða og meðferð með segaleysandi lyfi verið þegar hafin.

            Stefndi segir að segaleysandi lyfjameðferð sé gefin við bráðri kransæðastíflu en aðeins þegar ákveðnum skilmerkjum sé fullnægt. Oft sé miðað við nýtilkomið vinstra greinrof, eða 2 mm ST-hækkanir í framveggsleiðslum eða 1 mm ST-hækkanir í útlimaleiðslum á hjartalínuriti, ásamt brjóstverk. Allt að 5% sjúklinga fái sem aukaverkun blæðingar við segaleysandi meðferð og allt að 1% fái lífshættulegar blæðingar í heila. Fyrir gjöf slíkra lyfja þurfi því að liggja ótvíræð skilmerki og ábendingar sem ekki hafi legið fyrir í fyrstu í tilviki stefnanda. Sérstaklega geti verið varasamt að gefa sjúklingi með gollurshúsbólgu segaleysandi meðferð þar sem hún geti valdið lífshættulegri blæðingu í gollurshúsi og þar með blóðsöfnun umhverfis hjartað í gollurshúsi.

            Vegna umfjöllunar sumra álitsgjafa, um að ef til vill hefði greining kransæðastíflu getað farið fram fyrr eða upp úr klukkan 20, segir stefndi að samkvæmt nótum í sjúkraskrá hafi verkurinn þá enn verið öndunartengdur og hjartalínurit sýnt enn dreifðar ST-hækkanir. Á þeim tímapunkti hafi því verið talið að gollurshúsbólga væri enn líklegasta sjúkdómsgreiningin. Það virðist því ekki hafa verið óyggjandi merki um kransæðastíflu á þeim tímapunkti. Eðlilegt hafi því verið að bíða fram að næsta hjartalínuriti áður en jafn öflug, en jafnframt hættuleg meðferð, og segaleysandi meðferð væri hafin.

            Stefndi telur þannig að engum saknæmum mistökum hafi verið til að dreifa við greiningu á kransæðastíflu, sem stefnandi reyndist vera með, er varðað gæti bóta­ábyrgð og beri því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.

            Stefndi telur einnig að það fái heldur ekki staðist að hugsanleg töf á beitingu segaleysandi lyfja hafi haft áhrif á veikindi stefnanda og varanlega örorku er varðað gæti bótaábyrgð. Fræðilega hefði hugsanlega verið hægt að flýta greiningu um allt að klukkutíma samkvæmt áliti læknaráðs með endurteknu hjartalínuriti, t.d. kl. 21 í stað 22. Að mati læknaráðs hafi stærsti skaðinn þá þegar verið skeður og áhrif klukkutíma í þessu sambandi að öllum líkindum ekki afgerandi hvað varðar stærð hjartadrepsins og þar með varanlega örorku stefnanda. Að mati læknaráðs hafi hugsanleg töf á segaleysandi meðferð verið óveruleg og haft lítil áhrif á veikindi stefnanda og varanlega örorku. Árangur segaleysandi lyfjameðferðar við bráðri kransæðastíflu sé betri þeim mun fyrr sem meðferð er hafin. Með því að veita meðferð sem fyrst eftir að kransæð lokast aukist líkur á því að hægt sé að opna hana og minnka þannig drep í hjartavöðvanum, en drepið geti orsakað hjartabilun sem virðist helsta ástæða örorku stefnanda. Einkenni stefnanda hafi í upphafi verið óljós og það sé ekki fyrr en uppúr klukkan 20 sem breytingar séu til staðar á hjartalínuriti sem að mati sumra álitsgjafa gefi hugsanlega tilefni til að beita segaleysandi meðferð. Árangur segaleysandi meðferðar sé bestur þegar hún sé gefin innan 2 klukkustunda frá upphafi kransæða­stíflu. Árangur sé yfirleitt nokkuð góður innan 4 klukkustunda en minnki eftir það. Stefndi vísar til þess að samkvæmt nýlegri samantektarrannsókn á tímaramma hjartadreps eftir lokun kransæðar verði stærsti hluti skaðans á fyrstu 4 klukku­stundunum eftir lokun æðarinnar og mestur ávinningur af opnun kransæðar sé ef slíkt gerist á fyrstu 2-3 klukkustundunum eftir lokun hennar. Klukkan 20 hafi verið liðnar tæpar sex klukkustundir frá upphafi verkjarins og megi leiða líkur að því að verulegur hluti drepsins og þess hjartaskaða sem stefnandi hlaut hafi þá þegar átt sér stað. Ávinningur af slíkri meðferð hefði þá ekki verið mikill en skýr áhætta henni tengd. Ólíklegt sé að segaleysandi meðferð á þeim tímapunkti hefði breytt lokaniðurstöðunni. Ekkert viðbótartjón verði að réttu tengt hugsanlegri töf sem stefndi telur að leiði til sýknu af öllum kröfum stefnanda.

                                                                  IV.

            Í máli þessu er deilt um það hvort starfsmenn Landspítala – háskólasjúkrahúss hafi gert mistök við greiningu og meðferð á kransæðastíflu stefnanda hinn 9. febrúar 2003. Þegar stefnandi var innritaður á slysa- og bráðamóttöku í Fossvogi kl. 16:25 var tekið af honum hjartalínurit sem hefur ekki fundist í sjúkraskrá hans. Ekki hafa fengist skýringar á því hvernig hjartalínuritið hefur glatast og er það ámælisvert að gögn úr sjúkraskrá skuli ekki finnast. Verður stefndi því að bera halla af óvissu um fyrstu sjúkdómseinkenni stefnanda. Ekkert verður fullyrt um að hjartalínuritið hafi sýnt dreifðar ST hækkanir og í hvaða leiðslum háar T bylgjur hafi verið til staðar. Án hjartalínuritsins er ekki hægt að gera samanburð við hjartalínurit sem tekið var við komu á Hringbraut. Við brátt hjartadrep sést yfirleitt hröð þróun breytinga í hjartalínuriti, sérstaklega fyrstu klukkustundirnar. Þannig má oft sjá breytingar milli hjartalínurita sem tekin eru með t.d. 15 mínútna millibili. Breytingar við gollurs­húsbólgu gerast yfirleitt mun hægar. Dómurinn telur samanburð hjartalínurits þess sem tekið var í Fossvogi og hjartalínurits tekið við Hringbraut mikilvægan þátt í greiningarferli. Í fjarveru ritsins sem tekið var í Fossvogi er ekki hægt að gera samanburð og verður ekkert fullyrt um hvort ritin voru einsleit eða hvort greinilegar breytingar voru á milli rita.

            Stefnandi var fluttur á bráðamóttöku við Hringbraut. Hjartalínurit sem tekið var kl. 17:41 sýndi concave ST hækkanir í brjóstleiðslum V3-6 (mest áberandi í leiðslum V3 og 4, u.þ.b. 2 mm), 0.5-1 mm ST hækkanir voru í leiðslum III og aVF og einnig vottaði fyrir ST lækkun, a.m.k. í leiðslu aVL. Litlir Q takkar voru í brjóstleiðslum V3-6 og R takkar voru áberandi litlir í leiðslum V2 og 3. T bylgja var áberandi í leiðslu V2, ca 1 mm að stærð. Hækkun á mýóglóbíni frá því í Fossvogi var ekki slík að miklar ályktanir verði dregnar af henni. Flensulík einkenni nokkrum dögum áður, öndunartenging brjóstverkja, concave og útbreiddar ST hækkanir gátu komið heim og saman við gollurshúsbólgu og þá með bráða kransæðastíflu sem mismunagreiningu. Full ástæða var til að fylgjast náið með stefnanda og endurtaka rannsóknir fyrr en raun varð á. Vinnulag spítalans um að endurtaka hjartalínurit og blóðrannsóknir á 6 tíma fresti gat ekki átt við um stefnanda með hliðsjón af ástandi hans og fyrirliggjandi rannsóknum. Nýjar blóðprufur teknar fyrr hefðu hugsanlega getað sýnt fram á hækkun á hjartaensímum fyrr en raun bar vitni og stutt greiningu bráðrar kransæðastíflu. Ómskoðun fyrr í ferlinu hefði mögulega getað flýtt greiningu á hjartavöðvaskemmd þar sem hún gefur mikilvægar viðbótarleiðbeiningar við greiningu á bráðu hjartadrepi þegar sjúkrasaga og hjartalínurit eru ekki afgerandi.

            Rannsóknir voru ekki endurteknar fyrr en með hjartalínuriti kl. 19:55 sem sýndi að ST breytingar voru orðnar meira staðbundnar í brjóstleiðslum. ST hækkanir í III og aVF voru vart merkjanlegar lengur, vottur af ST lækkun í aVL var horfinn og ST hækkanir í brjóstleiðslum höfðu aukist. Einnig var komin áberandi hækkun í V2. Mesta ST hækkun var um 3 mm. R takkar höfðu lækkað og horfið í V2 og V3. Að mati dómsins styrkti þetta greiningu um hjartadrep. Tekur dómurinn því undir álit óháðs sérfræðings, sem landlæknir leitaði til, um að breytingarnar sem þá komu fram hefðu verið það afgerandi að þær hefðu átt að taka af vafa um greiningu. Enn fremur segir í áliti Árna Kristinssonar, fyrrverandi yfirlæknis og sérfræðings í lyflækningum og hjarta­sjúkdómum, að kl. 19:55 „er ljóst hver hin rétta sjúkdómsgreining er. Búast hefði mátt við að þá væru teknar blóðprufur og meðferð hafin“. Var það niðurstaða landlæknis, sem byggði á framangreindum álitum, að stefnandi hefði átt að fá segaleysandi meðferð um tveimur klukkustundum fyrr en raun varð á. Umsögn Gunnars Þórs Gunnarssonar sérfræðings styður þetta einnig. Dómurinn telur að í raun komi fram svipaðar upplýsingar á hjartalínuriti kl. 19:55 og því sem tekið var kl. 22:13, með tilliti til greiningar á hjartadrepi. Síðarnefnda línuritið sýndi svipaðar ST hækkanir og í riti kl. 19:55. R takkar höfðu minnkað enn meira í aVL og I (voru byrjaðir að minnka kl. 19:55) og kominn hægri öxull í frontal plani. T bylgjan var orðin minni í V2. R takkar voru ekki lengur til staðar í V2 og 3 og ef borið er saman við rit kl. 17:41 sést að R takkinn í V4 (og í minna mæli í V5-6) hafði minnkað.

            Dómurinn leggur áherslu á að við kransæðastíflu er brýnt að bregðast skjótt við, en árangur meðferðar er meiri því fyrr sem hún hefst. Samkvæmt leiðbeiningum evrópsku hjartalæknasamtakanna, frá ágúst 2002, getur ávinningur verið góður allt að 6 tímum liðnum og um ávinning getur verið að ræða allt að því þegar 12 tímar eru liðnir. Í leiðbeiningum American College of Cardiology (ACC) og American Heart Association (AHA) kemur einnig fram að ávinningur sé betri af segaleysandi meðferð því fyrr sem hún er gefin innan alls tímarammans 12 klst.

            Þrátt fyrir ótvíræðar vísbendingar sem komnar voru fram kl. 19:55 um að stefnandi væri með kransæða­stíflu, var beðið með hjartalínurit, blóðprufur og ómun í meira en tvær klukkustundir. Þá hófst segaleysandi meðferð ekki fyrr en eftir kl. 23, rúmum 3 klukkustundum eftir að hjartalínurit benti til hjartadreps. Læknaráð telur að eðlilegt hafi verið að bíða eftir nýju hjartalínuriti sem tekið var kl. 22:13 þrátt fyrir að líta svo á að „rétt greining í tilfelli Björns fékkst með hjartalínuritsbreytingum sem sáust fyrst á riti teknu kl. 19.55“. Í umsögninni segir að um kl. 20 hafi líklega verið liðnar meiri en 4 klukkustundir frá lokun kransæðar, sem séu þau mörk þegar árangur segaleysandi meðferðar sé hvað bestur. Síðan segir að sennilegt sé að drepið hefði orðið minna ef greiningu og meðferð hefði verið flýtt um klukkustund. Stærsti skaðinn hafi þó þegar orðið og áhrif klukkutíma að öllum líkindum ekki afgerandi hvað varðar stærð hjartadrepsins og örorku stefnanda. Þessi afstaða læknaráðs er í andstöðu við það sem áður er rakið og álit framangreindra sérfræðinga. Við mat á sönnunargildi umsagnar læknaráðs, um það hvort biðin hafi verið eðlileg og áhrif hennar, verður að líta til þess að sérfræðingur sá sem læknaráð leitaði til starfar hjá Landspítala-háskólasjúkrahúsi. Þá starfar formaður ráðsins hjá spítalanum og aðrir sem eru í réttarmáladeild ráðsins. Er þetta til þess fallið að draga úr hlutleysi umsagnarinnar.

            Að öllu þessu virtu er það mat dómsins að tíðari taka hjartalínurita og hjartaómskoðun gerð fyrr hefði getað flýtt greiningu og þar með meðferð. Eigi síðar en kl. 19:55 var kominn fram svo ákveðinn grunur um kransæðastíflu að brýnt var að bregðast strax við með frekari rannsóknum og beita meðferð sem beinist að opnun kransæðar til að minnka svæði hjartavöðvaskemmdar. Ekkert er hægt að fullyrða um það hvenær kransæð lokaðist hjá stefnanda, hvort það hafi verið kl. 16 eða á einhverju öðru tímamarki. Er það niðurstaða dómsins að sýnt hafi verið fram á að óeðlilegur dráttur hafi orðið á greiningu og meðferð stefnanda sem megi rekja til mistaka af hálfu starfsmanna Landspítala – háskjólasjúkrahúss. Hefur stefndi ekki sannað að hjartadrep það sem stefnandi varð fyrir hefði allt að einu orðið það sama þótt engin töf hefði orðið. Verður fallist á kröfu stefnanda eins og hún er fram sett.

            Stefnandi fékk útgefið gjafsóknarleyfi 27. apríl 2006 vegna reksturs málsins í héraði. Þegar stefndi er íslenska ríkið hafa ekki þótt efni til að dæma stefnda til greiðslu málskostnaðar sem rennur í ríkissjóð. Málskostnaður fellur því niður. Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, sem ákveðst, með hliðsjón af tímaskýrslu, 1.445.624 krónur. Hefur þá ekki verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

            Dóm þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir, settur héraðsdómari, ásamt meðdómsmönnunum Gunnari Mýrdal Einarssyni brjóstholsskurðlækni og Hirti Kristjánssyni, sérfræðingi í lyflækningum og hjartasjúkdómum.

 

 

                                                           D ó m s o r ð:

            Viðurkennd er skaðabótaskylda stefnda, íslenska ríkisins, vegna líkamstjóns sem stefnandi, Björn Ófeigsson, hlaut í kjölfar bráðakransæðastíflu sem starfsfólki Landspítala – háskólasjúkrahúss yfirsást fyrir mistök að greina og veita meðferð við í tæka tíð hinn 9. febrúar 2003.

            Málskostnaður fellur niður.

            Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin 1.445.624 króna þóknun lögmanns hans, Heimis Arnar Herbertssonar hæstaréttarlögmanns.

 

 

                                                      Sandra Baldvinsdóttir

                                                      Gunnar Mýrdal Einarsson

                                                      Hjörtur Kristjánsson

Af vef héraðsdóms www.domstolar.is

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-