-Auglýsing-

Dagbækur Jónasar I

Jónas HelgasonÍ síðustu viku birtum við pistil hér á hjartalif.is frá Árna H Helgasyni Akureyri. Árni hafði lent í því að fá hjartaáfall og vera fluttur suður í sjúkraflugvél.

Hjartaáfallið hans Árna setti að stað atburðarás sem leiddi af sér að eldri bróðir hans, hann Jónas var settur í tékk. Niðurstaðan varð sú að Jónas var settur í hjartaþræðingu og í kjölfarið ákveðið hann að hann færi í opna hjartaðgerð þar sem laga átti þrengingar í æðum.

-Auglýsing-

Jónas er menntaskólakennari á Akureyri og ákvað að skrifa um þessa reynslu sína í dagbókarformi bæði meðan á biðinni stóð, um aðgerðina og vikurnar og mánuðina á eftir. Inn í þetta fléttast ástandið á Landspítalanum á skemmtilegan hátt en Jónas skrifar skemmtilega og er á léttum nótum þó umfjöllunarefnið sé alvarlegt.

Við höfðum samband við Jónas sem gaf okkur leyfi til að birta skrifin hans og koma þau til með að birtast hér á hjartalif.is næstu daga. Gefum Jónasi orðið.

Af hjartagæðum, hjartagæsku og hjartaþræðingum

17. maí. 2013
Það hefur löngum verið sagt að við bræður séum líkir – á ytra borðinu a.m.k. Einkum hefur okkur Árna verið ítrekað ruglað saman, síðast gerðist það á hjartadeild FSA þar sem ég átti ekki að fá aðgang, “því það væri víst nóg komið að sinni”.

- Auglýsing-

Nú tekur þó steininn úr því við munum víst einnig vera keimlíkir að innan. Það er sum sé varla að Árni sé kominn á ról eftir sína hjartaþræðingu þegar ákveðið hefur verið að senda mig sömu leið. Ekkert sem liggur á, það verður reynt að koma mér að í rólegheitum á næstu vikum.

Sagan er raunar þannig að eftir að Árni fór í gegnum sína meðferð ákvað ég að láta tékka almennilega á mér. Blóðprufur, þrekpróf, ómskoðun, sneiðmynd – þessu rúllaði ég öllu upp eins og unglamb. En varla hafði ég lokið þessum prufum þegar ég skyndilega missti allt þrek og það svo illilega að ég var orðinn hægari en 18 ára strákar í körfubolta, missti þá ítrekað á undan mér í hraðaupphlaupin.

Þessar hrakfarir urðu til þess að ég talaði aftur við hjartalæknana og kenndi þeim um að hafa hálfdrepið mig með öllum þessum rannsóknum og krafðist bóta. Viðbrögðin við því voru yfirveguð, engin læknamistök viðurkennd, en ákveðið að senda mig í þræðingu til þess að “vera 110% viss um að ég væri í lagi”.

Ég gaf mig auðvitað en bað um að þegar pantaður yrði tími fyrir mig væri líklega best að panta fyrir tvo bræður í viðbót, með svona þriggja mánaða millibili. Þetta þótti heldur ekkert fyndið…

Ég skrapp svo til mömmu og sagði henni frá þessu. Hún tók þessu afar vel en hafði á orði að “það væri verst að við hefðum ekki fengið heilsufarið úr móðurættinni”. Ég var svo sem ekkert að rökræða heilsufarið í þeirri ætt frekar.

En ég er sem sagt í fullu fjöri á leið í sveitina á eftir, en bíð eftir að vera kallaður suður, vonandi innan fárra daga.

Ég sem hélt að ég væri góðhjartaður maður!

31.maí. 2013
Undarlegur dagur í dag. Skaust til Reykjavíkur til þess að fara í hjartaþræðingu “til öryggis”, því ég er búinn að finna fyrir verkjum og þyngslum í brjóstkassanum síðan um páska. Fyrir páska var ég raunar búinn að fara í gegnum alls konar tékk, ómskoðanir og sneiðmyndir – og ekkert sást óeðlilegt. Þetta gerði ég alls ekki vegna þess að ég hefði fundið fyrir neinu, heldur var það í kjölfar hremminga Árna Hrólfs. Ég var útskrifaður sem heill heilsu með stimpil til næstu ára.

- Auglýsing -

Ég mætti á Landsspítalann snemma í morgun og ætlaði svo norður aftur um helgina. En til að gera langa sögu stutta, var ég kyrrsettur á Landspítalanum, lagður með tærnar upp í rúm og tengdur alls kyns græjum sem ég á að vera tengdur nótt sem nýtan dag. Þarna á ég að dvelja næstu viku á meðan blóðið þykknar (er búinn að vera á blóðþynningarlyfjum í nokkra daga) og þá verð ég skorinn og hjartað gert upp. Svo tekur við langt sumar með endurhæfingu og svo framvegis.

Ég er kominn með tölvuna mína í hendur og hyggst gerast virkur á Facebook næstu vikurnar. Reyni að taka lífinu létt á hjartadeildinni…

Hvíld og afslöppun í Reykjavík

2. júní 2013
Mamma hefur það gjarnan á orði við mig “að ég ætti nú að hvíla mig aðeins”. Ég tek því alltaf vel en geri svo auðvitað ekkert með þetta góða ráð. Núna ligg ég hins vegar og hvíli mig miklu meira en ég hefði viljað. Merkilegt nokk, þá líður mér á fjórða degi þessarar “hvíldar” betur en mér hefur gert mánuðum saman!

Þetta segir mér ýmislegt, í fyrsta lagi að kannski hafa ýmis óþægindi liðinna mánaða verið merki frá hjartanu en ekki eitthvað sem maður læknar með íbúfeni og wiskíglasi á kvöldin. Ekki svo að skilja að ég ætli að hætta að drekka gott wiskí, en íbúfenið fær vonandi hvíld.

Í öðru lagi segir þetta mér að maður á hlýða móður sinni þegar hún gefur góð ráð. Nú er ég harðákveðinn í að draga saman seglin og segja hiklaust nei við alls konar beiðnum um vinnu sem mér finnst skemmtileg og hef þess vegna tekið að mér. Ég er byrjaður að gera listann yfir aukadjobbin og svo er bara að skera af honum…

Í þriðja lagi er þetta svo orðið til þess að ég er fullkomlega sáttur við að liggja hérna og bíða, hlakka rosaleg til þegar aðgerðin verður búin (væntanlega eftir um viku) og ég get komið norður í góða veðrið og byrjað vinnuna við endurhæfinguna.

Jónas.

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-