-Auglýsing-

Jónas: Biðin eftir að eitthvað gerist á Landsspítalanum

Jónas HelgasonVið höldum áfram að fylgja menntaskólakennaranum Jónasi frá Akureyri eftir þar sem búið er að kyrrsetja hann í Reykjavík fram að hjartaaðgerð. Það er alltaf erfitt að bíða en Jónas beinir sjónum sínum að aðstöðu starfsfólks LSH og samferðarmönnum á meðan biðinni stendur. Aldeilis óborganleg lesning.

4. júní 2013
Enn hef ég ekkert frétt af væntanlegum aðgerðardegi, sit bara og líður ótrúlega vel. Tommi og fjölskylda færðu mér fullan poka af Andrési önd og flakkara fullan af Simpsons þáttum, maturinn er í lagi og kaffið ágætt – svo hvað gæti verið betra?

Svo er ég auðvitað með fartölvuna með mér og sit löngum stundum og vinn við hana, svona rétt eins og ég hefði gert heima. Nóg hefur t.d. verið að gera við redda málum varðandi ferðalögin sem ég ætlaði að stjórna um Evrópu í sumar. Mér datt meira að segja eitt augnablik í hug að ég hefði nú alveg getað farið yfir prófúrlausnirnar í landafræðinni – en ýtti því fljótt frá mér þegar mér fannst ég fá verk fyrir hjartað við tilhugsunina eina. Eins gott að ég fari ekki að hugsa um prófyfirsetur!

Mér gefst auðvitað líka timi til að velta fyrir mér ýmsu sem fyrir augu ber. Ég verð að viðurkenna að mig grunaði ekki að íslenskt heilbrigðiskerfi stæði í þeim sporum sem við mér blasir. Að frábært og yndislegt starfsfólk sætti sig við að vinna við þessar aðstæður er með ólíkindum. Allt yfirfullt af fólki, sjúklingar skermaðir af um alla ganga og hjúkrunarfólk þarf að funda sitjandi hvert ofan á öðru innan um sjúklingana. Allt yfirfullt af klunnalegum og löngu úreltum tækjabúnaði (ég þekki gamalt dót frá nýju þótt ég viti ekkert til hvers tækin eru) og byggingin heldur hvorki vindi né vatni í slagviðri eins og nú gengur yfir.

Hvernig sem reynt var að loka glugganum á stofunni hjá mér í nótt munaði engu að gamla, skagfirska skarið sem liggur í hinu rúminu fyki yfir móðuna miklu með öllu sínu hrossastóði. Hann stendur raunar afar tæpt á bakka þeirrar móðu og það versta er að hann tekur örugglega fjarstýringuna að sjónvarpinu með sér þegar hann dettur fram af bakkanum – en hana notar hann helst til að reyna að hringa í ættingja sína og vill örugglega halda því áfram. Lausnin í rokinu í stofunni í nótt varð að lokum sú að bæta ofan á hann sængum þar til hann hætti að kvarta, eða a.m.k. hætti að heyrast í honum.

Ég þarf svo verulega að gæta að því fá ekki fyrir hjartagarminn þegar ég horfi á flugvöllinn út um gluggann og hugsa til þess að til sé fólk sem finnst mikilvægara að eyða milljörðum í nýjan flugvöll úti í rassgati en byrja á nýjum spítala. Guði sé lof að ég sé ekki Hörpuna út um hinn gluggann…

- Auglýsing-

Þið megið alveg deila þessum pistli þangað sem heibrigðisráðherra sér hann. Ég skal alveg ganga á undan með góðu fordæmi og borga sjálfur svolítið (ekki þó mikið) af skuldunum sem Sigmundur Davíð vinur hans ætlar að gefa mér eftir af húsinu mínu!

Óvissunni að linna á Landsspítalanum!

5. júní 2013
Ég er sem sagt kominn með tíma í hjartaskurðinn á mánudaginn. Gott að geta byrjað að telja niður að ákveðinni dagsetningu. Þetta er þó auðvitað með öllum fyrirvörum um ekkert alvarlegt slys verði sem teppir gjörgæsluna o.s.frv.

Ég verð svo að þakka viðbrögðin við færslunni minni í gær – viðbrögðin hafa verið með ólíkindum við þessu létta gaspri mínu. Þetta er auðvitað komið í hring og aftur hingað í hús. Frétti að þetta hefði verið lesið á neðstu hæðinni, ætli það endi ekki á að einhver lesi þetta fyrir mig!

Kveðja Jónas.

 

 

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-