-Auglýsing-

Baráttan

hjon_2Desember 2005. Eins og staðan er núna þá hefur aðgerðin ekki skilað miklu þreki þó svo blóðþrýstingurinn sé stöðugri og ég ekki jafn grár og guggin og ég var fyrir aðgerð. Bjarni Torfason var svosem búinn að segja að það gæti tekið langan tíma fyrir aðgerðina að skila sínu.

Annars gerðust hér mikil tíðindi þann 4. Nóvember. Okkur Mjöll fæddist drengur sem er eins og gefur að skilja einn sá fallegasti sem komið hefur í þennan heim. Hann fékk nafnið Benedikt Bergur og er mitt fyrsta barn en Mjöll átti Jón Huga fyrir. Þetta eru því miklir gleðidagar þrátt fyrir mikla bardaga inn á milli.

-Auglýsing-

En núna er veturinn farinn að banka á dyrnar og ég finn hvernig þróttur minn fer þverrandi. Það er svosem fleira sem er að hrjáir mig.  Góðkynja stækkun í blöðruhálskirtli hefur herjað á mig frá því c.a. ári eftir hjartaáfall og nú er búið að ákveða að ég ég fari í svokallaða ”TURP” aðgerð í janúar og þá verði heflað ofan af blöðruhálskirtlinum.
Verð að játa að þetta leggst ekkert voðalega vel í mig og mér finnst læknarnir svolítið hugmyndasnauðir um aðra meðferðarmöguleika. Hitt er annað að ég er í vandæðum með pissið og það er mikill biðtími alltaf eins og bunan ætlar aldrei að koma. Svo er eins og votti fyrir þvagleka.
Þetta á sér reyndar skoplega hlið líka en síðasta piss fyrir nóttina er ég vanur að taka sitjandi af því þetta tekur svo langan tíma. Gallinn er bara sá að ég er svo þreyttur á kvöldin að það hefur komið fyrir að ég hafi hreinlega sofnað sitjandi á klósettinu að bíða eftir bununni.

Mál eru að skýrast með Svíþjóð og það eru allar líkur á því að ég verði sendur til Gautaborgar eða nánar tiltekið á Salhgrenska sjúkrahúsið þar sem ástand mitt verður metið.
Ég ætla ekki segja ykkur hvað það verður gott að komast í hendurnar á fólki sem er vant og með þekkingu á því að eiga við fólk eins og mig.
Það hefur verið hreint ömurlegt að hlusta alltaf á sama sönginn hér niðri á Landspítala að það komi allar rannsóknir vel út og ég ætti bara að vera skrambi góður.
Nú ætla ég ekki að gera lítið úr menntun þeirra lækna sem hér eru við Mjöll höfum keypt okkur mikið magn af bókum á Amazon um hjartað og sjúkdóma þeim tengdum. Við höfum svo legið yfir þessu til að reyna að skilja ástand mitt betur og undirbúa okkur undir réttarhöldin.
Það veitir svo sem ekki af því að lesa sig svolítið vel til því þegar þessar blessaðar greinargerðir streyma í hús frá Landlækni, læknaráði og fleirum þá verður manni orðavant.
Allar eru þessar greinargerðir því marki brenndar að í fyrsta lagi er eins og engin lesi okkar greinargerðir um það sem gerðist. Í annan stað þá er það svo að ef um vafa er að ræða er hann túlkaður spítalanum eða lækninum í hag. Furðuleg nálgun verð ég að segja.

Við Mjöll erum svo sem ekkert sérlega undrandi en það er ótrúlega niðurlægjandi hvernig tónninn í þessum greinargerðum er og hvernig er beinlínis talað niður til mín. Flest allar þessar greinargerðir eru uppfullar af hroka að mínu mati og oft á tíðum finnst manni þessi barátta voðalega vonlaus eitthvað þegar ekkert af því sem maður setur á blað virðist fá athygli. Lögmaðurinn okkar hann Heimir Örn er eins og klettur í hafinu og það er frábært að vinna með honum. Það er skemmtilegt að sjá hvernig athugasemdir okkar Mjallar koma fram í hans andsvörum við greinargerðum þessara snillinga. Við trúum því að við náum í geng á endanum.   

En aftur að Svíþjóð. Við höfum nefnilega komist að þeirri niðurstöðu að eftir Dor aðgerðina á mér hefur eðli hjartabilunarinnar á mér breyst á þann hátt að hún er ekki lengur systolisk heldur diastolysk. Þetta gerir það að verkum að allar rannsóknir sem gerðar eru á mér hér sýna allt eðlilegt þar sem þær eru framkvæmdar í hvíld. Það virðist gefa þessum snillingum hér ástæðu til að álykta sem svo að það sé ekkert að mér. Þetta er afskaplega þreytandi viðhorf og svo þegar ég bendi þeim á að það sé ekkert að marka þetta því bilunin sé dyastolisk þá horfa þeir á mig eins og ég sé fáviti. Skemmtilegt viðhorf.
En sem sagt Axel er sammála mér um að best að senda mig til Gautaborgar í heildstætt mat.

- Auglýsing-

Ég bind miklar vonir við þessa ferð og við erum mjög spennt yfir því hvernig þetta fer. Vonandi koma þeir auga á eitthvað sem hægt er að gera til að hressa mig við.

Minningabrot frá desember 2005.

Árósum 19.01.2011

Björn Ófeigsson

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-