-Auglýsing-

Álag á bráðadeildum

HVERT pláss á bráðadeildum Landspítalans við Hringbraut og í Fossvogi var fullnýtt í síðustu viku og þurftu sjúklingar að liggja á göngum um tíma á meðan reynt var að finna legurými á öðrum deildum fyrir innlagnir. Leggja þurfti inn mikið veikt fólk, ekki var um flensutilfelli að ræða enda hefur sá faraldur verið í rénun að undanförnu.

Davíð O. Arnar, yfirlæknir á bráðamóttökunni á Hringbraut, telur ekki tímabært að fullyrða að lokanir á legurýmum eigi einar og sér sök á auknu álagi á bráðamóttökunni, til þess þurfi að skoða ástandið yfir lengri tíma en tvær vikur. „Gerðar hafa verið ýmsar viðbótarráðstafanir til að mæta þessari fækkun legurýma og það þarf tíma til að slípa þær til. Hins vegar er ekki hægt að neita því að fækkun legurýma á sjúkrahúsinu er áhyggjuefni þar sem aðsóknin að bráðamóttökunni við Hringbraut hefur farið heldur vaxandi en hitt.“

Ekki óþekkt vandamál

Að sögn Davíðs hefur verið mjög mikið að gera á bráðamóttökunni það sem af er desember. Komið hafi dagar þar sem erfitt hefur verið að finna legupláss á spítalanum fyrir þá sjúklinga sem hefur þurft að leggja inn. „Þetta er þó ekki alveg óþekkt vandamál hjá okkur. Það eru sveiflur í komum á bráðamóttöku og þegar mest er að gera getur tekið tíma að finna legupláss. Undir þeim kringumstæðum þarf að nýta allt tiltækt pláss á bráðamóttökunni og því miður kemur það fyrir að sjúklingar þurfi að liggja á göngum. Þeir hafa þó sýnt þessu mikinn skilning og starfsfólkið staðið sig mjög vel við oft erfiðar aðstæður,“ segir Davíð.

Undir þetta tekur Anne Mette Pedersen, hjúkrunardeildarstjóri á bráðamóttökunni á Hringbraut. Komur þangað séu breytilegar og reglulega komi toppar eins og í síðustu viku. Við þessar aðstæður þurfi að forgangsraða verkefnum en tekist hafi að sinna öllum sjúklingum án þess að nokkur hætta stafaði af.

Álag hefur sem fyrr segir einnig verið mikið á bráðamóttökunni í Fossvogi. Ófeigur T. Þorgeirsson yfirlæknir segir sjúklinga þar ekki hafa orðið fyrir óþægindum og öryggi þeirra ekki verið stefnt í hættu.

- Auglýsing-

Hildur Helgadóttir, innlagnastjóri Landspítalans, segir ástandið á spítalanum hafa verið vel viðráðanlegt þrátt fyrir aukið álag í haust vegna flensunnar og mikilla veikinda. Síðasta vika hafi vissulega verið erfið en deildirnar náð að anna álaginu. Verklaginu hafi verið breytt svo að hægt sé að bregðast við fækkun legurýma á spítalanum.

Eftir Björn Jóhann Björnsson

bjb@mbl.is

Morgunblaðið 16.12.2009

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-