-Auglýsing-

Opið bréf til heilbrigðisráðherra

Bylgja_KrnestedEftir Bylgju Kærnested: “Rannsóknir erlendis benda til að fækkun hjúkrunarfræðinga ógni öryggi sjúklinga þannig að fylgikvillum og dauðsföllum fjölgar.”

BOÐAÐUR er mikill niðurskurður í heilbrigðiskerfinu á næsta ári og vill hjúkrunarráð Landspítala vekja athygli heilbrigðisráðherra á áhrifum þess að skerða áfram fjárframlög til Landspítala. Ráðið hefur áhyggjur að frekari sparnaður komi niður á öryggi og þjónustu við sjúklinga. Landspítalinn er spítali allra landsmanna og helsta öryggisnet alvarlega veikra einstaklinga. Þá kallar hjúkrunarráð eftir skýrari stefnu varðandi hvernig eigi að skera niður án þess að valda óafturkræfu tjóni á jafn viðkvæmu kerfi og heilbrigðiskerfið er.

Árum saman hefur Landspítalinn þurft að hagræða og á sama tíma að vernda þjónustu við sjúklinga. Landspítala er gert að draga saman um 9% árið 2010. Það er svipað og fyrir síðastliðið ár sem reynt hefur mjög á spítalann. Nú þegar hefur verið gripið til margvíslegra sparnaðaraðgerða og reynt hefur verið að láta þær ekki koma niður á öryggi og þjónustu við sjúklinga. Sólarhringsdeildum hefur víða verið breytt í dagdeildir og göngudeildarþjónusta aukin. Það er erfitt að sjá að hægt sé að ganga enn lengra á næsta ári án þess að skerða þjónustuna verulega. Annað áhyggjuefni er að þegar þjónusta er skert annarsstaðar í heilbrigðiskerfinu leita sjúklingar í auknum mæli á Landspítala.

Hjúkrunarráð varar við þeim væntingum að þjónustan geti haldist óskert og hvetur til þess að opin umræða fari fram um það hvernig þjónustan verði og hvaða afleiðingar það muni hafa í för með sér. Uppsagnir starfsfólks eru óumflýjanlegar eigi Landspítali að halda sig innan fjárheimilda. Það er mikið áhyggjuefni og varar hjúkrunarráð sérstaklega við því að fækka hjúkrunarfræðingum. Rannsóknir erlendis benda til að fækkun hjúkrunarfræðinga ógni öryggi sjúklinga þannig að fylgikvillum og dauðsföllum fjölgar.

Vert er að benda á að sá árangur sem náðst hefur í heilbrigðiskerfinu er ekki síst vegna góðrar menntunar heilbrigðisstétta, mannauðurinn hefur skapað árangurinn. Hjúkrunarfræðingar eru lykilstarfsmenn þegar kemur að því að byggja upp göngudeildir, dagdeildir og sérhæfða heimahjúkrun. Meðal sparnaðaraðgerða á Landspítala er að endurnýja ekki tímabundnar ráðningar. Hópur nýútskrifaðra hjúkrunarfræðinga sem hófu störf í vor mun því brátt missa vinnuna. Þetta getur leitt til atgervisflótta úr stétt hjúkrunarfræðinga og sömuleiðis verður ekki nauðsynleg endurnýjun innan hennar.

Ráðherra hefur bent á það í ræðum að Landspítali hefur á tímum hagræðingar veitt góða þjónustu og í ljósi þess þá sé öryggi sjúklinga ekki ógnað nú. Nú er hins vegar svo komið að ekki verður lengra gengið í hagræðingu og því er óhjákvæmilegt að þjónustan skerðist. Öllum er ljóst að draga þarf úr útgjöldum ríkisins á þessum erfiðu tímum. Ekki má þó ganga svo nærri Landspítalanum að hann geti ekki sinnt verkefnum sínum sem spítali fjölmennasta svæðis landsins og eini spítalinn sem sinnir flóknari meðferðum fyrir allt landið. Mikilvægt er að tímabundnir erfiðleikar í íslensku efnahagslífi verði ekki til þess að stoðunum sé kippt undan Landspítalanum til lengri tíma.

Höfundur er formaður hjúkrunarráðs.

- Auglýsing-

Morgunblaðið 15.12.2009

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-