-Auglýsing-

Áhyggjur og kvíði á tímum COVID-19

Það er eðlilegt að vera kvíðin vegna kórónuveirunnar.

Kórónuveiran er fyrirferðamikil þessa dagana og ekki laust við að þyrmi yfir mann um stund og gamalkunnur kvíðahnútur láti á sér kræla. Það er í sjálfu sér ekki skrítið því þó svo að bólusetningar geri gott mót þá virðist veiran vera ólíkindatól og maður veit aldrei hverjir veikjast lítið sem ekkert og hverjir veikjast alvarlega. Það er því full ástæða fyrir alla að fara varlega.

Það er ekki bara fólk með undirliggjandi sjúkdóma sem hefur áhyggjur af COVID-19 og hugsanlegum afleiðingum veirunnar á fólkið okkar. Flest eigum við fjölskyldur, ættingja og vini sem eru í áhættuhóp Þannig að það er eðlilegt að fólk hafi áhyggjur og sé kvíðið.

-Auglýsing-

Það má kannski líka segja að kvíðin geti verið hjálplegur á þann hátt að við förum varlegar og fylgjum leiðbeiningum enn frekar og ítarlegar en annars væri. Það má auk þess minna á að við sem tilheyrum viðkvæmum hópum látum fara sérlega lítið fyrir okkur og forðumst margmennið. Það er þó mikilvægt að hlúa að sér og útivera er góð leið og mikilvæg til að halda heilsu.

Hvenær verða áhyggjur vandamál?

Allir hafa áhyggjur og það að hugsa fram í tímann getur hjálpað okkur við að skipuleggja hluti og bregðast við aðstæðum. Erfitt getur verið fyrir fólk að meta hvenær áhyggjur eru orðnar of miklar. Í núverandi ástandi er eðlilegt að hafa áhyggjur, en ef áhyggjur eru orðnar óhóflegar og farnar að stjórna lífi fólks – t.d. ef þær valda kvíða eða svefnvanda, er mikilvægt að leita leiða til að bæta líðan og takmarka þann tíma sem fer í áhyggjur.

Hvernig get ég brugðist við áhyggjum?

Höldum jafnvægi í daglegu lífi. Sálfræðingar líta á vellíðan sem samspil athafna sem veita ánægju og nánd og gefa fólki þá upplifun að það hafi áorkað einhverju. Mælt er með því að fólk sé í samskiptum en nú gæti þurft að beita nýstárlegum aðferðum til þess að halda nægjanlegri fjarlægð í samskiptum, til dæmis með myndsamtali og annarskonar netsamskiptum.

Látum áhyggjur snúast um raunveruleg vandamál en ekki möguleg vandamál. Ef við erum með áhyggjur af mörgum mögulegum vandamálum er mikilvægt að við minnum okkur á að hugurinn er upptekinn af vandamálum sem við höfum ekki tök á að leysa núna. Í framhaldinu er hjálplegt að finna leiðir til að sleppa áhyggjunum og einbeita sér að öðru.

- Auglýsing-

Æfum okkur í að fresta áhyggjum. Áhyggjur geta verið ágengar og valdið því að fólki finnist nauðsynlegt að bregðast strax við. Með því að æfa sig í að fresta áhyggjum af mögulegum vandamálum fær fólk gjarnan annað sjónarhorn og upplifun af áhyggjum sínum. Í framkvæmd snýst þetta um að taka daglega frá tíma (t.d. 15-30 mínútur) til þess að hugsa um áhyggjurnar og reyna svo að sleppa hugsunum um þær annars.

Skrifum niður neikvæðar hugsanir. Góð leið til að draga úr áhyggjum er að skrifa niður hugsanir sem eru neikvæðar eða valda kvíða og velta fyrir sér mögulegum lausnum við þeim.

Beitum núvitund. Að læra núvitund og stunda slíkar æfingar getur hjálpað fólki að sleppa áhyggjum og að draga athyglina að líðandi stund. Full athygli að önduninni eða umhverfishljóðum getur verið hjálplegt “akkeri” til þess að beina athyglinni að núinu og til að sleppa áhyggjum.

Hreyfum okkur. Dagleg hreyfing er nauðsynleg fyrir andlega, líkamlega og félagslega heilsu og vellíðan. Regluleg hreyfing er ekki aðeins mikilvæg til að sporna gegn fjölmörgum sjúkdómum. Hún veitir ekki síst andlegan og líkamlegan styrk til að takast á við dagleg verkefni og stuðlar að betri svefni og hvíld almennt.

Á covid.is er búið að setja saman góðar leiðbeiningar hvernig hægt er að bregðast við ef áhyggjur og kvíði steðja að og eins er þar að finna góðar hugmyndir hvað hægt er að gera í sóttkví.

Hægt er að finna þessar leiðbeiningar í heild sinni á hlekknum hér fyrir neðan.

https://www.covid.is/undirflokkar/ahyggjur-og-kvidi

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-