-Auglýsing-

Að missa kjarkinn

VonÞegar við áttum eftir nokkra mánuði af tímanum okkar í Árósum 2012 missti ég kjarkinn. Mér fannst erfið tilhugsun að flytja til baka til Íslands, ég varð óöruggur og jafnvæginu mínu var ógnað, ég óttaðist Íslenskan vetur og í kjölfarið skrifaði ég þennan pistil.

Þær stundir koma stundum í þessu lífi að maður hreinlega missir kjarkinn um stund og þarf að taka sig á til að halda áfram, verða hugrakkur á ný. Ég átti svona tímabil fyrir nokkru síðan, var hálfdaufur og fann fyrir því hvernig deyfðin og flatneskjan drógu úr mér kjarkinn, ég varð óákveðinn og úrillur. Þetta var afar óþægileg tilfinning og hreint alls ekki í mínum anda en ég hef alltaf verið heldur baráttuglaður.

Það var líka verulega óþægilegt að finna fyrir því að deyfðin hafði náð þeim tökum á mér að sjálfsvorkunnar- draugurinn var farinn á stjá. Neikvæðar hugsanir náðu yfirhöndinni og mér fannst líf mitt allt hálftilgangslítið og aumingjalegt. Ég málaði hlutina dökkum litum og ég geri ráð fyrir að skrattanum hafi verið skemmt.

Þó þetta geti verið skrambi erfitt á köflum þá fylgir því mikil blessun þegar maður áttar sig á því hvað er að gerast og staldrar við um stund. Það getur verið erfið stund þegar manni verður ljóst að maður er staddur á stað þar sem ekki er gott að vera og það er mikilvægt að leita allra leiða til að losna þaðan.

Hitt er svo annað mál að það er ofur eðlilegt að missa flugið inn á milli en jafnframt mikilvægt að maður leitist við að mæta sjálfum sér þar sem maður er staddur. Þetta tekur á og ég verð oft lítill í mér og viðkvæmur, stutt í tárin sem í rauninni er ekki alslæmt vegna þess að það sýnir að það er sveifla, og smám saman kemst maður burt af þessu einskinsmannslandi þar sem flatneskjan ræður ríkjum.

Flatneskjan er merkilegt fyrirbæri finnst mér og í rauninni mikið erfiðari en sveiflurnar. Í sveiflunni er hreyfing en í flatneskjunni er eiginlega ekkert, engar skoðanir, tilgangsleysi og hvorki ríkir gleði eða sorg. Sem betur fer gerist það ekki oft hjá mér að ég komist á þennan einmannalega stað og fyrir það er ég afskaplega þakklátur.

- Auglýsing-

Það er ekki alltaf einfalt mál að lifa með langvinnum krónískum sjúkdómum og lífið getur svo sannarlega tekið á í sambúð við þessa oft á tíðum ósýnilegu óvini sem liggja í leyni, lúra og reyna að finna veikan blett.

Stundum er það svo að manni brestur kjarkinn, missir fótanna og hverfur inn í sig. Síðan tínir maður sig saman, lemur í sig kjarkinn og heldur áfram. Ég er lánsamur að hafa hingað til getað náð mér af stað sjálfur á meðan aðrir þurfa til þess aðstoð, og það það er síður en svo eitthvað rangt við það, en um leið mikilvægt að leita sér aðstoðar ef þannig er málum háttað.

Ég tek hatt minn ofan fyrir ástvinum og aðstandendum, án þeirra væri ég lítill og einmanna og alveg örugglega ekki hugrakkur. Það er ljóst að þetta tekur líka í hjá aðstandendum og þeim sem eru næstir manni vegna þess að stundum er jafnvel erfitt að færa þetta í orð. Litlir hlutir verða oft flóknari en þeir þyrftu að vera og samtöl leiða ekki til niðurstöðu og mikillar þolinmæði er þörf af hálfu aðstandenda. Það getur verið þrautin þyngri fyrir aðstandendur í þessari stöðu að sýna þolinmæði ofan á allt annað, það hljómar nánast ósanngjarnt.

En sem betur fer kemur svo nýr dagur og ég rölti mér út undir húsvegg og heilsa sólinni, enn hefur mér tekist að finna kjarkinn. Ég er hugrakkur á ný.

Árósum 8. Maí 2012
Björn Ófeigsson

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-