Á þessum árstíma finnst mér gott að vakna á undan öðrum heimilismeðlimum og njóta kyrrðarinnar. Ég er vanafastur á morgnana og frá því ég man eftir mér, hef ég drukkið te og borðað brauð með osti og því breyti ég ekki svo glatt.
Mér finnst það notarleg tifinning að sitja með tebollan minn meðan eggin sjóða í pottinum og brauðið er í risavélinni, góð stund.
Þetta er líka sérstaklega gott vegna þess að undanfarna mánuði hef ég tileinkað mér 5:2 mataræðið þ.e. tvo daga í viku borða ég bara um 600 hitaeiningar á dag.
Þetta hentar mér mjög vel og mér finnst gott að eiga daga þar sem ég borða lítið og finn aldrei fyrir því að ég sé svangur nema augnablik og augnablik, en það er ekkert sem eitt vatnsglas bætir ekki úr.
Ég átti semsagt svona föstu-dag í gær og þess vegna er morgunverðurinn núna sérlega girnilegur og gamann að taka hann snemma.
Ég er þessi týpa sem hef alltaf verið aðeins og þungur, oft kallað mig stórbeinóttan og sterkelga byggðan af því mér finnst það hljóma betur, en ég hef einfaldlega verið of feitur.
Síðan ég byrjaði á þessu 5:2 mataræði hef ég misst um átta kíló og ég sé ekki eftir þeim, en af nógu er að taka. Ég er ekki frá því að svefninn minn hafi skánað og mér líður betur.
Ég hef stundum tekið lágkolvetnakúr en ég hef aldrei enst þar lengur en í einn mánuð, finnst maturinn þar leiðigjarn og mér líður hreinlega ekki vel af honum.
Þess vegna var ég glaður að byrja á 5:2 þar sem það passar mér vel að borða lítið tvo daga í viku en vera ekki með of mikið af boðum og bönnum hina dagana.
Ég finn þó að meðvitund mín hefur aukist og ég reyni að halda mig við hollara valið dagana sem ég er ekki að fasta eða hálffasta því það er varla hægt að segja að 600 kaloríur á dag séu fasta og það er það sem er frábært við þetta.
Ég horfði á sínum tíma á myndina eftir Michael Mosley um þetta mataræði og fannst mikið til koma og er nú með tvær bækur á náttborðinu mínu, 5:2 eftir Mike Mosley og svo bókina hennar Lukku í Happ um sama efni.
Báðar bækurnar eru frábærar en uppáhaldið mitt er Lukka því maturinn hennar er svo góður. Annað sem Lukka og Happ legggja mikla áhersu á og það er að maturinn sé ekki bólgumyndandi fyrir líkaman. Þetta er mjög mikilvægt fyrir okkur hjartafólkið.
Auk þess þá birtist stutt grein frá Harvard Health á dögunum þar sem kom fram að svo virtist sem hlutafasta, eins og þetta mataræði flokkast undir væri góð fyrir hjartað en vísindamenn vita ekki alveg hvers vegna og verður áhugavert að fylgjast með því í framtíðinni.
Ég fékk Axel hjartalækni minn í lið með mér og honum leist vel á að ég byrjaði á 5:2 og það verður gaman að sjá hvernig blóðprufurnar koma út þegar við mælum næst í ágúst.
Ég ætla að leyfa ykkur að fylgjast með þessari tilraun minni hérna en nú bíður mín rjúkandi tebolli og hann freistar.
Eigið góða dag.
Björn Ófeigs