Sjötugur breskur eftirlaunaþegi, Malcolm Darby, hafði gengið með þykk gleraugu allt sitt líf og var nánast blindur. Eftir að hann fékk hjartaáfall í fyrra hefur heldur betur orðið breyting á. Hann sér fullkomlega.
„Þetta er ótrúlegt. Ég held að þetta hljóti að vera kraftaverk. Nú segi ég fólki, eins einkennilega og það kann að hljóma, að hjartaáfallið er það besta sem hefur komið fyrir mig,“ segir Darby sem er arkitekt að mennt.
Darby fékk gleraugu þegar hann var aðeins tveggja ára og hafði því í raun aldrei kynnst neinu öðru. Í kjölfar hjartaáfallsins fór Darby í aðgerð til að fjarlægja blóðkekki sem mynduðust í kjölfar áfallsins. En eftir að Darby vaknaði setti hann á sig gleraugun en sá lítið sem ekkert.
„Ég hugsaði með mér að ég þyrfti að fara eyða meiri peningum í gleraugu. En þegar ég tók þau af mér sá ég dagblað sem ein hjúkrunarkonan hélt á. Ég gat lesið það sem þar stóð fullkomlega,“ segir Darby.
Læknar hafa ekki fundið neina skýringu á því hversvegna sjón Darby lagaðist eftir hjartaáfallið. Grunur leikur þó að þrýstingur hafi verið á sjóntauginni sem hafi slaknað eftir að blóðkekkirnir voru fjarlægðir í aðgerðinni.
www.dv.is 03.09.2009