Interior stofnaði The Cramps árið 1973 ásamt konu sinni, Poison Ivy (Kristy Wallace). Sveitin vakti fljótlega athygli í gróskuríkri pönksenu New York en stóð nokkuð utan við hana vegna ástar þeirra hjóna á gömlu og gegnu rokkabillíi. Renndu þau pönkstraumum í gegnum formið þannig að úr varð sýrubillí („psycho-billy)“. Seinni tíma sveitir áttu eftir að taka stefnuna upp á arma sína, um tíma var sterk sýrubillí-sena í Bretlandi og samtímasveitir eins og The Horrors eru skilgetið afkvæmi Cramps. Hljómsveitin starfaði allt fram á þennan dag og naut mikillar költhylli. Sviðsframkoma Interiors var líka í senn hamslaus og ástríðufull og öll ímyndarvinna í kringum Cramps var í einkennandi stíl, dró áhrif jafnt frá hryllingsmyndum, pönki, gamaldags rokki og róli og menningu samkynhneigðra.
Morgunblaðið 05.02.2009