Það eru afar gleðileg tíðindi að búið sé að skrifa undir samninga um kaup á nýju hjartaþræðingartæki á LSH. Á sama tíma hlýtur það einnig að vera umhugsunarefni að það sé fyrir tilverknað einstaklinga og félagasamtaka úti í bæ að mögulega sjáist litlir sem engir biðlistar í hjartaþræðingu í nánustu framtíð.
Það er mikið lán að til séu einstaklingar sem bæði hafa bolmagn og áhuga á því að fjármagna að stórum hluta tækjakaup hjartadeildar á LSH. Á sama tíma hlýtur slík staða að vera erfið fyrir þá sem þar starfa og hafa faglegan metnað til að bjóða upp á það allra besta sem þekkist á þessu sviði.
Í febrúar síðastliðnum birtist afar áhugaverð og fróðleg grein í læknablaðinu eftir Þórarinn Guðnason hjartasérfræðing, þar segir meðal annars. „Forvörnum og meðferð við hjarta- og æðasjúkdómum er ekki forgangsraðað í heilbrigðis-kerfinu í dag, þótt þessir sjúkdómar felli 700 Íslendinga árlega. Til að nefna nokkrar brotalamir í “heilbrigðiskerfi hjartasjúklinga”, má rifja upp að Landspítalinn og hjartadeild hans eru fjársvelt og til dæmis háð gjafafé til að endurnýja tækjakost sinn. Hjartaþræðingar eru gerðar með öldruðum tækjabúnaði sem nýta myndgreiningartækni síðustu aldar. Myndgæðin eru eftir því.“
Og Þórarinn heldur áfram seinna í greininni. „Sjúklingar liggja yfirleitt á göngum hjartadeildar vegna plássleysis og þar er áfátt bæði öryggi þeirra og einkalífi. Sjúklingar sem eru rúmliggjandi á ganginum, til dæmis eftir þræðingu, verða að pissa í bekken eða flösku, liggjandi í rúminu á ganginum þar sem umferð gesta og sjúklinga er stöðug, í besta falli bak við gegnsætt skilrúm. Þegar yfirlagnir eru miklar á hjartadeildinni deila 14 sjúklingar með sér einu klósetti. Smitgát verður erfið við slíkar aðstæður. Aðstöðuleysi háir göngudeildum hjartadeildar. Bráðamóttaka hjartasjúkra í kjallara Landspítala er sprungin.“ Svo mörg voru þau orð.
Það er ekki vafi á því að nýja tækið á Landspítalanum kemur til með að gjörbreyta vinnuumhverfi þeirra starfsmanna sem við hjartaþræðingar starfa auk þess sem gæði þeirrar vinnu hlýtur að taka miklum framförum vegna þeirrar tækni sem hið nýja tæki býður upp á.
Ég held hinsvegar að öllum þeim sem til þekkja sé ljóst að elsta tækið sem er enn í notkun verði ekki í notkun mikið lengur og sé í besta falli til vara ef á þarf að halda. Um er að ræða tæki sem styðst við myndgreiningartækni síðustu aldar og myndgæði eftir því eins og Dr. Þórarinn bendir á í grein sinni í Læknablaðinu.
Á sama tíma er Hjartamiðstöð Íslands að undirbúa uppsetningu hjartaþræðingastofu með öllu tilheyrandi þannig að útlit er fyrir að mögulega verði tvö ný tæki í gangi innan skamms tíma. Þeim tíðindum ber að fagna sérstaklega þar sem enn og aftur sýnir einkaframtakið fram á að mögulegt er að lyfta grettistaki ef vilji er fyrir hendi.
Það er óskandi að þær hugmyndir sem forsvarsmenn Hjartamiðstöðvar Íslands hafa nái fram að ganga. Hugmyndir þeirra koma hjartasjúkum og aðstandendum þeirra til góða og er spor í þá átt að gera „heilbrigðiskerfi hjartasjúkra“ notendavænna þannig að kerfið verði sniðið að sjúklingum en ekki þröngum stakk ríkisvaldsins og fjársvelts háskólasjúkrahúss.
Reykjavik 23.07.2008
Björn