18. apríl 2008
Í daglegu lífi verða árekstrar. Alveg sama hversu vel fólk á saman eða hversu vel gengur yfirleitt. Mér finnst ekki erfitt að vera í sambandi með Bjössa. Mér finnst það gaman, eðlilegt og gott. Ég á það til að nöldra, skipta mér af, reyna að stýra hlutum sem ég á ekkert með að stýra og vera pínu löt í heimilisverkum. Ég get hins vegar líka verið fullt af skemmtilegum hlutum. Fyndin og fjörug, dugleg og stöðug. Það sama má segja um Bjössann minn. Hann getur verið þrjóskari en andskotinn, sjálfmiðaður og flókinn. En hann er ótrúlega lærdómsfús. Hann er hugaður. Hann hefur úthald á við heilan her og hann tekur vandræði sín ekki út á mér eða öðrum í kringum hann, sem er ótrúleg bara eitt og sér.
Þetta samlíf snýst um þetta. Að takast á við það saman sem lífið hefur upp á að bjóða. Hljómar einfalt. Er stundum einfalt. En ekki alltaf. Stundum er það bara drullu erfitt. Stundum höfum við bara ekki sömu þarfirnar og þá getur verið erfitt að feta þennan stíg þar sem þörfum beggja er fullnægt á meðan nánd og því að stíga fetið saman, er haldið. Það er ekkert mál að ég hugsi bara um mig og hann um sig. En þannig á það ekki að vera.
Núna reynir á. Bjössa hrakar. Við bregðumst ekki eins við því. Ég þarf eitt og hann annað. Þarfir beggja eru mikilvægar og leiðir okkar til að takast á við þetta eru ólíkar. Ekki furða. Hann er á kafi í þessu og finnur alla verkina, alla þreytuna og allar breytingarnar. Ég fer hins vegar í vinnuna á morgnana, tekst á við það að reka fyrirtæki og að standa mig í verkefnum mínum og fer svo heim.
Stundum er ég bara þreytt þegar ég kem heim. Stundum langar mig bara til að gera ekkert, vera heiladauð og horfa á einhvern þátt. Ekkert að pæla, ekkert að greina og ekkert að plana eða takast á við. Þá hins vegar er Bjössi búinn að vera einn allan daginn. Í samskiptum við fáa enda allir í vinnu og þegar ég kem heim þá á hann eftir að bera undir einhvern allt það sem á dag hans hefur drifið, hugmyndir sem hann hefur fengið, líðan sem hann hefur fundið fyrir og bara að fá útrás fyrir þörf sína fyrir mannleg samskipti. Þá erum við ekki alltaf á sömu blaðsíðunni en við finnum leið.
En mér gremst það þegar eitthvað bjátar á og hann er ekki til í að leita læknis strax. Mér gremst það þegar við vitum það bæði að það er eitthvað að, en hann vill ekki fara upp á deild. Svörin eru svo sem skiljanleg fyrir þann sem stendur í hans sporum. Ég þarf að treysta honum fyrir því að þekkja ástandið, þekkja einkennin og vera dómbær á hvenær er nauðsyn til að hringja á sjúkrabíl, hvenær er ástæða til að ákveða að hringja í Önnu upp á deild á morgun bara og hvenær þetta snýst bara um að slaka á og hvílast meira og betur. Fyrir mér er þetta bara ekki svo einfalt. Þetta er lífshættulegur sjúkdómur. Ég er viss um að hann þekkir þetta ástand vel. Ég er hins vegar líka viss um að þegar tíminn kemur þegar illa fer, þá veit hann það ekki fyrirfram. Mín skoðun er sú að það eigi alltaf að hafa vaðið fyrir neðan sig þegar að þessum sjúkdómi kemur. En það er mín skoðun. Það fyndna er að hans skoðun er sú sama þrátt fyrir ólík viðbrögð, mat okkar á aðstæðum er nefnilega ekki hið sama. Honum finnst hann vera varkár þegar mér finnst það ekki. Honum finnst hann gera rétt þegar mér finnst að hann ætti að gera annað. Mér finnst að hann ætti að tala við lækni þó það væri ekki nema fyrir mig. Mér finnst að mín hugarró sé líka mikilvæg. Mér finnst ástand hans ekki vera hans einkamál. Mér finnst að þörfum okkar beggja þurfi að vera mætt og stundum þýðir það að hann þarf að fá að leggja sig þegar honum líður illa en ekkert er að og hann er kannski bara leiður og stundum þýðir það að hann þarf að leggja sig eða leita læknis af því ég er hrædd og finnst hann slæmur.
Þetta er kannski mikil sjálfsmiðun í mér. En svona er það. Stundum er ég sjálfsmiðuð, stundum er hann það. Þannig er lífið og samlífið. Við göngum í gegnum þetta og finnum leið, saman. En þrátt fyrir það hvað það er gaman að lifa, hvað líf okkar saman er gott og hvað ég er þakklát fyrir það sem við eigum. Þá er þetta bara stundum erfitt.