-Auglýsing-

Nýtt heilbrigðisnet myndi kosta tvo milljarða króna

SJÚKLINGAR eiga það til að reka upp stór augu þegar þeir átta sig á því að heilsufarsupplýsingar um þá eru ekki aðgengilegar rafrænt milli t.d. sjúkrahúsa og heilsugæslunnar, jafnvel ekki milli lækna innan sömu stofnunar. Fólk þarf að margendurtaka sjúkrasögu sína, fara oft í sömu rannsóknirnar og sjúklingar af þeim sökum því stungnir í handlegginn óþarflega oft. Undrunin er skiljanleg. Í því upplýsingasamfélagi sem við búum í er fólk vant því að auðveldlega sé hægt að nálgast upplýsingar um fjármál þess svo dæmi sé tekið. En af hverju ekki í heilbrigðiskerfinu? Hví er enn að hluta beitt 19. aldar aðferðafræði við skráningu og miðlun upplýsinga í nútímalækningum?

Ýmislegt hefur áunnist við uppbyggingu rafrænna sjúkraskráa og heilbrigðisnets á landsvísu undanfarin ár, þótt hægt hafi miðað að margra mati. Tímamót urðu árið 1998 með útkomu skýrslu um stefnumótun ríkisstjórnarinnar um upplýsingasamfélagið. Í framhaldi af því komst nokkur hreyfing á málið, árið 2001 var gerð kröfulýsing um rafræna sjúkraskrá og samtímis var unnið að stefnumótun um heilbrigðisnet. Verkefnin eru samtvinnuð: Rafræna sjúkraskráin er upphaf og endir alls í rafrænum samskiptum.

-Auglýsing-

Ekki fullnægjandi sjúkraskrá
Árið 2004 var tekin saman skýrsla af fyrirtækinu ParX, viðskiptaráðgjöf IBM, þar sem gerð var grein fyrir hvaða leiðir væru færar og hverju þyrfti til að kosta svo hin rafræna veröld í heilbrigðisþjónustu yrði hér sambærileg því sem best gerist annars staðar. „Þeirra mat var að sú sjúkraskrá sem við værum með væri ekki fullnægjandi og ráðlögðu okkur að byggja rafræn samskipti upp frá grunni,“ segir Ingimar Einarsson, skrifstofustjóri í heilbrigðisráðuneytinu. Mat ParX var að á 4-6 ára tímabili þyrfti að verja tveimur milljörðum í endurnýjun allra kerfa. Var áætlað að tæpum milljarði hefði þegar verið varið í uppbygginguna.

Niðurstaðan varð hins vegar sú að byggja áfram á fyrirliggjandi grunni þar sem búið væri að fjárfesta þá þegar svo mikið í kerfinu. Ekki var talið mögulegt að fá nægilegt fjármagn til umbyltingar. Í kjölfarið var áfram unnið að uppbyggingu heilbrigðisnetsins í skrefum.

- Auglýsing-

Útbreiddasta sjúkraskrárkerfið í dag nefnist Saga og er notað á öllum heilsugæslustöðvum á landinu, á stærstu sjúkrahúsunum og víðar. Landspítalinn tók m.a. þá ákvörðun að byggja sína rafrænu skráningu á Sögukerfinu, þó með þeim hætti að kerfið er nú notað sem nokkurs konar skel með tengingu við fjölmörg önnur kerfi sjúkrahússins.

Strax í upphafi komu upp efasemdir um að Sögukerfið, sem var hannað fyrir heilsugæsluna, hentaði sjúkrahússtarfsemi. Nú er rætt hvort tekist hafi að laga það að þörfum spítalanna eins og til stóð. „Það eru tveir kostir; að hætta við Sögukerfið eða laga það að þörfum sjúkrahúsanna eins og t.d. hefur verið reynt á Landspítalanum og víðar síðustu ár,“ segir Ingimar. „Það er hins vegar alls óvíst að menn nái í höfn með það. Þá þarf að skoða aðra kosti í stöðunni.“ Hann segir ekki útilokað að nýtt kerfi verði boðið út að afloknu stöðumati. „Áður en slík ákvörðun er tekin þarf að fara fram umræða í samfélaginu um málið.“

Stofnanir ráðuneytisins greiða ríflega 100 milljónir króna á ári í leyfis- og þjónustugjöld vegna Sögukerfisins og má ætla að heildarkostnaður vegna Sögu geti hæglega numið um 200 milljónum á ári. Til viðbótar kemur kostnaður annarra kerfa sem er töluverður. Talið er að rekstrarkostnaður nýs kerfis verði svipaður eða nokkru hærri.

 Ljón í veginum
En hvað tefur uppbygginguna? Bent hefur verið á að persónuverndarsjónarmið hafi þar haft sitt að segja, en lagagrundvöllur rafrænna sjúkraskráa er ótryggur. Nú er í smíðum lagafrumvarp sem lýtur sérstaklega að rafrænum sjúkraskrám.

En fleira hefur tafið málið. Undanfarin ár hefur skort þann kraft sem einkennt hefur uppbygginguna í nágrannalöndunum. Skýringin felst í skorti á fjármagni en bent hefur verið á að reynslan hafi sýnt að þótt verkefnið sé dýrt skili það sér til baka í tímasparnaði og hagræðingu í öllu heilbrigðiskerfinu. Árið 2004 var reiknað út að uppbyggingin myndi borga sig upp á um fjórum árum.

Stór þáttur í nýgerðu samkomulagi Landspítala og fjögurra nágrannasjúkrahúsa er uppbygging rafrænna samskipta stofnananna. Telur heilbrigðisráðuneytið að þetta muni kosta um 60 milljónir króna og taka um tvö ár. Hefur heilbrigðisráðherra þegar sett 25 milljónir króna í verkefnið. Markmiðið er að koma upp rafrænu samskiptaumhverfi með gagnvirkum tengingum og ýtrustu öryggiskröfum. Kerfið verður ekki strax opið í báða enda, í fyrstu geta nágrannasjúkrahúsin aðeins nálgast upplýsingar úr gagnagrunnum Landspítalans. Í kjölfarið, þegar lög um rafræna sjúkraskrá liggja fyrir, stendur til að gera samskiptin gagnvirkari.

 Lykillinn liggur í Kraganum
“Samstarf Kragasjúkrahúsanna verður lykillinn að uppbyggingu rafrænna samskipta í landinu,“ segir Ingimar. Takist vel til verður það í kjölfarið yfirfært á allt heilbrigðiskerfið.

Innleiðing rafrænna samskipta mun leiða til hagræðingar í rekstri heilbrigðiskerfisins, um það er ekki deilt. Þau spara einnig tíma og mannauðurinn nýtist því betur til annarra verka en tímafrekrar skráningar og öflunar upplýsinga. Margföldunaráhrifin eru mikil, þau felast í meiri framleiðni, auknum gæðum og hagræðingu í rekstri. „Að auki tryggir þetta meira öryggi gagna og getur hreinlega skipt sköpum um hvort sjúklingur nær bata eður ei,“ segir Ingimar, skrifstofustjóri heilbrigðisráðuneytisins.

Eftir Sunnu Ósk Logadóttur

sunna@mbl.is

- Auglýsing -

Morgunblaðið 31.01.2008 

 

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-