-Auglýsing-

Breytingar á starfsemi neyðarbíls

Eftir Jón Baldursson og Má Kristjánsson: “Með grein þessari viljum við leitast við að leiðrétta slíkan misskilning sem raunar hefur áður komið fram hjá fleirum, sem hafa tjáð sig um málið.”

 
Í umræðu síðastliðinna vikna um breytingar á þjónustu læknis á neyðarbíl hefur gætt ýmiss konar misskilnings. Nokkur dæmi um þetta koma fram í grein Kristínar Sigurðardóttur, sérfræðings í slysa- og bráðalækningum í Morgunblaðinu 24. janúar sl. Með grein þessari viljum við leitast við að leiðrétta slíkan misskilning sem raunar hefur áður komið fram hjá fleirum, sem hafa tjáð sig um málið.

Í fyrsta lagi hefur bækistöð læknisins verið flutt frá slökkviliðsstöðinni við Skógarhlíð til slysa- og bráðadeildar Landspítala í Fossvogi og starfsfyrirkomulagi læknisins breytt á ýmsan hátt. Verklagi við boðun neyðarbíls hefur verið breytt þannig að bein útköll læknis á vettvang verða mun færri. Um það er almenn sátt að ekki er þörf á lækni í forgangsútköll, svo nefnd F1-útköll, nema í um 5-10% tilfella. Eftir sem áður verður læknir ræstur út um leið og bráðatæknar við endurlífgun, öndunarerfiðleika með meðvitundarleysi, við háorkuáverka t.d. þegar fórnarlamb umferðarslyss er fast í flaki og horfur á langdvöl á slysavettvangi og við meðvitundarleysi barna. Eins og sakir standa er sjúkrabifreið send með forgangi til að sækja lækninn á slysadeild og fer hann síðan umsvifalaust á vettvang um leið og sjúkrabifreið kemur í Fossvog. Unnið er að því að útvega sérstaka bifreið til að flytja lækninn með forgangi á vettvang í bráðum tilfellum.

-Auglýsing-

Í öðru lagi hefur því verið haldið fram að með framangreindu fyrirkomulagi verði óásættanleg töf á komu læknis á vettvang, töf er geti varðað hvort sjúklingur lifir eða deyr. Á þessar fullyrðingar er engin leið að færa sönnur og geta jafnvel talist hæpnar en hitt er rétt að um það hefur ríkt nokkur óvissa hvort töf verði á komu læknis á vettvang miðað við komu bráðatækna. Ekki er enn komin nægileg reynsla af nýja fyrirkomulaginu til að leggja á þetta endanlegan dóm, enda aðeins rétt rúm vika liðin frá breytingunni en læknar hafa þegar verið kallaðir á vettvang í nokkrum tilfellum vegna endurlífgunar. Hafa slík útköll verið að meðaltali tvö á sólarhring fram til þessa en þar af hefur tæpur helmingur verið afturkallaður eftir að vettvangsmat bráðatækna leiddi í ljós að ástandið var ekki eins alvarlegt og á horfðist í fyrstu. Með staðsetningartækni nútímans getur neyðarsímvörður hjá 112 strax séð hvaða sjúkrabíll er staddur næst slysadeildinni á hverjum tíma. Þess eru þegar dæmi að sjúkrabíll hafi staðið við slysa- og bráðadeild í Fossvogi þegar til útkalls kom og í einu tilviki var læknir kominn á vettvang á undan bráðatæknum.

Í þriðja lagi hefur verið kvartað um að upplýsingar um breytingar á starfsemi neyðarbíls hafi verið ónákvæmar. Ýmist hafi verið talað að um að efla bráðþjónustuna en hins vegar að breytingin stafi af hagræðingu eða sparnaði og að erfitt sé að láta þetta tvennt ganga upp! Þessu er til að svara að það er einmitt stefna núverandi sviðsstjóra slysa- og bráðasviðs að styrkja bráðahjúkrun og bráðalækningar sem sérgreinar heilbrigðisvísinda innan Landspítala og háskóla. Að því er unnið hörðum höndum m.a. með því að efla bráðahjúkrun í Háskóla Íslands og að efla framhaldsmenntun í bráðalækningum í samvinnu spítala og læknadeildar. Jafnframt hefur verið stofnað til samkomulags um samvinnu við framkvæmd rannsókna við námsbraut í lýðheilsuvísindum við læknadeild Háskóla Íslands. Nú þegar eru nokkur rannsóknaverkefni að líta dagsins ljós og við væntum mikils af samstarfinu.

- Auglýsing-

En þrátt fyrir þennan ásetning stjórnenda sviðsins um aukna menntun og rannsóknastarf innan bráðafræðanna standa þeir jafnframt frammi fyrir þeim raunveruleika að mismunur er á fjárframlögum til rekstrar árið 2008 og áætlunum stjórnenda sem svarar á annað hundrað milljón króna. Það er því verkefni okkar að halda áfram að efla fræðin en jafnframt að hagræða. Eitt af því sem virðist blasa við er að betri nýting og fleiri námstækifæri séu til staðar fyrir unglækna í námsstöðum innan deildarinnar. Því er það mat stjórnenda að tíma starfsfólks sé betur varið að sinna þeim 60 þúsund sjúklingum sem leita til deildarinnar en að fara í 3-4.000 sjúkraflutningaútköll árlega þegar menn eru sammála um að þekking læknis sé nú orðið aðeins nauðsynleg í miklum minnihluta tilfella.

Þessu til viðbótar hafa fjarskipti verið efld milli vettvangs og bráðadeilda. Strax og breyting á starfsemi neyðarbíls átti sér stað var talsamband með Tetra-fjarskiptum eflt. Þannig er nú talsamband milli neyðarlínu, sjúkrabifreiða slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins og læknis á slysa- og bráðadeild í Fossvogi. Það sem af er hafa sjúkraflutningamenn haft fjarskiptasamband við lækni flesta dagana. Jafnframt eru samskipti á talrás milli sjúkraflutningamanna og hjúkrunarvaktstjóra á slysa- og bráðadeild í Fossvogi og bráðamóttöku við Hringbraut. Þrátt fyrir byrjunarörðugleika hafa fjarskiptin almennt gengið vel og ætla má að þetta fyrirkomulag muni bæta mjög samskiptamöguleika á milli heilbrigðisstarfsfólks til heilla fyrir sjúklinga. Unnið er að því að setja upp samskonar fjarskipti á bráðamóttöku barna til að bæta fjarskipti milli hennar og bráðatækna á vettvangi. Sett hefur verið upp móttökutæki við slysa- og bráðadeild í Fossvogi þannig að nú er unnt að senda hjartalínurit beint frá sjúklingi á vettvangi til lækna á bráðadeild til túlkunar og ákvörðunar um meðferð.

Þegar rætt er um að efla bráðaþjónustuna er m.a. verið að vísa til þessa. Hér er sannarlega horft til læknaeiðsins um velferð sjúklings og samfélags.

Í góðri samvinnu við símafyrirtækið Vodafone er unnið að því að hefja sendingu lifandi mynda frá vettvangi til slysa- og bráðadeildar í Fossvogi með tæknimöguleikum þriðju kynslóðar farsíma. Þannig verður lækni, sem er ábyrgur hverju sinni fyrir samskiptum við bráðatækna á vettvangi, gert kleift að byggja ráðleggingar sínar til bráðatækna á upplýsingum um lífsmörk, hjartalínurit og beinni sýn. Hér er verið að taka stórstíg framfaraspor.

Í fjórða lagi er gagnrýnt að læknir sem er boðaður í skyndi hverfi frá veikum sjúklingi og þannig rýrni gæði þeirrar þjónustu sem hann er að veita. Því er til að svara að í skipulagsbreytingum sem eiga sér stað innan slysa- og bráðadeildar er gert ráð fyrir að tiltekinn læknir hafi skyldum að gegna við bráð útköll. Samverkamönnum hans er þetta ljóst og grípa inn í meðferð þess sjúklings sem horfið er frá. Ekki má gleyma, að nú gerist slíkt miklu sjaldnar en verið hefði með óbreyttu fyrirkomulagi. Auk þess kemur það einatt fyrir á svo erilsömum stað sem slysa- og bráðadeildin er að læknir þarf að fara milli sjúklinga innan deildarinnar til að sinna þeim fyrst sem bráðast eru veikir eða mest slasaðir. Sama á við um hjúkrunarfræðinga deildarinnar. Það er reynsla okkar að sjúklingar og aðstandendur þeirra taka slíku með skilningi þar sem þeir skynja að brýnni verkefni kalla.

Í fimmta lagi hefur verið fundið að því að með því að staðsetja forgangsakstursbifreið með ökumann við slysa- og bráðadeild sé verið að fyrirgera öllum sparnaði. Þetta er ekki rétt því í fyrra kerfi var heill sjúkrabíll bundinn við það eitt að flytja lækninn til móts við sjúkraflutningamenn á vettvangi en flutti nær aldrei sjúklinga eins og slíkar bifreiðar eru til ætlaðar. Sjúkraflutningamaður hefur á sama hátt verið bundinn við að aka bílnum og fylgja lækninum en ekki nýst til annarra starfa á meðan. Með nýrri skipan er hægt að nýta þennan mann til starfa við slysa- og bráðadeild og gefa honum um leið tækifæri til þjálfunar og endurmenntunar.

Loks hefur verið á það bent að vegna þess að verkefni neyðarbílslæknis verða nú fyrirsjáanlega færri en áður þá sé hætta á því að þjálfunartækifærum fyrir unglækna fækki og að þeir verði ekki eins vel í stakk búnir þegar raunverulegt útkall kemur. Við viljum takast á við þetta með bættri þjálfun og meiri aðlögunartíma með reyndari læknum. Slíkt er hægt að gera án þess að mikill aukakostnaður hljótist af. Þar teljum við að með eflingu framhaldsmenntunar í bráðalæknisfræði og bráðahjúkrun innan sviðsins ef til vill í samvinnu við erlendar stofnanir takist okkur að standa vörð um það frábæra starfsfólk sem hefur hingað til veitt afbragðs bráðaþjónustu við samfélagið.

Jón er yfirlæknir bráðalækninga. Már er sviðsstjóri lækninga, slysa- og bráðasviðs Landspítala.

Morgunblaðið 27.01.2008

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-