Nikótínfíkn er sjúkdómur sem þarf að meðhöndla, segir Þorsteinn Blöndal yfirlæknir. Nýtt lyf sem inniheldur ekki nikótín þykir gefa góða raun.
Það þarf átak til að hætta að reykja. Þorsteinn Blöndal, yfirlæknir Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu, hefur sérhæft sig í að aðstoða fólk við að hætta að reykja og hann segir lyfjagjöf nauðsynlega í glímunni við sjúkdóminn nikótínfíkn.
Champix (vareniclin) er nýtt lyfseðlisskylt lyf fyrir fólk sem vill hætta að reykja en það var sett á markað í byrjun árs hér á landi. Lyfið er það fyrsta sem er þróað sérstaklega til að hjálpa fólki við að hætta reykingum og það inniheldur ekki nikótín sem viðheldur fíkninni. Hins vegar virkar það á nikótínmóttaka í heila og blekkir þannig líkamann og með því móti er hægt að minnka magn nikótíns í líkamanum smám saman. Lyfið hefur tvöfalda verkun, það minnkar löngun til að reykja og dregur úr fráhvarfseinkennum.
Meðferðin tekur þrjá mánuði og hafa rannsóknir sýnt fram á að eftir 12 vikna meðferð höfðu 44% verið reyklaus og að 52 vikum liðnum voru 23% þátttakenda reyklaus. Þetta er betri árangur en þekkist við önnur meðferðarúrræði en almennt er talað um 3–10% árangur hjá þeim sem eru að hætta að reykja, þ.e. án lyfjameðferðar eða frekari stuðnings.
Gegn brenglaðri dómgreind
“Sjúkdómurinn er nikótínfíkn. Það er svolítið erfitt að nota orðið reykingar yfir sjúkdóma því fólk lítur á það sem félagslegt fyrirbæri,” segir Þorsteinn Blöndal. “Nikótínfíkn brenglar dómgreindina þannig að þeir sem reykja setja reykingar í lífshættulegan forgang. Það kemur fram í því að þrátt fyrir löngun fólks til að hætta að reykja, t.d. heilsunnar vegna, þá reykir það áfram sem er lífshættulegt vegna sjúkdómanna sem fylgja í kjölfarið.”
Þorsteinn segir umrætt lyf vera nýjung, nikótínlyf hafi komið fram fyrir 20 árum, búprópíon fyrir 10 árum og nú þetta. “Nýja lyfið virðist betra en fyrri lyf vegna þess að með því ná fleiri að halda langvarandi reykbindindi. Sömuleiðis virðast aukaverkanir vera vægari og ekki eins alvarlegar og af fyrri lyfjum.” 28% finna til ógleði af champix sem er oftast væg.
Í sömu tilrauninni var gerður samanburður á vareniklíni, búprópíoni og lyfleysu (hveitipillum). Þorsteini þykir fyrrgreindur árangur af lyfinu, 23% reyklaus á ári, góður í ljósi þess hve krafan um að halda reykbindindi í 365 daga sé hörð en 16% þeirra sem hafi notað búprópíon hafi verið reyklaus og 9% þeirra sem fengu hveitipillur. Stuðningur hafi líka verið til staðar, s.s. samtöl, sem skýri árangurinn af hveitipillunum. Hann undirstrikar að árangurinn byggist ekki eingöngu á lyfjum.
Fyrir 20 árum reyktu 40% af fullorðnum Íslendingum en í dag reykja 20% þeirra og kveður Þorsteinn það mikla breytingu en þó eigi margir í miklum erfiðleikum með að hætta í dag, margir þeirra séu þunglyndir eða eigi áfengismeðferð að baki.
Þorsteinn hélt lengi námskeið til að hætta reykja á Heilsuverndarstöð Reykjavíkur á lungna- og berklavarnadeild en hann og Tryggvi Ásmundsson byrjuðu aftur með námskeiðin um áramótin. “Reynslan virðist staðfesta að nýja lyfið er virkileg viðbót; meira en helmingur þátttakenda frá áramótum heldur samfelldu reykbindindi við tveggja mánaða eftirlit sem er mjög flott!
Á námskeiðunum okkar notum við það þrennt sem vitað er að gefi árangur: Stuðningur í hóp skilar 5–10% umfram engan stuðning, persónuleg viðtöl skila hinu sama og umrædd lyfjameðferð 10–20% umfram hveitipillur eða lyfleysu. Samtals er þetta 30% á ári sem er næstum einn af hverjum þremur og það er mjög gott. Ég held að það séu að koma nýir tímar í sambandi við meðferð við nikótínfíkn,” segir Þorsteinn að lokum.
Morgunblaðið 02.05.2007
Eftir Þuríði Magnúsínu Björnsdóttur