-Auglýsing-

10 hlutir sem þú vissir (kannski) ekki að væru hollir

Á sumrin er alltaf pláss fyrir topp 10 lista í dagblöðum. Þó að gúrkur séu meinhollar eru þær ekki á listanum í þetta sinn, en blaðamaður breska dagblaðsins Times var ekki í vandræðum með að finna önnur atriði. 
 
1 Súkkulaði Allir vita að súkkulaði er heilsusamleg fæða. Því miður er það dökka, bitra gerðin, hollara en það sæta og rjómakennda. Súkkulaði inniheldur pólýphenól sem dregur úr sindurefnum sem aftur valda frumu- og erfðaefnisskemmdum, auk þess sem pólýphenól verndar hjartað. Vísindamenn við Harvard-háskóla rannsökuðu 8.000 bandaríska karlmenn og komust að því að þeir sem borðuðu súkkulaði allt að þrisvar í mánuði lifðu nær ári lengur en þeir sem borðuðu of mikið súkkulaði eða alls ekkert. Hófsemi virðist því vera lykillinn í súkkulaðiáti.  

2 Rauðvín Þeir sem lesa dagblöð oftar en einu sinni á ári hafa sennilega uppgötvað kosti rauðvíns fyrir heilsuna. Líkt og með súkkulaðið þá gegnir pólýphenól lykilhlutverki. Tannín og flavonóíð í vínberjahýði eru líka öflug andoxunarefni, en prócýanídín lækkar blóðþrýsting og kólesteról. Annað innihaldsefni í rauðvíni sem mikið hefur verið fjallað um, resveratról, hægir á öldrun hjarta, beina, augna og vöðva. Til að fá sem mest út úr efnunum, skal einnig gæta hófsemi í neyslu rauðvíns.  
3 Streita Langtímastreita er tvímælalaust ekki góð fyrir heilsuna, en í litlum skömmtum getur streita styrkt ónæmiskerfið. Þeir sem þurfa að halda ræðu í brúðkaupi í sumar geta huggað sig við þessa heilsubót. Sérfræðingar segja að streituvaldandi aðstæður kveiki á flótta- eða árásarviðbragði (e. fight or flight) líkamans, en það hjálpaði forfeðrum okkar að halda lífi í návist rándýra fyrr á öldum.  

4 Ís Sykurstuðullinn í ís er frekar lágur, en það þýðir að sykur (kolvetni) skilar sér hægt út í blóðið eftir neyslu. Það skilar sér svo aftur í minni sykurlöngun. 75 grömm af Ben & Jerry’s Cookie Dough-ís innihalda 114 kaloríur og 6 grömm af fitu, á meðan sneið af ostaköku getur geymt 511 kaloríur og 43 grömm af fitu.  

5 Hvítt brauð Fjölkornabrauð er almennt talið heilsusamlegra en franskbrauð. Hveitið í hvítu brauði er samt stundum bætt með kalki, járni, B1-vítamíni og níacíni. Vegna þess að franskbrauð er ekki eins trefjaríkt og fjölkornabrauð frásogar líkaminn meira kalk. Þumalputtareglan er ennþá sú að gefa skuli börnunum gróft brauð en það hvíta er e.t.v. ekki alslæmt.  

6 Vinna Oft er sagt að erfiðisvinna drepi engan. Í Japan vinnur reyndar fjöldi fólks yfir sig ár hvert, en sérfræðingar halda því samt fram að vinnan haldi fólki heilbrigðu. Vinnandi fólk skaffar auðvitað peninga til að fæða sig og klæða, en vinnan styrkir einnig félagsleg tengsl og eykur lífslíkur.  

7 Kaffi Kaffi inniheldur andoxunarefni og tannín líkt og rauðvín og súkkulaði. Þessi efni vernda hjartað og hindra slagæðastíflur. Kaffi er líka gott fyrir lifrina því einn bolli á dag minnkar líkur á skorpulifur vegna áfengisneyslu. Fjórir bollar draga úr áhættunni um 80%, sem eru góðar fréttir fyrir þá sem eru á rauðvínskúrnum.  

- Auglýsing-

8 Bakaðar baunir Þrátt fyrir vöruhækkanir undanfarin misseri eru bakaðar baunir ennþá tiltölulega ódýrar. Þær eru almennt taldar vera góðar fyrir hjartað, en valda neytendum vindgangi.  

9 Guinness-bjór Eitt sinn var Guinness-bjór markaðssettur undir slagorðinu „Guinnes er góður (heilsusamlegur) fyrir þig“, en framleiðendur bjórsins voru látnir hætta með þá herferð. Bandarísk rannsókn frá árinu 2003 gaf þó til kynna að slagorðið væri alls ekki svo galið. Hálfpottur (pint) af svörtu leðjunni er álíka blóðþynnandi og aspirín, en bragðast talsvert betur. Enn og aftur snýst hollustan um andoxunarefni.  

10 Topp 10 listar dagblaða Þetta atriði er mjög umdeilt. Sérfræðingar eru ekki sammála um heilsubót topp 10 lista, en vísbendingar gefa til kynna að við lestur langra lista í dagblöðum dragi úr streitu lesenda og líkurnar á „karoshi“ (japanska hugtakið fyrir „dauða vegna of mikillar vinnu“) minnki. Listarnir eru tvímælalaust góðir fyrir dagblöð, því einungis þarf að veita lágt launuðum blaðamönnum aðgang að tölvu, Google og Wikipediu og eru þeim þá allir vegir færir. Í gúrkutíð geta listarnir fyllt upp pláss sem áður var notað undir mikilvægt frétta efni.

liljath@mbl.is

Morgunblaðið 29.07.2008

 

-Auglýsing-
-Auglýsing-

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-