Lágkolvetnamataræði hefur fest sig í sessi sem góður valkostur fyrir þá sem þjást af efnaskiptavillu og sykursýki 2 eða þurfa hreinlega að léttast. Axel F. Sigurðsson hjartalæknir heldur úti vefsíðunni mataraedi.is og docsopinion.com. Í þessum pistli fer hann yfir helstu heilsufarslegu áhrif þess að vera á lágkolvetnamataræði en tekið skal fram að þetta mataræði hentar alls ekki öllum en fyrir þá hópa sem það passar virkar það vel.
Ef þú ert of þungur og/eða með mikla kviðfitu gætirðu hugsanlega verið með efnaskiptavillu. Þessu fylgir aukin hætta á hjarta-og æðasjúkdómum svo og sykursýki af tegund 2. Við þessar aðstæður getur lágkolvetnamataræði verið gagnlegt.
Segjum svo að þú sért alltof þung/þungur og hafir tekið þá ákvörðun að þú viljir prófa lágkolvetnamataræði í því skyni að léttast og bæta heilsuna. Þá þarftu að sneiða hjá öllum unnum sykri. Sælgæti og gosdrykki leggur þú alfarið á hilluna. Þú þarft einnig að borða minna af öðrum kolvetnaríkum matvörum svo sem kartöflum, brauði, morgunkorni, pasta og hrisgrjónum. Einu kolvetnin sem þú neytir til að byrja með áttu að fá úr grænmeti og ávöxtum, þó í litlu magni i fyrst um sinn. Til að líkaminn fái orku þarftu í staðinn að auka neyslu á fitu. Best er að borða feitar mjólkurvörur og osta, auk annarrar hollrar fitu úr dýra-og jurtaríkinu. Kjörið er að neyta ólífuolíu og borða feitan fisk. Með því móti færðu hollar fjöl-og einómettaðar fitusýrur. Egg eru góður kostur. Forðastu fitusnauðar vörur því þær innihalda oft viðbættan sykur. Lestu vel á innihaldslýsingar matavæla og forðastu vörur sem innihlada meira en 4 grömm af kolvetnum á hver 100 grömm. Þegar fram í sækir bætirðu svo smám saman við hollum kolvetnum, eykur ávaxtaneyslu og reynir að finna það daglega kolvetnamagn sem þú getur neytt án þess að þyngjast aftur.
Áður en þú gerir ofangreindar breytingar skaltu ráðfæra þig við lækni, næringarfræðing eða aðra fagaðila því það er að ýmsu að huga. T.d. er vökvatap oft talsvert í upphafi og þú þarft því að drekka vel af vökva og stundum soði til að fá nægilegt magn af söltum. Láttu mæla blóðfitur þínar og blóðsykur áður en þú byrjar. Það er gert með einni blóðprufu. Þessar mælingar má svo endurtaka eftir 3-6 mánuði til að sjá hvort og hvernig gildin þín hafa breyst.
Við hverju máttu svo að búast? Hvaða breytingar munu verða á heilsu þinni ef þú tileinkar þér þetta mataræði? Hér að neðan hef ég tekið saman tíu af þeim jákvæðu áhrifum sem lágkolvetnamataræði getur haft í för með sér. Þessi samantekt er byggð á niðurstöðum fjölmargra vísindarannsókna. Mundu þó að svörunin er einstaklingsbundin og að þú getur ekki gengið út frá því að allt þetta muni eiga við um þig. Mundu líka að þessi tíu ariði eiga eingöngu við þá sem glíma við ofþyngd, offitu og/eða efnaskiptavillu.
1. Þú munt mjög líklega grennast. Fjöldi rannsókna og áralöng reynsla hefur sýnt að flestir léttast umtalsvert á lágkolvetnamataræði. Mismundandi er hversu mikið þyngdartapið verður. Það veltur m.a. á því hversu harkalega þú gengur fram í byrjun við að sneiða hjá kolvetnum.
2. Blóðsykur lækkar. Fjöldi rannsókna hefur sýnt jákvæð áhrif lágkolvetnamataræðis á blóðsykur. Þetta getur skipt miklu máli ef þú ert með sykursýki eða forstig hennar.
3. Blóðþrýstingur lækkar. Hár blóðþrýstingur er einn af sterkustu áhættuþáttum hjarta-og æðasjúkdóma. Margar rannsóknir hafa sýnt að blóðþrýstingur lækkar hjá þeim sem tileinka sér lágkolvetnamataræði.
4. Þríglýseríðar í blóði lækka. Hátt magn þríglýseríða í blóði er einn af áhættuþáttum hjarta-og æðasjúkdóma. Margir einstaklingar með með efnaskiptavillu og/eða offitu glíma við þetta vandamál. Margar rannsóknir hafa sýnt nokkuð óyggjandi að lágkolvetnafæði lækkar magn þríglýseríða í blóði.
5. HDL-kólesteról (góða kólesterólið) hækkar. Öfugt samband er á milli magns HDL-kólesteróls í blóði og hættunnar á hjarta-og æðasjúkdómum. Með öðrum orðum, því hærra sem HDL-kólesteról er, því betra. Margar rannsóknir hafa sýnt að lágkolvetnafæði hækkar magn HDL-kólesteróls í blóði.
6. LDL- prótínagnir stækka. Kólesteról sem bundið er LDL prótínum er oft kallað slæma eða vonda kólesterólið. Ástæðan er sú að magn þess í blóði tengist sterklega hættunni á að fá hjarta-og æðasjúkdóma. Rannsóknir hafa sýnt að þvi hærra sem LDL kóleseról er, því meiri er hættan á hjarta-og æðasjúkdómum. Margar nýlegar rannsóknir hafa bent til þess að verra sé að hafa mikið af smáum en stórum LDL-prótínögnum. Þannig er hættan á hjarta-og æðasjúkdómum allt að þrefalt hærri ef LDL-agnir eru smáar en ef þær eru stórar. Rannsóknir hafa sýnt að lágkolvetnafæði hefur jákvæð áhrif á stærð þessarra agna með því að draga úr fjölda smárra agna.
7. Fjöldi LDL-prótinagna (LDL-P) minnkar. Mælingar á LDL-P í blóði eru nú gerðar í vaxandi mæli erlendis. Rannsóknir benda til þess að LDL-P hafi sterkara forspárgildi um hættuna á hjarta-og æðasjúkdómum en LDL-kólesteról. Rannsóknir benda til þess að lágkolvetnamataræði leiði til lækkunar á LDL-P.
8. Insúlínmótstaða minnkar. Insúlín er eitt af mikilvægustu hormónum líkamans og er forsenda eðlilegra sykurefnaskpta. Þegar insúlínmótstaða er mikil þurfa frumur líkamans meira magn insúlíns til að viðhalda eðlilegum sykurefnaskiptum. Tengsl virðast á milli insúlínmótstöðu og hættunnar á hjarta-og æðasjúkdómum. Rannsóknir benda til að lágkolvetnamataræði dragi meira úr insúlínmótstöðu en fituskert mataræði.
9. Insúlínmagn í blóði lækkar. Einstaklingar með insúlínmótstöðu hafa yfirleitt hátt magn insúlíns í blóði. Hátt magn insúlíns í blóði er sjálfstæður áhættuþáttur fyrir hjarta-og æðasjúkdómum. Þess vegna er sennilega jákvætt að lækka insúlínmagn í blóði hjá einstklingum með efnaskiptavillu eðe offitu. Rannsóknir hafa sýnt að lágkolvetnamataræði lækkar insúlínmagn í blóði.
10. CRP (C-reactive protein) lækkar. CRP magn í blóði hækkar þegar bólgur eru til staðar í líkamanum. Margar rannsóknir benda til þess að bólgur gegni mikilvægu hlutverki í tilurð hjarta-og æðasjúdkóma. Hægt er að gera mjög næmar mælingar á CRP, svokallað hsCRP (high sensitivity CRP). Þetta efni er mjög sterkur sterkur áhættuþáttur fyrir hjarta-og æðasjúkdóma. Rannsóknir benda til þess að lágkolvetnafæði lækki magn hsCRP í blóði sem gæti bent til þess að slíkt fæði dragi úr bólgusvörun í líkamanum.
Það er því fjöldi vísindarannsókna sem bendir til þess að lágkolvetnamataræði hafi ýmis jákvæð heilsusamleg áhrif.
Munið eftir að læka við okkur á Facebook