-Auglýsing-

Hjartasjúkdómar og kynlíf

Það er ekki óeðlilegt að finna til depurðar eftir erfið veikindi.

Hjartasjúkdómar og kynlíf er umræðuefni sem ekki ber oft á góma en er mikilvægt að velta fyrir sér. Margir hafa áhyggjur eftir að hafa fengið hjartasjúkdóm eða hjartaáfall og maki hefur áhyggjur af því hvað má og hvað má ekki. Mjöll Jónsdóttir sálfræðingur hefur skoðað málið.

Fyrir flesta er kynlíf mikilvægur hluti lífsins og upplifunin af eigin kynlífi, hversu jákvæð eða neikvæð sem hún er, hefur áhrif á tilfinningu okkar fyrir lífsgæðum. Kynlíf er áhrifamikill samskiptamiðill para og hvort sem fólk stundar mikið eða lítið kynlíf, villt eða hefðbundið, eða hver sem smekkur manna er í þeim efnum, þá er samstilling og samhljómur þeirra sem það stunda mikilvægur og hefur áhrif á almenn gæði sambandsins ef ekki er stillt rétt.

-Auglýsing-

Pör móta með tímanum sínar kynferðislegu venjur, verða sammála um hvað þeirra kynlíf inniheldur og hvað það inniheldur ekki og með því að læra saman á hvort annað búa þau sér til sinn eigin heim og sameiginlega skilgreiningu á „kynlífinu okkar“.

Það er því truflandi staðreynd að stærsti hluti para sem lendir í því að annar aðilinn veikist af hjartasjúkdómi eða öðrum langvarandi veikindum, lendir á einhverjum tímapunkti í einhverjum erfiðleikum með kynlíf sitt í kjölfar veikindanna.

Við upphaf veikinda er eðlilegt og jafnvel nauðsynlegt að halda sig frá líkamlegu álagi og því margir sem jafnvel fá þau skilaboð frá lækni að bíða með kynlíf á einhverju tímabili eða að gefa sér tíma til að jafna sig áður en farið er að stunda kynlíf aftur. Sá tími sem fólk þarf að halda sig frá kynlífi er misjafn og fer eftir ástandi og aðstæðum, eins og því t.d. hvort viðkomandi fór í þræðingu eða í opna hjartaaðgerð og hvert ástandið á hjartanu / líkamanum er eftir veikindin. Fyrir flesta er þó algjörlega hættulaust að stunda kynlíf um leið og jafnvægi hefur náðst og fólki líður betur.

Það sem hins vegar er mjög algengt að gerist eftir að hættan er liðin hjá og samkvæmt öllu orðið í lagi og jafnvel gott fyrir parið og sambandið að sameinast aftur í kynlífi, er að af einhverjum ástæðum er því frestað. Það liggur ekkert á. Líkaminn er breyttur. Það er svo mikið búið að ganga á. Sameiningunni sem var einstaklingunum tveimur svo mikilvæg áður er frestað, oft án orða, það verður að ósögðu samþykki að bíða aðeins og láta eins og ekkert sé.

- Auglýsing-

Það er líka svo margt búið að ganga á. Sú upplifun að veikjast af hjartasjúkdómi er áfall og það er áfall að horfa upp á maka sinn jafnvel veikjast skyndilega og fara frá því á augabragði að vera sá/sú sem allt getur til þess að vera sjúklingur sem þarf aðstoð við minnstu hversdagslega hluti. Upplifunin af okkur sjálfum og af hvort öðru breytist, upplifunin af okkur sjálfum og hvort öðru sem kynverum breytist. Það er svo margt breytt eftir svona atburð. Það tekur svo margt í, það er svo erfitt að halda í jafnvægið og það sem var okkur eðlilegt fyrir áfall. Og við, eins eðlilega ófullkomin og við erum, reynum okkar besta en vitum ekki alltaf hvað til bragðs skal taka þegar svo risastórt vandamál sem lífshættulegur sjúkdómur bætist við lífsbaráttu okkar.

Fyrir suma er sjúkdómurinn sjálfur hindrun í kynlífi. Það skortir marga þrek, orku og úthald eftir slík veikindi og mæðin er oft mikil. Tilfinningin í brjóstinu er líka breytt og stoðkerfið kvartar. Sumum finnst hugmyndin um að verða móð/ur við minnsta tilefni ekki kynæsandi, aðrir eru mjög meðvitaðir um ör á líkamanum eftir t.d. aðgerð.

Margir karlmenn sem fá hjartasjúkdóm hafa fyrir veikindin átt í erfiðleikum með að fá standpínu og/eða að viðhalda henni nægjanlega lengi til að geta stundað fullnægjandi kynlíf (ristruflanir eru þekkt varúðarmerki um hugsanlegan undirliggjandi kransæðasjúkdóm). Slíkir erfiðleikar geta versnað við inntöku sumra hjartalyfja (eins og beta blokkera) en einnig eru aðrir þættir sem hafa þar áhrif eins og depurð, kvíði og minnkuð löngun eftir veikindin.

Þeir sem t.d. lenda í erfiðleikum með að stunda beinar samfarir eftir veikindi sín eða þurfa að láta af eða breyta kynlífsathöfnum sem áður áttu heima í skilgreiningunni „okkar kynlíf“ þurfa að reyna að semja upp á nýtt, finna út nýjar leiðir til að vera kynferðislega náin þannig að báðum finnst fullnægjandi. En þau pör sem taka það verkefni alvarlega og vanda sig við að finna lausnir reiðir betur af en þeim sem láta tímann og tilviljanir um lausnirnar. Í þessu ferli eru einlæg og heiðarleg samskipti sérstaklega mikilvæg, að hlusta, taka tillit, að vera handa öðrum eins og Séra Bjarni sagði svo fallega í ræðu sinni. Rannsóknir hafa nefnilega sýnt að pör upplifa þær breytingar sem verða á kynlífinu ekki endilega eins, það er ekki alltaf samræmi í lýsingum maka og sjúklilngs á því hversu miklar eða hvers eðlis breytingarnar í raun og veru eru. Þegar sjúkdómur slær hjón, þá slær hann ekki endilega eins niður í kynlífinu eða upplifun hjónanna á kynlífi þeirra. Eftir jafnvel áralanga samsömun þá breytist upplifun annars á einn hátt og hins á annan.

Þessi mismunandi upplifun er viðkvæm og getur valdið erfiðleikum í því að semja um nýjar venjur og staðreyndin er því miður, að alltof mörg pör ná aldrei þessum endursamningum um skilgreiningu kynlífs sín og nokkuð stór hluti para hættir alfarið að stunda kynlíf eftir hjartasjúkdóm. Ekki vegna líkamlegra hafta, heldur vegna þeirra erfiðleika sem sjúkdómurinn veldur í samstillingu kynlífs.

Þá hafa rannsóknir einnig sýnt að breytingar í kynhegðun í skugga sjúkdóms getur minnkað sjálfstraust í kynlífi og að það að hætta að stunda kynlíf dragi einnig úr öðrum líkamlegum snertingum sem aftur auki tilfinningalegt bil á milli hjóna. Ein af algengu ástæðum þess að pör hætti að stunda kynlíf eftir upphaf hjartasjúkdóma er að makinn á erfitt með að takast á við áhrif sjúkdómsins á sjúklinginn og finnist jafnvel óviðeigandi að snerta sjúklinginn eða hræðist það vegna þeirrar hugsanavillu að snerting eigi eða leiði alltaf til kynlífs.

Ótti er mjög algengur, bæði hjá mökum og sjúklingunum sjálfum. Fólk sér fyrir sér að álagið sé hjartanu hættulegt og að átökin muni hreinlega kalla fram nýtt hjartaáfall. Stundum er það sjúklingurinn sem er hræddur og finnst óþægilegt að finna fyrir örvun í líkamanum og finna hjartað hraða á sér og þorir ekki að gefa sig í leikinn. Stundum finnur sjúklingurinn að þetta er í lagi en sama hvað hann segir við makann þá er makinn hræddur. „Ef þú gast ekki vitað og fundið fyrir því að eitthvað var að gerast áður en þú fékkst hjartaáfall síðast, hvernig á ég þá að treysta því að þú getir yfir höfuð metið ástand þitt og sagt fyrir áður en svona gerist aftur?“ Minnkað traust á dómgreind sjúklingsins um eigið líkamlegt ástand eru vel þekkt viðbrögð hjartamaka.

Svona getur samstillingin stundum farið. Þó hjón séu að takst saman á við sjúkdóminn þá eru verkefnin sem fylgja sjúkdómnum ekki þau sömu hjá makanum og sjúklingnum. Ferlarnir í gegnum batann eru ólíkir. Forsendurnar eru ólíkar. Það sem einn upplifir er ekki endilega það sama og hinn upplifir. Viðbörgðin eru misjöfn eins og manneskjurnar eru margar.

- Auglýsing -

Það mikilvægasta í þessari stöðu eru tjáskipti og að vera vakandi fyrir eigin líðan. Þegar sjúkdómur rekur stöpla sína niður í miðju hjónabandi truflast samstillingin auðveldlega, samhljómur hjónabandsins sem lýsir sér í því að hamingjan felst í því að vera til staðar fyrir hvort annað, líka þegar reynir á.

Ein góð og heilsteypt kona lýsti hamingju sinni fyrir mér. „Fyrir mér er hamingjan einmitt það að fá að styðja þig þegar þú átt erfitt, ert veikur, pirraður, reiður, leiður. Það er mitt stærsta verkefni og það sem ég er stoltust af því þá sé ég þig brothættan og hráan og án þess að hugsa það lengra þá set ég allt til hliðar og nota alla mína ást og orku í að vera til staðar fyrir þig. Þetta er það sem er hamingja fyrir mér.“

Þetta er samstillingin, það að vera fyrir aðra er að lifa.

Kynlíf er viðkvæmt umræðuefni, það er eðlilegt að kynlíf para láti tímabundið á sjá eftir innreið hjartasjúkdóms í sambandið. Það er lítið sem ekkert tekist á við þennan vanda í læknismeðferð og endurhæfingu hjartasjúklinga og almennt er eins og heilbrigðisstarfsfólk forðist að ræða þennan hluta sjúkdómsins af einhverri alvöru.

Tilgangur þessa pistill er þessi. Ef þið eruð að upplifa breytingar og jafnvel vandræði í kynlífinu eftir hjartasjúkdóm, hvort sem það er vegna erfiðleika við að halda stinningu, vegna þess að hann/hún á erfitt með að skilgreina sjálfa/nn sig sem kynveru eða sjá maka sinn sem kynveru á þessari stundu, vegna þess að hann/hún getur ekki hrist af sér óttan við sjúkdóminn, einkennin, dauðann, líkaminn er breyttur, lyfin hafa truflað löngun eða bara af því bráttan hefur skilið ykkur eftir þreytt, þá vil ég að þið vitið að þið eruð alls ekki ein. Þetta eru algengar afleiðingar þessa sjúkdóms.

En ég bið ykkur um að vera vakandi fyrir áhrifum sjúkdómsins, að tala saman, hlusta vel og setja ykkur í spor hvors annars. Vandræðin eru tímabundin ef tekist er á við þau. Leyfið maka ykkar að sjá og heyra hvernig ykkur líður og byggið upp sameiginlega hamingju með því að vera fyrir hvort annað. Það er hægt að lifa góðu kynlífi eftir hjartasjúkdóm ef fólk stígur samstíga til jarðar.

Mjöll Jónsdóttir sálfræðingur
mjoll@shb9.is

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Mjöll Jónsdóttir
Mjöll Jónsdóttirhttps://www.salfraedistofan.is/um-okkur/starfsfolk/mjoll-jonsdottir/
Mjöll lauk B.A. námi í sálfræði frá Háskóla Íslands árið 2006 og Cand. Psych. prófi frá Háskólanum í Árósum árið 2012. Mjöll hefur sótt námskeið og fyrirlestra á sviði áfallameðferðar og heilsusálfræði ásamt því að sækja ráðstefnur um sitt sérsvið. Mjöll starfar hjá Sálfræðistofunni Höfðabakka 9

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-