-Auglýsing-

Virðingarleysi Landlæknisembættisins

LandlæknisembættiðVinnubrögð sóttvarnarlæknis og þar með embættis Landlæknis eru óásættanlegt.

Fyrir tveimur dögum bárust af því fregnir í fjölmiðlum að hugsanlega væru einstaklingar úti í þjóðfélaginu gangandi um með lifrarbólgu C án þess að hafa hugmynd um það.

Ástæðan fyrir þessu væri sú að þeir sem hefðu þegið blóð fyrir 1992 hefðu hugsanlega fengið smitað blóð þar sem ekki hefði verið skimað eftir lifrarbólgu C fyrir þann tíma.

Haraldur Briem sóttvarnarlæknir tjáði sig um málið og sagði frá því að þar á bæ hefðu menn skoðaða málið og ekki séð ástæðu til að aðhafast neitt, þetta eru ótrúleg ummæli og lýsa fádæma virðingarleysi.

Það næsta sem gerist í málinu er að í gær er viðtal við Harald Bjarnason húsasmið sem lenti í alvarlegu vinnuslysi fyrir 28 árum síðan og þurfti á blóðgjöf að halda. Án þess að hafa hugmynd um það smitaðist hann af lifrarbólgu C. Það varð honum væntanlega til lífs að á síðasta ári lét Guðjón Kristjánsson læknir á Akureyri skima eftir lifrarbólgu C, þá kom hið sanna í ljós og í kjölfarið fékk hann viðeigandi meðferð. Þá hafði Haraldur átt við heilsuleysi að stríða í átta ár af óþekktum orsökum.

Strax á eftir viðtalinu við Harald húsasmið var viðtal við Svein Guðmundsson yfirlækni hjá Blóðbankanum þar sem hann skýrði frá því að þeir hefðu margoft og ítrekað vakið athygli á þessu máli en fengið litlar sem engar undirtektir frá heilbrigðisyfirvöldum.

- Auglýsing-

Sveinn sagði jafnframt frá því að Svíar hefðu ákveðið árið 2007 að hafa upp á þeim einstaklingum sem svipað væri ástatt fyrir og gerðu það með góðum árangri.

Nú er það svo að sóttvarnarlæknir er innan vébanda Landlæknisembættisins og enn og aftur verðum við vitni að óvandaðri stjórnsýslu og við fáum að sjá og heyra ótrúlegt virðingarleysi þessa embættis fyrir fólki.

Embætti landlæknis hefur í gegnum árin oft verið gagnrýnt vegna þess hversu illa það hefur staðið sig í mistakamálum svo dæmi séu tekinn. Mál hafa tekið óralangan tíma og stundum svo langan að þau hafa hreinlega fyrnst og orðið að engu. Embættið hefur auk þess oft verið gagnrýnt fyrir að draga taum lækna sem hefur svo bitnað á þolendum mistaka og gert þeim erfiðara fyrir að sækja rétt sinn.

Fólk hefur oft gefist upp á því að reyna að rétta hlut sinn og Landlæknisembættið hefur verið kært til lögreglu, klagað til ráðuneytis og umboðsmanns Alþingis og þar fram eftir götunum.

Sjálfur stóð ég í málaferlum í tæp níu ár vegna mistaka sem urðu við greiningu mína og meðferð á Landspítalanum í febrúar 2003. Þá þurfti ég að eiga í samskiptum við Landlækni og það gekk ekki þrautalaust fyrir sig.

Á síðustu mánuðum hef ég komið að vinnu þar sem hópur fólks hefur verið að eiga samtal við yfirvöld, þar með talið Landlækni, með það fyrir augum að stuðla að því að fólk fái betri móttökur í kerfinu af hálfu yfirvalda. Ég hef í sjálfu sér talið að þetta væru gangleg samtöl og með tíð og tíma myndu þau skila árangri.

Ég hef talið að þau væru vænleg til árangurs þrátt fyrir það að hafa fengið nafnlausa upphringingu í nóvember síðastliðnum þar sem ég var spurður undarlegra spurninga um heimasíðuna okkar hjartalif.is.

Það sem er merkilegra er að ég kannaðist við númerið sem hringt er frá og í ljós kom að hringt var frá Landlæknisembættinu.

- Auglýsing -

Án þess að kynna sig var þetta því væntanlega starfsmaður Landlæknisembættisins að njósna um mig og starfssemi síðunnar okkar og það var ekki farið fínt í það.

Ég hafði samband við embættið í kjölfarið og þar kannaðist engin við að hafa hringt í mig enda í reglum um starfshætti Landlæknisembættisins að starfssemi þeirra skuli fara fram undir nafni, ég kom sjónarmiðum mínum á framfæri og lét málið kyrrt liggja. Þetta er óvönduð stjórnsýsla

Þetta er ekki í eina skiptið sem ég hef fengið undarlegar sendingar frá embættinu en ég ætla ekki að rifja upp fleiri að svo komnu máli.

Landlæknisembættið er ekki hafið yfir gagnrýni en því miður hefur það oftar en ekki tekið þeirri gagnrýni illa og virðist eiga erfitt með að koma auga á að þeir geti haft rangt fyrir sér eða þeir hafi beitt þegna landsins rangindum.

Ég veit að mörg verkefni Landlæknis eru erfið viðureignar og erfitt að gera öllum til hæfis. Það er þó samt sem áður staðreynd að í yfirgnæfandi tilfellum þegar fregnir berast að embættisfærslum embættisins eða sumra starfsmanna þess -í þessu tilfelli sóttvarnarlæknis- þá verður manni oft á tíðum hálf flökurt.

Sem borgari þessa lands finnst mér með öllu ósásættanlegt að Landlæknir sjálfur þegi þunnu hljóði þegar sóttvarnarlæknir kemst að þeirri niðurstöðu að það taki því ekki að leita uppi þá sem „hugsanlega“ hafi smitast af lifrarbólgu C.

Haft er eftir sóttvarnalækni í fréttum RÚV „Það er talsvert fyrirtæki að fara 20-30 ár aftur í tímann til þess að finna hugsanlega smitgjafa en þetta tengdist að langmestu leyti fíkniefnaneyslu og ég held að við höfum leyst þau mál nánast öll.“

Þetta eru dæmalaus ummæli og bera vott um alvarlegt virðingarleysi gagnvart þeim sem hugsanlega hafa orðið fyrir smiti, fólki sem á nú væntanlega við næg vandamál að stríða fyrir utan allan kostnaðinn sem fellur til við veikindi.

Embættinu hefði verið í lófa lagið að senda þeim sem fengu blóðgjöf bréf, vekja athygli á málinu og beina þeim tilmælum til fólks að láta ganga úr skugga um það að það væri ekki smitað af lifrarbólgu C.

Einnig ætti að koma fram að í slíku bréfi að leitast yrði við að bæta fólki skaðann vegna þessa og ef í ljós kæmi að viðkomandi væri smitaður eða smituð.

Nú er lag fyrir Landlækni að rísa upp og sýna þjóðinni að honum sé alvara þegar hann talar um að það séu breyttir tímar og embættið sé að taka alvarlega á gæðamálum og ferlum innan heilbrigðiskerfisins.

Sóttvarnarlæknir á að segja af sér því hans tími er kominn og þessi vinnubrögð eru fyrir neðan allar hellur og ekki þjóðinni bjóðandi.

Ef sóttvarnarlæknir segir ekki af sér þá á Landlæknir að víkja honum frá störfum. Ef hann treystir sér ekki til þess þá á Landlæknir að hugleiða það sjálfur að segja starfi sínu lausu.

Atburðir síðustu daga og framkomnar upplýsingar benda til að sóttvarnarlæknir sé ekki starfi sínu vaxinn og Landlæknir ekki heldur þar sem hann lætur svona vinnubrögð viðgangast.

Trúverðugleiki embættis Landlæknis er laskað svo ekki sé fastara að orði kveðið.

Er ekki komin tími til að menn axli hér einhverja ábyrgð?

Reykjavík 17. Júlí 2013

Björn Ófeigsson
bjorn@hjartalif.is

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-