-Auglýsing-

Vel fylgst með niðurskurði

SAMKVÆMT tölum um sjúklingaflokkun hefur álag ekki aukist á Landspítalanum (LSH) og skráðum atvikum hefur ekki fjölgað. Raunverulegur hjúkrunartími á hvern sjúkling hefur í heildina lengst og umönnunartími því ekki minnkað. Reynt hefur verið að gæta þess að niðurskurður bitni ekki á öryggi sjúklinga en áfram verður fylgst með áhrifum kreppunnar og niðurskurðar með því að kalla reglulega eftir upplýsingum frá LSH og öðrum heilbrigðisstofnunum.

Þetta er meðal helstu niðurstaðna greinargerðar Landlæknisembættisins um stöðu öryggismála varðandi mönnun á Landspítalanum. Greinargerðin var unnin að beiðni Álfheiðar Ingadóttur heilbrigðisráðherra, eftir að hún fundaði með talsmönnum ungra sjúkraliða. Þeir höfðu sent frá sér ályktun þar sem miklum áhyggjum var lýst af miklu álagi á sjúkraliða og hættu á mistökum í starfi. Var ályktunin send í tilefni ummæla heilbrigðisráðherra á ráðstefnu, um að álag á starfsfólk spítalans hefði ekki aukist.

Embætti landlæknis óskaði eftir margvíslegum upplýsingum frá stjórnendum LSH, rætt var við fulltrúa Sjúkraliðafélags Íslands og ungliðadeildar félagsins og fengin greinargerð frá þeim. Farið var í heimsókn á spítalann í lok nýliðins árs, þrjár deildir skoðaðar og rætt við stjórnendur og sjúkraliða. Var rætt sérstaklega við sjúkraliða án þess að yfirmenn þeirra væru viðstaddir.

Getur haft áhrif á gæðin

Í greinargerð landlæknis segir m.a. að gripið hafi verið til margvíslegra aðgerða á LSH í kjölfar krafna um sparnað, s.s. yfirvinnubanns, stórfelldrar fækkunar útkalla vegna veikinda og annarra forfalla og ráðningabanns. Búast megi við að slíkar aðgerðir geti haft áhrif á gæði þjónustunnar.

Segir ennfremur að ákveðinn stöðugleiki hafi náðst í mönnun hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða þar sem fólk sé almennt í hærra starfshlutfalli og því minna um aukavaktir. Síðan segir:

- Auglýsing-

„Alkunna er að breytingar valda álagi ekki síst ef starfsfólk telur sig skorta upplýsingar, mikil óvissa ríkir, starfsfólkið er mótfallið breytingunum eða ef breytingarnar snerta starfsöryggi þess. Margt af þessu á við um Landspítalann um þessar mundir.“

Bent er á að það sé stefna LSH að breyta samsetningu starfsfólks á hjúkrunarsviði á ákveðnum deildum, til samræmis við viðmið háskólasjúkrahúsa, og því megi reikna með fækkun stöðugilda sjúkraliða. Rannsóknir hafi sýnt að betri mönnun og meiri menntun auki öryggi sjúklinga og einnig sé það stefna spítalans að stórefla dag- og göngudeildarþjónustu. „Á slíkum deildum eru hlutfallslega færri sjúkraliðar en á legudeildum og má því reikna með að stöðugildum sjúkraliða þar fækki.“

Farið var í heimsóknir á slysa- og bráðadeild, bráðamóttöku barnaspítalans og Grensásdeild. Alls staðar reyndist mönnun yfir öryggismörkum en t.d. á barnaspítalanum taldi deildarstjóri að ef starfsfólki fækkaði frekar gæti mönnunin farið undir þessi mörk. Samstarf og starfsandi var víðast í góðu standi.

Eftir Björn Jóhann Björnsson

bjb@mbl.is

Morgunblaðið 15.01.2009 

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-