-Auglýsing-

Veikleiki í kerfinu getur afhjúpast með miklum hvelli

Fátt hefur verið meira talað um í íþróttaheiminum undanfarna daga en atvikið þar sem Fabrice Muamba, hinn 23 ára leikmaður Bolton, hneig niður í miðjum leik gegn Tottenham, um síðustu helgi og fór í hjartastopp. Muamba var haldið sofandi í öndunarvél fram á mánudag en hefur tekið stórstígum framförum þótt ástand hans sé enn alvarlegt.

Muamba er ekki fyrsti knattspyrnumaðurinn sem fær fyrir hjartað í knattspyrnuleik á undanförnum árum. Skemmst er að minnast þess að Kamerúninn Marc Vivian Foe lést í leik Kamerún og Kólombíu árið 2003 vegna hjartabilunar.
Guðmundur Þorgeirsson, yfirlæknir á hjartadeild Landspítalans, segir að það sé ekki hans tilfinning að hjartabilanir knattspyrnumanna séu fleiri nú til dags en áður. Það sé hins vegar meira áberandi í dag og oft í beinni útsendingu. Varðandi mál Muamba segir Guðmundur að sjúkdómsgreining hafi ekki verið gefin út og því viti hann ekki nákvæmlega hvað hafi hrjáð. „Margir hjartasjúkdómar geta legið til grundvallar atviki sem þessu. Algengasta orsökin hjá ungum íþróttamönnum og keppnisfólki sem er undir miklu álagi er tiltekinn hjartavöðvasjúkdómur sem er arfgengur. Hann kallast ofþykktarhjartasjúkdómur og lýsir sér í því að hjartavöðvinn er óeðlilega þykkur. Íþróttafólk með þennan sjúkdóm hefur tilhneigingu til að fá takttruflanir sem geta reynst banvænar. Þetta fólk er undir gríðarlegu álagi og þótt slík þjálfun sé heilsuvæn í aðalatriðum þá getur veikleiki í kerfinu afhjúpast með miklum hvelli við slíkar aðstæður,“ segir Guðmundur.

Þegar hjartavöðvinn er óeðlilega þykkur getur fólk fengið svokallaðan sleglahraðtakt, runu af aukaslögum, sem eiga upptök sín í sleglunum, pumpuhólfum hjartans, en ekki í gangráðnum sem á að stjórna hjartslættinum. „Í kjölfar sleglahraðtakts getur komið svokallað sleglatif, kaótískur taktur, sem leiðir til þess að afköst hjartans snarminnka og verða jafnvel engin. Hjartað hættir að pumpa, blóðþrýstingurinn lækkar skyndilega og ekkert blóð berst til heilans né annarra líffæra. Ef ekki er brugðist við leiðir þetta á stuttum tíma til dauða,“ segir Guðmundur.

Hann segir að farið sé að mæla með því í mjög auknum mæli að íþróttafólk fari í hjartaskoðun. „Það má yfirleitt greina þennan ofþykktarhjartasjúkdóm með hjartaómskoðun en við fáum ekki fólk kerfisbundið til okkar. Ef fólk sem er í hörðum keppnisíþróttum fær svima eða brjóstverki við áreynslu þá er það ótvírætt tilefni til að láta skoða hjartað í sér,“ segir Guðmundur.

Óskar Hrafn Þorvaldsson
oskar@frettatiminn.is

www.frettatiminn.is 23.03.2012

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-