-Auglýsing-

Þörf eftir líffæragjöfum hefur aukist

Þörf fyrir líffæragjafir á eftir að vaxa á næstu árum að sögn Runólfs Pálssonar, yfirlæknis nýrnalækninga Landspítalans. Hann segir þörf á úrbótum á löggjöf um líffæragjafir mikilvæga til lengri tíma litið.

Kristján Oddsson aðstoðarlandlæknir segir svokölluð líffæragjafakort, sem fólk getur notað til að samþykkja líffæragjöf, ekki hafa neitt lagalegt gildi og mjög takmörkuð gögn til um þau. Reynsla annarra þjóða sýni að slíkt fyrirkomulag skili litlum árangri.

Runólfur segir að fáir skrái sig sem mögulega líffæragjafa og því sé alltaf leitað til aðstandenda fyrir frekara samþykki beri slys að höndum og geti þeir neitað líffæragjöfinni.

„Hér á landi er gengið út frá því sem kallað er ætluð neitun, það er að fólk vilji ekki gefa líffæri sín nema annað hafi komið fram. Víða í Evrópu er hins vegar svokallað ætlað samþykki þar sem gengið er að því vísu að fólk vilji að líffæri sín nýtist öðru fólki nema hið gagnstæða hafi verið látið í ljós,” segir Runólfur. Hann segir að þó vel hafi gengið að ráða bót á þörf þeirra sem þurfi á líffæragjöf að halda hér á landi, sé ljóst að þörfin fyrir líffæragjafir eigi eftir að aukast. Ástæður þess eru meðal annars þær að með framförum í læknavísindum gangist fleiri undir líffæraígræðslu.
Líffæraþegar þurfi svo oft að gangast undir aðra líffæragjöf síðar meir.

Runólfur bendir á að þær þjóðir sem sjaldnast skorti líffæri séu Spánverjar, Austurríkismenn og Belgar. Þar sé ætlað samþykki við líffæragjöf við lýði. „Helst myndi ég þó vilja að Íslendingar myndu líta til þess sem gert hefur verið á Spáni. Þar var fræðsla um líffæragjafir efld og þótt litið sé á að fólk vilji gefa líffæri er samþykkis ættingja ávallt leitað,” segir Runólfur. Hann segir það skynsamlegri leið heldur en farin er í Belgíu og Austurríki þar sem líffæri úr látnu fólki eru fjarlægð án nokkurs samráðs við aðstandendur.

Samkvæmt upplýsingum frá Landlæknisembætti gangast að meðaltali um tíu Íslendingar undir líffæragjöf á ári. Flestir fá nýru en þau eru yfirleitt úr lifandi aðstandendum sjúklinganna. Runólfur segir að nú séu um tíu manns á biðlista eftir nýra og einhverjir bíði eftir líffærum sem aðeins er unnt að flytja úr látnu fólki. Það sé viðráðanlegur fjöldi en hann spái því að fjöldinn eigi enn eftir að aukast. Markvissari umræða um þessi mál sé því nauðsynleg.

- Auglýsing-

Fréttablaðið 03.07.2007

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-