-Auglýsing-

Tóbaksfaraldurinn – Stærsti og dýrasti heilbrigðisvandinn

orarinn_gudnason_1.jpgÁ ÍSLANDI geisar faraldur sem leggur varlega áætlað yfir 300 Íslendinga í gröfina árlega. Ég er ekki að tala um svínaflensu eða drepsótt af völdum sýkla heldur um faraldur tóbaksreykinga sem veldur stórum hluta dauðsfalla úr hjartasjúkdómum, lungnasjúkdómum og krabbameinum árlega. Faraldur þessi fer um samfélagið eins og félagslegt smit. Það smitast meira en tvö ungmenni daglega og helmingur þeirra mun deyja fyrir aldur fram af völdum reykinganna. Hagfræðiútreikningar Læknafélags Íslands benda til að kostnaður af tóbaksnotkun hérlendis sé tæpir 30 milljarðar á ári. Það slagar upp í rekstrarkostnað Landspítalans á einu ári.

Læknafélag Íslands telur þetta ástand óviðunandi og vill vekja þjóðina til vitundar um þennan faraldur. Þess vegna boðar félagið til Tóbaksvarnarþings föstudaginn 11. september 2009 í tengslum við aðalfund félagsins. Á þinginu verða ræddar leiðir til að draga enn úr tóbaksnotkun og helst að gera Ísland tóbakslaust að mestu á 15 árum. Til fundarins er boðið fulltrúum fjölmargra aðila úr þjóðfélaginu sem geta lagt baráttunni lið.

Verulegur árangur hefur náðst á umliðnum áratugum í baráttunni við tóbaksnotkun. Þannig hefur hlutfall reykingamanna meðal þjóðarinnar minnkað úr 30% í tæplega 20% á síðustu árum. Reykingabann á opinberum stöðum sem sett var á Íslandi árið 2007 var síðasti landvinningurinn í þessari baráttu.

Skaðsemi óbeinna reykinga kemur sífellt betur í ljós. Kransæðaþræðingum vegna bráðra kransæðasjúkdóma fækkaði um 21% meðal karlmanna sem ekki reykja eftir að reykingabann hérlendis tók gildi fyrir tveimur árum. Þessi niðurstaða bendir til að skaðsemi tóbaksreyks sé enn meiri en áður hefur verið talið. Svipaðar niðurstöður hafa komið fram í öðrum löndum og auk þess hafa rannsóknir Hjartaverndar bent til að reykingar hafi hingað til verið vanmetinn áhættuþáttur hjarta- og æðasjúkdóma.

Þorri landsmanna deyr úr reykingatengdum sjúkdómum. Yfir 90% af lungnakrabbameinum og nær öll tilvik lungnaþembu orsakast af tóbaksreyk. Um 80% þeirra 2.000 einstaklinga sem fara í hjartaþræðingu árlega hafa reykt. 75% sjúklinga sem liggja á lungnadeild Landspítalans eru reykingamenn eða fyrrverandi reykingamenn. Tóbaksfíkn er stærsta og alvarlegasta heilsufarsvandamál Íslendinga.

Börnin okkar og unglingarnir byrja því miður ennþá að reykja. Þau ánetjast nikótínfíkninni og hún mun fylgja þeim ævilangt og mun draga allt að helming þeirra til dauða. Þetta er hinn nakti sannleikur. Því er tímabært að ræða hvort alfarið eigi að taka tóbak úr sölu á almennum markaði í áföngum. Með því næst mikilvægasta markmiðið til frambúðar, sem er að takmarka aðgengi ungmennanna okkar að þessu ávana- og fíkniefni. Huga þarf að meðferð reykingamanna og auka reykleysismeðferð og þeir sem ekki geta hætt fengju tóbak eða nikótínlyf undir eftirliti heilbrigðisstarfsmanna.

Mótrök eru auðvitað einhver. Einhverjir munu missa spón úr sínum aski, t.d. ríkissjóður. Smygl á tóbaki gæti aukist. Menn geta haft skoðanir á frelsi einstaklingsins til að eitra fyrir sér og öðrum. Þó ber að líta til þess að tóbaksreykur er eitraður einnig fyrir þá sem verða óbeint fyrir honum og rétturinn til hreins lofts hlýtur að vera enn ríkari en rétturinn til að reykja. Ef geislavirkur úrgangur væri staðsettur í Öskjuhlíðinni sem ylli tugum dauðsfalla á ári yrði unnið hratt að því að koma í veg fyrir geislunina án tillits til slíkra mótraka.

- Auglýsing-

Aðaláherslan þarf að beinast að því að fækka þeim sem ánetjast nikótíninu, það er barátta upp á líf og dauða. Hækka verður þann þröskuld sem unglingur klífur yfir til að byrja reykingar. Það er vísindalega sannað að áhrifamest er að hækka verð, takmarka aðgengi og fækka stöðum sem má reykja á. Sennilega gætu reykingar meðal þjóðarinnar á fáum árum minnkað úr tæpum 20% sem er staðan í dag í 5% með markvissum aðgerðum. Fáar aðgerðir myndu spara meira í heilbrigðiskerfinu til langs tíma litið. Sá sparnaður veldur hvorki óvinsælum aukaverkunum eins og þjónustuskerðingu eða hækkun sjúklingagjalda, heldur byggir á bættu heilsufari þjóðarinnar. Þá sparnaðarleið ættu heilbrigðisyfirvöld landsins að skoða sem fyrst.

Ef til vill ætti að stofna embætti tóbaksvarnarlæknis sem hefði víðtækar valdheimildir til að bregðast við þessum faraldri. Fyrirmyndin yrði embætti sóttvarnarlæknis, embætti sem hefur margsannað ágæti sitt gegnum árin og bregst ötullega við hættu á farsóttum enn í dag. Einnig er hægt að draga lærdóm af öðrum aðferðum sem reyndust vel á síðustu öldum við vá þess tíma sem voru smitsjúkdómarnir. Þarna er átt við sjúkdóma eins og berkla, bólusótt og sullaveiki sem var útrýmt með samstilltu átaki þjóðarinnar.

Ísland gæti gengið á undan með góðu fordæmi á heimsvísu í tóbaksvarnarmálum. Til þess þurfum við hvorki að vera sterkust í heimi, fallegust né ríkust. Við þurfum hins vegar að þora að vinna ötullega, opinskátt, heiðarlega og af festu. Slíkt forystuhlutverk í tóbaksvarnarmálum gæti verið ein leið til að bæta laskaða ímynd Íslands á alþjóðavettvangi.

 

Höfundur er hjartalæknir á Landspítala og varaformaður Læknafélags Íslands.

Morgunblaðið 10.09.2009

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-