-Auglýsing-

Til heilbrigðisyfirvalda

Ragnheiður Rut Friðgeirsdóttir skrifar: “Það er einlæg ósk mín að það sé alvarlega skoðað hvernig staðið er að málum við aldrað fólk og ekki síst hvert þetta heilbrigðiskerfi okkar er að fara með öllum þessum niðurskurði.”
Ástæða þess að ég kýs að skrifa opið bréf er sú að þetta kemur okkur öllum við, ykkur sem vinnið í þessum geira og okkur hinum sem trúlega eigum einhvern tímann eftir að leggjast inn á sjúkrahús. Í öðru lagi taldi ég eftir þó nokkra umhugsun að þessi leið væri vænlegri til árangurs en sú að skrifa Landlæknisembættinu. Það er einlæg ósk mín að skrif þessi verði til þess að það sé alvarlega skoðað hvernig staðið er að málum við aldrað fólk og ekki síst hvert þetta heilbrigðiskerfi okkar er að fara með öllum þessum niðurskurði.

23. mars sl. lenti faðir minn (tæplega 87 ára) í því að detta og brjóta sig suður í Hveragerði. Farið var með hann til læknis þar, sem vildi senda hann til Reykjavíkur á sjúkrahús í myndatöku. Það var hins vegar ákvörðun föður míns að gera það ekki og fara beint norður og á sjúkrahúsið á Akureyri sem hann og gerði og lét sig hafa það að sitja í rútu norður sárkvalinn. Það er nauðsynlegt að það komi fram hér að hann var með erfiðan lungnasjúkdóm sem kallaði á að hann væri töluvert í súrefni og ef einhver aukaáreynsla var þá þurfti hann enn frekar á því að halda.

Eftir að ég hafði fengið af þessu fregnir var það mitt fyrsta verk að hringja á slysadeild FSA þar sem ég talaði við indæla konu og tjáði henni að hann væri á leiðinni til þeirra í myndatöku til að staðfesta að þetta væri brot rétt neðan við axlarlið, eins og læknirinn í Hveragerði hafði sagt. Ég spurði hvort hann yrði ekki örugglega lagður inn, því ekkert súrefni væri heima og við gætum ekki fengið meira fyrr en eftir helgi, en faðir minn var með lögheimili hjá mér. Þessi kona ætlaði að koma þessu áleiðis. Þegar faðir minn kom á sjúkrahúsið í fylgd mannsins míns fór hann í myndatöku sem staðfesti fyrrnefnt brot, hann sagði þeim líka frá hósta sem hann var búinn að vera með í tæpa viku og plagaði hann mikið. Brotið var þess eðlis að ekkert var hægt að gera. Hefði þetta verið ég hefði ég farið í aðgerð og verið negld, en hann var ekki kandídat í það. En ekki bætti hóstinn verkina í brotinu, en það furðanlega er að enginn sá ástæðu til að kanna þennan hósta neitt frekar. Það þótti ekki þörf á að leggja hann inn, en var þó gert fyrir þrábeiðni mannsins míns. Þá fékk hann verkjalyf í æð og farið var með hann á bæklunardeild.

Á stofugangi morguninn eftir var honum tjáð að hann mætti fara heim, þá brá svo við að hann bað um að fá að vera lengur, sagðist ekki treysta sér heim. Þá var honum sagt að hann mætti vera til morguns. Seinnipart þennan sama dag hringir hann síðan í mig og segir mér frá þessu og að sér lítist ekkert á að fara heim daginn eftir, sagðist vera með mikil óþægindi í brotinu sem von væri því hann væri stöðugt hóstandi og þá tæki svo í brotið. Á þeirri stundu var ekkert farið að athuga hvað ylli þessum hósta, en honum hafði verið gefin hálstafla til að sjúga. Eftir okkar símtal hringdi maðurinn minn á bæklunardeildina og talaði þar við hjúkrunarfræðing og spurði hvort ekki væri hægt að athuga þennan hósta því hann ylli honum ómældum kvölum í brotinu. Þá var loksins eitthvað gert í þessu sem er frekar furðanlegt í ljósi lungnasjúkdóms hans, svo ekki sé nú talað um hitt. Eftir að hafa skoðað hann kom í ljós að hann var með berkjubólgu og fékk lyf samkvæmt því.

Á þriðja degi hafði ég samband við heimilislækninn okkar til að biðja hann um hjálp við að halda föður mínum á sjúkrahúsinu því ég var verulega smeyk við að taka hann heim en hann átti að fara fyrir hádegi þennan dag. Þarna er nauðsynlegt að staldra við og fara aðeins yfir af hverju ég var smeyk. Maðurinn nærri 87 ára, brotinn, með lungnasjúkdóm sem var þannig að mettunin var að öllu jöfnu mjög lág, vel undir 80 en á að sjálfsögðu að vera sem næst 100 hjá fullfrísku fólki. Þegar mettunin fór langt niður, t.d. í 74-76, sem gerðist undantekningarlaust við hvers kyns áreynslu og fyrir hann var það áreynsla að vera brotinn með nánast stöðuga verki, þá varð það til þess að hann fékk hjartaverk sem kallaði á sprengitöflu. Einnig gat hann ekki farið í og úr venjulegu rúmi, það varð að vera sjúkrarúm með tilheyrandi slá til að hífa sig upp. Lái mér svo hver sem vill þó að ég hafi verið smeyk að taka hann heim. Heimilislæknirinn hafði samband aftur eftir að vera búinn að tala við þann sem var skráður læknir pabba, en sá var harður á því að heim skyldi hann! Þá var lítið annað að gera en redda því sem þurfti og taka hann heim. Seinna þennan sama dag hafði ég samband við lungnasérfræðinginn hans sem gat jarmað út eina nótt enn á sjúkrahúsinu, sem var einmitt það sem ég þurfti til að gera klárt og geta tekið við honum. Þá bregður svo við að læknir kemur til pabba eftir hádegi og segir honum að hann verði útskrifaður frá þeim daginn eftir og að þeir séu búnir að athuga á svæðinu með dvalarheimili fyrir hann til að fara á og séu búnir að finna laust pláss á Hornbrekku í Ólafsfirði. Þetta hafði ekki verið orðað við hann fyrirfram og ekki mig heldur! Þetta fór verulega fyrir brjóstið á karli föður mínum og honum fannst sér sýnd mikil lítilsvirðing með þessu og harðneitaði að fara. Allt í lagi með það, ég var staðráðin í að taka hann heim og láta á það reyna hvort við gætum þetta.

Það næsta sem gerist er að kl. 19 kvöldið áður en hann átti að koma heim er hringt frá sjúkrahúsinu þar sem mér var tjáð að pabbi hefði fengið einhverja óútskýrða verki í síðuna sem hefðu verið mjög slæmir og honum gefin verkjastillandi sprauta. Hann var samt þegar þarna er komið enn með verkjalyf í æð. Þegar ég spurði hvort ekki ætti að athuga hvað ylli þessum verkjum var mér sagt að það yrði gert og að hugsanlega væru þetta nýrnasteinar og frekar ólíklegt að hann færi heim daginn eftir. Ég hringi morguninn eftir í bítið og fæ þær upplýsingar að hann hafi sofið vel en það sé eftir að kanna þetta og ég skuli hringja eftir stofugang til að fá upplýsingar sem ég og gerði. Þá var mér sagt að ég mætti koma og sækja hann. Mér fannst þetta undarlegt og vildi fá að vita nánar hvað hefði verið gert og var sagt að þetta væru ekki nýrnasteinar. Ég spurði hvað hefði þá valdið þessum rosalegu verkjum í síðunni og var mér sagt að þetta væri trúlega bara mar eftir fallið þegar hann brotnaði. Þetta fannst mér ekki trúlegt og lét það í ljós en var sagt að það fyndist ekkert annað.

- Auglýsing-

Hann var því sóttur til Akureyrar, en við erum búsett á Dalvík. Hann fékk með sér lyfseðil fyrir verkjalyfjum og heim var haldið en þegar taka átti hann út úr bílnum vandaðist málið. Hann var svo kvalinn að það var meiriháttar mál að koma honum inn og upp í rúm. Þegar inn var komið leið yfir hann af kvölum svo hringt var á lækni sem úrskurðaði að hann væri örugglega rifbeinsbrotinn. Til að gera langa sögu stutta þá hringdi ég á sjúkrahúsið og vildi fá að tala við þann sem bæri ábyrgð á að maðurinn væri útskrifaður svona og hvernig það hefði getað farið fram hjá þeim að hann væri rifbeinsbrotinn! Þá var mér tjáð af fyrrnefndum lækni að það væri jú hans að hann hefði verið útskrifaður og jú, hann sagðist hafa sagt pabba að hann gæti hugsanlega verið rifbeinsbrotinn! Ég segi að sé ekki satt, því var mér þá ekki sagt það í símanum fyrr um morguninn og heldur ekki þegar hann var sóttur?! Eða var þetta eitthvað sem læknirinn vildi bara hafa út af fyrir sig?! Þegar ég innti hann eftir þeirri ósvífni að ráðstafa pabba inn á dvalarheimili í öðru byggðarlagi að honum óspurðum fékk ég þau svör að þetta væru venjulegar vinnuaðferðir og ekkert meira um það að segja. Þar að auki lét hann mig vita það að pabbi hefði verið lagður inn vegna þess að við áttum ekki súrefni heima. Það hafði sem sagt ekkert með það að gera að hann var brotinn á tveimur stöðum, með erfiðan lungnasjúkdóm og sárkvalinn, dvalarheimili eru sem sagt fyrir fólk sem svoleiðis er ástatt fyrir en fyrir hverja eru þá sjúkrahúsin?!

Ég á ákaflega erfitt með að hugsa til þess að kannski verði komið svona fram við mig á gamals aldri ef ég skyldi nú þurfa á sjúkrahús. Er það svona sem við viljum að heilbrigðiskerfið sé?

Faðir minn andaðist að heimili sínu 31. mars. Ljósið í sorgarmyrkrinu er það að hann dó ekki á stofnun hjá manni sem kemur fram við fólk eins og það sé tilfinningalausir og heilalausir hálfvitar. Peð á borði heilbrigðiskerfisins sem er hrókerað til með sparnað í huga.

Að lokum þetta: Landlæknisembætti og heilbrigðisráðherra! Gerið okkur öllum hinum greiða, fækkið svona fólki í þessum geira, sendið fólk á námskeið í mannlegum samskiptum, búið til vinnureglur þar sem manneskjan skiptir máli og hættið þessum niðurskurði sem annars býr til fleiri svona ógeðfelldar sögur.

Ragnheiður Rut Friðgeirsdóttir er aðstandandi.

Morgunblaðið 26.05.2007

 

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-