-Auglýsing-

Þreyttur, þakklátur og hjartabilaður Björn

22000_10204920475025330_8816899369645041097_nFimm vikna dvöl á Reykjalundi er lokið og hún hefur tekið í. Vissi fyrir að ég væri ekki mikill bógur í æfingunum og gangarnir á Reykjalundi hafa áður reynst mér strembnir en þetta var tilraunarinnar virði og reyndar var þetta mjög nauðsynlegt til að fá stöðumat á getu mína.

Niðurstaðan ákveðin vonbrigði en þó mikilvægt að ná henni fram miðað við hvernig mál hafa verið að þróast með hjartaheilsu mína síðastliðið eitt og hálft ár, og þó sérstaklega frá áramótunum síðustu.

-Auglýsing-

Frá þeim tíma hefur ástandið versnað stöðugt með þróttleysi, aukinni mæði og má segja að um leið og líkaminn og stóru vöðvarnir hafa kallað á þjónustu hjartans hefur allt farið á hliðina og vökvasöfnun gert vart við sig og ég hef verið lengi að jafna mig.

Það var því mikilvægt að komast á Reykjalund til sjá aðeins hvar ég væri staddur eða réttara sagt hversu illa ég væri staddur. Niðurstaðan hefði svo sem ekki átt að koma á óvart en samt sem áður verð ég alltaf dálítið hissa þegar ég átta mig á því að ég sé verr staddur en ég gerði mér í hugarlund.

Vökvasöfnun sem er dæmigert einkenni hjartabilunar var viðvarandi vandamál á meðan ég var á Reykjalundi og að lokum varð ljóst að við hana var ekki ráðið í þeim herbúðum. Á sama tíma varð einnig ljóst að líklegast væri best í stöðunni að hefja undirbúning að því að reyna að koma mér á Salhgrenska í Svíþjóð til þess að meta ástandið og hvort sú stund sé runnin upp að ég sé kandídat í hjartaskipti eða ekki.
Síðustu vikurnar hef ég semsagt heyrt orðið hjartaskipti nokkuð oft og ég hef þurft að venja mig við tilhugsunina um það en slíka hluti hef ég ekki hugsað mikið um síðustu ár. Ef það verður hinsvegar niðurstaðan að ég sé kominn á þann stað að þurfa á nýju hjarta að halda þá tökum við því sem að höndum ber.

Sjálfsagður hlutur eins og sturtuferð er mér nokkuð strembin og ég þarf að gera hlé á sturtunni tvisvar til þrisvar meðan á henni stendur til að jafna mig á mæðinni. Þegar ég kem út úr sturtuklefanum þarf ég að jafna mig og fæ tilfinningu eins og mig vanti súrefni.

- Auglýsing-

Létt heimilisverk eins og tína til þvott og setja í þvottavél framkalla svo mikla mæði að ég get vart mælt og sama er að segja um einfalda aðgerð eins og að taka úr og setja í uppþvottavél.

Athafnir daglegs lífs vefjast þess vegna fyrir mér og eru mér all erfiðar þessa dagana.

Staðan virðist því vera sú að mitt gamla hjarta sé lúið og sé þessa dagana fært um lítið meira en að dæla um kroppinn því sem nauðsynlega þarf en lítið umfram það.

Afleiðingarnar af þessu ástandi lýsa sér þannig að við minnsta líkamlegt álag á sér stað vökvasöfnun sem er dæmigert hjartabilunareinkenni. Við þetta ástand þyngist ég og hef gert stöðugt að undanförnu. Til að vega á móti þessu eru gefin lyf, Furix eða svokallaðar “pissutöflur” í daglegu tali á þessu heimili. Þessi lyf hef ég tekið i mörg ár og skammturinn verið 40-80 mg á dag. Nú er staðan þannig að ég tek 160 mg í töfluformi og fæ allt að 160 mg í æð daglega, samtals eru þetta semsagt allt að 320 mg á dag og það er skrambi mikið og spurning hvort það dugi til.

Þetta er tekur í en mér líður samt ekki beint illa. Ég finn fyrir því að ég er með umfram vökva í líkamanum og er þreyttur og slappur og fæ verki við og við svona hér og þar og stundum brjóstverki. Gamla hjartað mitt tikkar í rólegheitum og þrátt fyrir að vera ansi laskað síðustu 12 árin hefur það staðið sig merkilega vel og við höfum átt margar góðar stundir saman og fyrir það er ég þakklátur.

Björn Ófeigsson

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-