-Auglýsing-

Þegar sorgin springur út

HjartaBjössi fékk hjartaáfallið fyrir tíu árum og fyrstu árin þá var hann oft veikur og hafði það ekki gott í hjartanu. Þá gerðist það stundum að sorgina sprakk út og þetta er sagan af því.

18. september 2007
Flesta daga þá líður dagurinn eins og aðrir dagar. Hjartamálin eru þarna alltaf á bak við og oft ekkert á bak við heldur starandi okkur í andlitið vegna einhvers sem kemur upp. Hins vegar er líf okkar hversdagslegt og barátta okkar við heilsu Bjössa líka. Við erum nefnilega ekki að berjast við heilan hjartasjúkdóm á hverjum degi. Við erum ekki að slást vegna málaferla við spítalann á hverjum degi. Við erum ekki að takast á við ástandið í heild sinni á hverjum degi. Það eru ákveðnir hlutir sem eru verkefni hvers dags og þeim sinnum við.

Einn daginn getur það verið vanmáttur, annan dag er það fjárhagurinn, hinn er það reiði yfir að geta ekki tekið þátt í lífinu eins og vilji stendur til og enn annan það að vera hundskömmuð á bílastæði við Smáralind af því við lögðum í fatlað stæði og Bjössi er ekki í hjólastól. Samt erum við með bláan miða í rúðunni. En alla daga berst Bjössi við verki, mæði, þreytu og það að halda við og búa til líf fullt af tilgangi og stefnu þegar ekki er heilsa til að vinna. Þar kemur einmitt hjartalíf.is inn og er engin spurning að sú vinna hefur bjargað andlegri heilsu Bjössa því það er ekkert grín að vera sviptur getunni til að vinna.

En eins og ég segi, það einhvernvegin samt venst að kljást við sjúkdóminn og afleiðingar hans og mér finnst stundum þegar ég hugsa út í það, að það venjist of mikið.

Ég held að oft væri eðlilegt að bregðast við reiður eða hræddur við uppákomum daglegs lífs þegar við erum orðin vön og höldum áfram án þess að nokkuð á okkur sjáist. Ég held líka að Bjössinn minn sé orðinn svo vanur því að finna til og vanur því að vera móður og þreyttur og veikur að normið hans sé breytt og hann miði ekki lengur við heilbrigði og heilsu heldur veikindi og orkuleysi. Mér finnst hann ekki kvarta fyrr en hann er kominn hálfur inn á bráðamóttöku og varla þá.

En það er fleira sem venst. Það venst þessi óvissa, eða kannski afmáist hún og dofnar frekar en að venjast. Maður lærir að lifa í óvissunni og að láta hana ekki trufla daglegt líf. Enda varla hægt að lifa hvern dag í fullri vissu um óvissuna sem hvílir yfir lífi Bjössa. Því óvissan er fullt af sorg. Óvissan er full af reiði og ótta og þar er einfaldlega ekki gott að vera.

- Auglýsing-

Ég hef hins vegar komist að því að hjá mér þá liggur þetta alltaf þarna undir yfirborðinu. Það er misdjúpt á tilfinningunni og ég veit ekki hverju það sætir en suma daga er ég veikari fyrir en aðra. Suma daga þá er stutt í óvissuna og það eru erfiðari dagar. Það skrítna er að ég þekki þessa daga samt ekki ennþá. Ég vakna ekki og veit að í dag sé ég viðkvæm gagnvart ótta mínum um heilsu Bjössa. Ég vakna bara eins og aðra daga en eitt orð, ein setning, lag í útvarpinu, bíómynd eða eitthvað hittir mig beint í hjartastað og um mig flæðir óvissan, óttinn og sorgin. Þetta kemur mér alltaf á óvart og ég skynja það meira að segja stundum ekki fyrr en þetta er vel farið af stað, að þetta er það sem er að plaga mig. En þetta er vont.

Ég vakna flesta daga glöð og hress og finnst frábært að eiga stundir með strákunum mínum á leið í vinnuna. Í síðust viku átti ég slíkan dag. Ég vaknaði og við klæddum okkur og borðuðum morgunmat. Eitthvað var nú kíkt á teiknimyndir og slegist pínu um það hvort það mætti fara í spariskónum í leikskólann eða ekki. En dagurinn lofaði góðu.

Við Benedikt kysstum Jónsa bless úti á plani, hann fór í skólann og ég keyrði þann stutta á leikskólann. Þar á eftir keyrði ég af stað í vinnuna en ég er svo heppin að það tekur um 4 mínútur! Þennan dag voru þetta langar 4 mínútur! Í stað þess að hringja í Steinu vinkonu eins og svo oft á morgnanna þá hlustaði ég á músík. Í bílnum fór að hljóma lag þar sem sungið var af innlifun og af miklum sársauka um að hún vilji ekki kveðja. Hún vilji ekki lifa án hans og að hún skilji ekki hvernig heimurinn eigi bara að halda áfram ef hann er ekki með henni.

Þennan daginn dugði þetta. Ég gersamlega brotnaði niður og grét með ekka og tárafossi. Þessar 4 mínútur á leiðinni í vinnuna sá ég dauða Bjössa. Ég fór í gegnum hrakandi heilsu og ég sá stundina sem ég þurfti að tilkynna strákunum okkar það að Bjössi væri dáinn. Ég upplifði kistulögnina og jarðaförina hans. Ég upplifði tómleikann í sorginni og lífinu á eftir. Ég gat ekki séð hvernig lífið átti að halda áfram. Hvernig gátu fjöllin haldið velli, sólin ennþá skinið, hundar haldið áfram að gelta og fólkið bara haldið áfram að keyra í vinnuna?

Jafn skyndilega og þetta ruddist yfir mig birti til í hausnum á mér aftur og ég var komin á bílastæðið fyrir framan vinnuna. Þá var ekkert annað að gera en að þurrka tárin og átta sig á því að þetta voru nú kannski full ýkt viðbrögð þar sem Bjössi er ekkert í lífshættu eins og er og miklar líkur til þess að hann geti lifað með sitt skerta hjarta í mörg ár enn! Skynsemin tók við, ég hristi þetta af mér og fór í vinnuna með bros á vör.

En svona er það samt stundum þegar sorgin springur út.

Mjöll hjartamaki

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-