-Auglýsing-

Svefn og svefnvenjur

Það eru margir sem eiga við svefnvandmál að glíma og því mikilvægt að koma sér upp góðri svefnrútínu.

Svefn er merkilegt fyrirbæri og kannski eitt af þessum atriðum sem við hugsum kannski ekki nógu meðvitað um dags daglega. Margir þjást að ýmiskonar svefnvandamálum og sú lausn sem oftast er gripið til er svefnlyfjanotkun. Ekki svo að skilja að það sé slæmt að nota svefnlyf til að laga svefnin en vert að minna á að lyf eru ekki framtíðarlausn við svefnvandamálum.

En fyrir sum okkar skiptir miklu máli hvernig við högum lífi okkar til að ná sem bestum svefni, í hvaða stellingu við sofnum helst í, opin eða lokaðan glugga, lyf eða ekki lyf, andvökunætur og svo mætti lengi telja. Hér eru smávægilegar óvísindalegar vangaveltur mínar um svefn og svefnvenjur, aðallega mínar þó.

Svefnstellingar og svefnvenjur

Eins undarlega eins og það kann að hljóma þá líður mér alltaf best í hjartanu þegar ég sef á vinstri hliðinni og stundum halla mér aðeins yfir á magann. Það er eins og þegar kemur smá þrýstingur á brjóstkassann verði takturinn betri og jafnari og það er góð tilfinning. Mér finnst oft erfiðara að sofa á hægri hliðinni því þá er eins og hjartað slái út í tómið, eða þannig er tilfinningin í það minnsta. Ekki nóg með það heldur fæ ég oft á tíðum aukaslög, finn meira fyrir hjartslættinum og fæ almenn hjartsláttarónot.
Ég hef reyndar prófað ýmsar aðferðir eins og að halla mér aðeins meira á magann og sofa með kodda í fanginu til þess að búa til þrýsting og það hjálpar stundum, en ekki alltaf. Við þetta má bæta að það er betra fyrir þá sem eru með magavandamál eins og bakflæði að sofa á vinstri hliðinni.

Ég hef alltaf átt erfitt með að sofa á bakinu og finnst það óþægilegt þó það sé talin góð svefnstaða fyrir líkamann. Á bakinu kemur eitthvert óþol í kroppinn hjá mér og auk þess hefur það gerst að ég hrekk upp með andfælum, við mínar eigin hrotur.

En það eru fleiri hliðar á svefnvenjum okkar. Svefnstellingarnar fara mismunandi vel með líkama okkar eins og áður sagði og sumar svefnstellingar eru þannig að meira álag verður á háls og bak sem gerir það að verkum að það kemur fyrir að við vöknum lurkum lamin eða verulega aum í skrokknum.

Svefnlyf eða ekki svefnlyf?

Fyrir allmörgum árum hætti ég að nota svefnlyf. Þannig var nefnilega mál með vexti að þegar ég veiktist fyrir um 20 árum síðan kom í ljós að svefninn minn var ekki í lagi og mér gefnar tvær mismunandi gerðir af lyfjum sem ég notaði á hverri nóttu í 10 ár. Þá kom tækifæri til að gera tilraun. Upphafið að þeirri tilraun var sú að mér bauðst að fara á svefnnámskeið til að sjá hvort það væri hægt að hjálpa mér eitthvað með svefninn. Það var alls ekki yfirlýst markmið að hætta á lyfjunum en löngunin kviknaði. Mér fannst þegar námskeiðið var búið að sú fræðsla sem ég fékk þar gæti hugsanlega nýst mér og ákvað ég að prófa að taka út svefnlyfin.

- Auglýsing-

Það er skemmst frá því að segja að síðan hef ég ekki notað svefnlyf nema í örfáum undantekningatilfellum þegar ástæða hefur verið til. Svefngæði mín eru allt önnur og betri auk þess sem ég er fljótari að sofna á kvöldin. Af því að svefninn er betri þá vakna ég fyrr og er frískari á morgnanna og afköstin eru betri og morgundrungi er ekki lengur til staðar.

Andvökunætur eru ekki margar en þó kemur fyrir að eitthvað fer úr skorðum og ég get ekki sofið. Þetta veldur mér aldrei áhyggjum því ég veit að þetta er allt í lagi. Þá er bara að gefa sér nokkra daga í að jafna sig á því og almennt gengur það vel. Það kemur þó fyrir endrum og sinnum að ég vakna fyrir allar aldir en þá reyni ég bara að leggja mig aðeins um hádegisbil ef það er mögulegt.

Það er svolítið merkileg tilfinning að hafa í tíu ár litið á sig sem sjúkling sem átti við alvarleg svefnvandamál að stríða í það að geta lagst til svefns á kvöldi án þess að láta sér til hugar koma að nóttin geti orðið erfið. Ég er feginn að hafa tekið ákvörðun um að hætta notkun svefnlyfja og að óreyndu hefði ég aldrei trúað hvað þessi einfalda aðgerð hefur haft mikil jákvæð áhrif á líf mitt og í rauninni hvað þetta hefur aukið lífsgæði mín. Ég get þó ekki látið hjá líða að nefna gott rúm og þar er það mín skoðun að ekki eigi að spara við sig í þeim efnum.

Það er mikilvægt fyrir hvern og einn að koma sér upp góðum svefnvenjum til að hámarka svefngæði. Það er einnig mikilvægt að finna sér þá stellingu sem hentar manni best og manni líður vel í og ég mæli sérstaklega með því að fólk reyni að losa sig við svefnlyf því það hefur ótrúlega mikil og jákvæð áhrif.

Rannsóknir hafa sýnt að svefnlyf gagnast til skamms tíma en langvarandi notkun virðist frekar gera ógagn. Verulegar líkur eru á því að stór hluti þeirra sem þjáist af svefnleysi eigi við undirliggjandi kvíða að glíma. Þannig væri það væntanlega betri laus til lengri tíma að hafa samband við sérfræðing sem getur greint vandamálið og komið með lausnir sem virka til langframa. Má þar einna helst nefna hugræna atferlismeðferð við svefnleysi sem hefur gefið góða raun. Í rauninni má segja að það sé mikið á sig leggjandi að losna við lyfin og ég hefði aldrei trúað því að óreyndu hvað það er mikill munur.

Góða nótt.

Björn Ófeigs.

Munið eftir að læka við okkur á Facebook

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-