-Auglýsing-

Svefn er mannsins megin

Svefn er hluti lífsins hjá öllum. Margir hunsa þó þennan mikilvæga þátt í lífinu og leyfa sér ekki að sofa eins lengi og nauðsynlegt er. Afleiðingar svefnleysis geta verið alvarlegar, bæði andlegar og líkamlegar.

„Svefnþörf flestra fullorðinna eru sjö til átta tímar á sólarhring. Flestir vita að ef þeir sofa of lítið verða þeir þreyttir og einbeiting versnar en það sem mun færri vita er að of litlum svefni fylgja alvarlegar afleiðingar fyrir líkamlega heilsu,” segir Erna Sif Arnardóttir líffræðingur og doktorsnemi í svefnrannsóknum. Erna Sif hefur beint sjónum sínum að þessum líkamlegu afleiðingum svefnleysis, sem hún segir býsna alvarlegar. „Afleiðingarnar eru til dæmis aukin hætta á hjarta- og æðasjúkdómum, auknar líkur á áunninni sykursýki og offita. Rannsóknir sýna enn fremur að ótímabær dauðsföll eru algengari hjá þeim sem sofa of lítið.”

Sofum minna en áður

Erna Sif segir nútímamanninn hafa gengið á sinn eðlilega svefntíma, rannsóknir sýni að fólk sofi að meðaltali um klukkustund minna nú en það gerði fyrir hálfri öld. „Fólk er alltaf að skerða svefntíma sinn, horfa á sjónvarpið eða hanga í tölvunni. Svo ætlum við kannski að vera mjög dugleg og mæta í ræktina klukkan sex en gleymum því að það þýðir að þá þurfum við að vera farin að sofa klukkan tíu.”

Allan Pack, prófessor við Pennsylvaníuháskóla og annar leiðbeinandi í doktorsverkefni Ernu Sifjar, hefur sérhæft sig í svefnrannsóknum um árabil. Hann bendir á að nútímaþjóðfélag geti verið fjandsamlegt þeim sem vildu glaðir sofa sjö til átta tíma en eru svokallaðar b-manneskjur, fara seint að sofa en fá ekki að sofa eins lengi og þeir vildu. „Þeir sem ekki sofa nóg eru að svipta líkamann svefni og það getur haft alvarlegar afleiðingar,” segir Pack. „Fyrir þá sem eru mjög öfgafullar a- eða b-manneskjur getur verið mjög erfitt að vera til í nútímaþjóðfélagi,” segir Pack, sem segir erfitt ef ekki ómögulegt að breyta þessum takti, við séum “forrituð” til þess að fylgja líkamsklukkunni.

„Svefn er algjörlega nauðsynlegur fyrir líkamann og því er það afar hættulegt heilsunni ef fólk gengur á svefntíma sinn. Þegar við sofum þá erum við ekki bara að hvíla okkur, þegar við sofum er líkaminn líka að endurnýja efni í frumum líkamans sem við göngum á yfir daginn, heilinn er líka mjög virkur þegar við sofum,“ segir Pack sem bendir á að auk þess sem svefnleysi geti skert lífsgæði fólks mikið þá geti það einnig beinlínis verið hættulegt.

Hættulegt að sofa of lítið
„Yfir 50 prósent alvarlegra bílslysa i Bandaríkjunum eiga sér stað þannig að bílstjóri ekur út af, sem oft er afleiðingin þegar bílstjórar sofna undir stýri.“ Vöruflutningabílstjórar tilheyra hópi fólks sem vinnur á óvenjulegum tímum og langar vaktir. Pack segir þá sem vinna vaktavinnu leggja mikið á líkamann. „Þeir sem vinna vaktir ná sjaldnast sömu rútínu og aðrir. Það hefur áhrif á líkamsklukkuna okkar, öll líffæri okkar hafa innbyggða sólarhringsklukku og þeir sem ekki fylgja neinni rútínu rugla henni,“ segir Pack.

www.visir.is 07.05.2011

- Auglýsing-

Erna Sif segir eina svefnlausa nótt nægja til þess að breytingar verði á líkamsstarfsemi. „Mælingar í blóði sýna fram á að það verða strax breytingar eftir eina svefnlausa nótt. Það verður mælanleg aukning á svokölluðum bólgumarkerum, sem finnast í auknum mæli í fólki með hjarta- og æðasjúkdóma. Annað sem gerist er að það verður brenglun á sykurbúskap líkamans, sykurþol skerðist og það eykur líkur á sykursýki. Sömuleiðis verður brenglun á hormónum sem valda hungri. Ef maður hefur ekki sofið vel þá verður maður svengri. Líkaminn kallar á mat og raunar kallar hann á óhollan mat, einföld kolvetni og sykur.”

Þriðjungur glímir við svefnvanda
Eins og áður sagði er svefnþörf flestra fullorðinna um sjö til átta tímar. Börn þurfa meiri svefn en eftir að fólk er fullvaxið minnkar svefnþörfin. En það er ekki bara að svefnþörfin minnki, samsetning á svefni breytist. Börn fá meiri djúpsvefn en fullorðnir og eftir því sem fólk eldist fjölgar svefnvandamálum af ýmsum toga.

Raunar eru vandamál tengd svefni svo algeng að talið er að þriðjungur fullorðinna eigi við svefnvandamál að stríða á einhvern tíma á lífsleiðinni. Vandamálin eru af ýmsum toga. Kæfisvefn er vandamál sem talið er að hrjái um fjögur til fimm prósent fullorðinna. Kæfisvefn lýsir sér þannig að einstaklingar fá öndunartruflanir í svefni sem kemur vitaskuld niður á gæðum svefnsins. Verkir vegna veikinda geta haft áhrif á svefn, tanngnístur og fótaóeirð svo dæmi séu tekin. Kvíði og streita geta líka valdið svefnleysi.

Þrátt fyrir mikilvægi svefns hefur verið frekar lítil áhersla á rannsóknir á svefni, þó það sé að breytast. Pack bendir á að það sé merkilega lítil vitund um mikilvægi svefns. Skýringuna sé meðal annars að finna í því hversu stutt sé síðan farið var að kenna um svefnvandamál í læknisfræði. „Margir læknar eru fákunnandi um svefnvandamál og vita ekki hvernig á að taka á þeim. Við sem vinnum við svefnrannsóknir verðum að gera betur í að bæta þekkingu fólks á svefni. Við höfum til dæmis beitt okkur í því að gera svefni skil í líffræðikennslu framhaldsskólanema,“ segir Pack.

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-