-Auglýsing-

Stórauknar lífslíkur eftir hjartastopp

KÆLIMEÐFERÐ á sjúklingum eftir hjartastopp hefur aukið lífslíkur þeirra um 40% auk þess sem meðferðin dregur verulega úr helsta fylgikvilla hjartastopps sem er alvarlegur heilaskaði vegna súrefnisskorts.

Þetta kemur fram í nýrri könnun sem svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala (LSH) kynnir á ársþingi Skurðlæknafélags Íslands og Svæfinga- og gjörgæslulæknafélags Íslands í dag.

Í könnuninni voru teknir fyrir sjúklingar eldri en 18 ára sem höfðu verið meðhöndlaðir með kælingu eftir að hafa fengið hjartastopp utan sjúkrahúss á síðastliðnum þremur árum.

„Við erum með tæki sem kælir sjúklingana eftir að stór æðaleggur er settur í nára sjúklingsins, þá fer kalt vatn um belgi sem liggja utan um æðalegginn og þannig náum við fljótt stöðugum kulda. Við kælum sjúklingana niður í 32°C, höldum þeim köldum í um einn sólarhring og hitum þá svo aftur upp í eðlilegan líkamshita á hálfum sólarhring,“ segir Felix Valsson, svæfinga- og gjörgæslulæknir sem stóð að könnuninni ásamt starfsfélaga sínum, prófessor Gísla H. Sigurðssyni, og Valentínusi Þ. Valdimarssyni læknanema.

Hafa bjargað heilsu tuga sjúklinga

Könnunin sýnir góðan árangur en áður en kælingarmeðferðin hófst árið 2002 útskrifuðust um 30% meðvitundarlausra sjúklinga af gjörgæsludeild með góða heilastarfsemi. „Með kælingarmeðferðinni erum við hins vegar komnir upp í um 70% og því má segja að á þessu tímabili höfum við bjargað heilsu um 40-50 sjúklinga,“ segir Felix en bætir við að önnur meðferð eins og betri gjörgæslumeðferð og fleiri hjartaþræðingar eigi þátt í þessum mikla árangri. Felix segir þá félaga á gjörgæsludeildinni fyrst hafa lesið um þessa aðferð í greinum í læknatímaritinu New England Journal of Medicine í febrúar 2002 en vísindamenn höfðu lengi leitað að árangursríkri meðferð fyrir sjúklinga sem fá hjartastopp. „Við brugðumst hratt við því fyrsti sjúklingurinn var kældur hér á LSH í mars 2002 og síðan höfum við kælt í kringum 200 sjúklinga,“ segir Felix.

- Auglýsing-

„Þessi meðferð er nú að ryðja sér til rúms í heiminum og nú er mælt með henni í endurlífgunarleiðbeiningum Evrópska endurlífgunarráðsins,“ segir Felix.

Eftir Jóhönnu Maríu Vilhelmsdóttur

jmv@mbl.is

Morgunblaðið 04.04.2009

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-