-Auglýsing-

Sjúklingum stofnað í hættu

Elín Ýrr Halldórsdóttir og Vigdís Árnadóttir fjalla um fyrirhugaðar breytingar á vaktafyrirkomulagi á Landspítala: “Skurðhjúkrunarfræðingar mótmæla vaktabreytingum á Landspítala, telja þær m.a. stofna sjúklingum í hættu og hafa því sagt upp störfum frá og með 1/5.”

MIKILL meirihluti skurð- og svæfingarhjúkrunarfræðinga á Landspítalanum lætur af störfum frá og með 1. maí næstkomandi vegna fyrirhugaðra breytinga á vaktafyrirkomulagi. Breytingarnar á skurð- og svæfingardeildum Landspítalans eru gerðar undir því yfirskini að verið sé að auka og bæta þjónustu við sjúklinga og færa vinnutíma hjúkrunarfræðinga nær vinnutímatilskipun.

Við teljum aðgerðirnar þvert á móti minnka þjónustu við sjúklinga og geti jafnvel stofnað þeim í hættu. Ein af breytingunum sem við erum andvígar felur í sér að nú verði skurðhjúkrunarfræðingur alltaf í húsinu á Hringbraut en bakvöktum í Fossvoginum hætt. Það þýðir að sérhæfðum skurðhjúkrunarfræðingum sem bregðast við á kvöld- og næturvöktum er fækkað úr þremur niður í einn, og er hann staðsettur á Hringbraut.

Einn og utan sérsviðsMeð nýja fyrirkomulaginu er þessum eina skurðhjúkrunarfræðingi gert að sinna gæsluvakt, kvennadeild og augndeild samtímis. Hann á það því til dæmis á hættu að vera kallaður samtímis til keisaraaðgerðar á kvennadeild og til bráðaaðgerðar á gjörgæsludeild. Það gefur augaleið að slíkt getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir sjúklinga. Að velja milli bráðatilfella, lífs og dauða, fellur ekki undir starfssvið hjúkrunarfræðinga.

Skurðhjúkrunarfræðingar eru metnaðarfullir sérfræðingar með ólík sérsvið, rétt eins og skurðlæknar. Sem dæmi fara skurðhjúkrunarfræðingar í gegnum 9 mánaða samfellda þjálfun á hjartaskurðdeild áður en þeir standa bundna vakt á hjartaskurðstofu. Þar til nú hefur það ávallt þótt brýn nauðsyn að hafa hjartaskurðhjúkrunarfræðing á vakt eftir hjartaaðgerðir. Með sameiningu sviðanna er þessi sérhæfing virt að vettugi, og að kalla slíkt aukna og bætta þjónustu við sjúklinga er fásinna.

Það er krafa okkar að allar þeir sem koma að skurðaðgerðum séu sérfræðingar í viðkomandi fagi og það hlýtur einnig að vera krafa sjúklinga og aðstandenda þeirra.

Sparnaður, ekki hagræðing

- Auglýsing-

Við höfnum því að þessar vaktabreytingar séu sjúklingum til góðs og leyfum okkur að auki að fullyrða að þær geti stofnað þeim í hættu.

Breytingarnar snúast fyrst og fremst um sparnað. Við viljum hvorki að sá sparnaður bitni á sjúklingum með lakari þjónustu né á okkur, með auknu vinnuálagi og lægri launum.

Þessu neitum við að taka þátt í og það er meðal annars þess vegna sem að við höfum gert upp hug okkar og munum láta af störfum frá og með 1. maí nk.

Höfundar eru skurðhjúkrunarfræðingar á skurðstofu við Hringbraut.

Morgunblaðið 16.03.2008

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-