-Auglýsing-

Breytingar í heilbrigðiskerfi

Ritstjórnargrein Morgunblaðsins í dag er áhugaverð en þar er fjallað um aðaláhyggjuefni sjúklinga þessa dagana eða breytingar og uppsagnir innan heilbrigðiskerfisis en hér er greinin:

Menn greinir enn á um það, hvort skynsamlegt hafi verið að sameina Landspítala og Borgarspítala. Hins vegar getur enginn ágreiningur verið um, að sjálf sameiningin eða framkvæmd hennar er eitthvert risavaxnasta stjórnunarverkefni, sem nokkur maður hefur tekið að sér í opinbera geiranum á Íslandi.

Magnús Pétursson hefur verið umdeildur forstjóri Landspítala – háskólasjúkrahúss en hann hefur staðið fast á sínu og það ber að virða. Það hefði enginn maður komizt frá þessu verkefni án þess að verða umdeildur nema sá einn, sem ekkert hefði gert.

-Auglýsing-

Hins vegar vekur sú ákvörðun heilbrigðisráðherra furðu að ráðstafa þessu starfi til bráðabirgða fram á haust. Hér er um svo mikilvægt starf að ræða, að æskilegt hefði verið að framtíðarmaður í því hefði tekið til starfa strax. En væntanlega eru rökstuddar ástæður fyrir því, að þetta er gert svona.

Guðlaugur Þór Þórðarson hefur nú tekið tvær lykilákvarðanir, sem leggja grundvöll að miklum breytingum í heilbrigðiskerfinu. Í fyrsta lagi með því að fá til starfa nýjan ráðuneytisstjóra í heilbrigðisráðuneytinu og í öðru lagi með því að gera ofannefndar breytingar á yfirstjórn Landspítala.

Þegar menn takast á við mikil og erfið verkefni eru baggarnir, sem menn draga á eftir sér, fljótir að hlaðast upp. Þess vegna getur verið skynsamlegt að takmarka starfstíma hvers og eins í slíkum störfum.

Stóra spurningin er hins vegar hvað fylgir í kjölfarið. Hvaða breytingar verða gerðar á Landspítala? Hvaða breytingar verða gerðar á heilbrigðiskerfinu öllu? Heilbrigðisráðherra hefur ekki gefið miklar vísbendingar um það, sem framundan er. Þó er æskilegt að um þær breytingar geti farið fram almennar umræður. Heilbrigðiskerfið snertir hvern einasta einstakling í þessu landi. Það skiptir miklu að vel takist til.

- Auglýsing-

Það má ætla, að þær breytingar, sem núverandi ráðherra heilbrigðismála stefnir að, snúist að einhverju leyti um aukinn einkarekstur í heilbrigðisþjónustu. Það getur verið af hinu góða ef rétt er að því staðið. Í því sambandi skiptir tvennt máli. Í fyrsta lagi, að það verði byggður upp einkarekinn valkostur, þannig að fólk geti valið á milli þess að nota opinbera kerfið eða einkarekna kerfið. Í öðru lagi hlýtur sú krafa að verða gerð til einkareksturs í heilbrigðisþjónustu, að kostir einkarekstrar komi fram, að þjónustan batni með áberandi hætti frá því, sem verið hefur.

Nú þegar er til staðar verulegur einkarekstur í heilbrigðisþjónustu en sá vísir að einkarekstri hefur ekki endilega sýnt og sannað að þjónustan sé betri. Það er löng bið eftir þjónustu, alltof löng. Biðtími og biðraðir einkenna heilbrigðisþjónustuna. Í of mörgum tilvikum er sú þjónusta, sem fylgir á eftir, ekki upp á marga fiska.

Þess vegna er beðið með eftirvæntingu eftir þeim breytingum, sem heilbrigðisráðherra ætlar bersýnilega að gera, en það verða líka gerðar miklar kröfur til þeirra breytinga.

Hitt fer ekki á milli mála, að ráðherrann er búinn að losa þannig um kerfið, að eftirleikurinn verður auðveldari fyrir hann og þá lykilstarfsmenn, sem hann velur með sér í þetta verkefni.

Meðal fagfólks í heilbrigðisþjónustunni gætir vaxandi óþolinmæði. Fólk vill að breytingar fari að sjá dagsins ljós. Auðvitað tekur undirbúningur þeirra tíma. Allar breytingar í þessum efnum kalla á vandaðan undirbúning.

En væntanlega verður þess ekki langt að bíða að heilbrigðisráðherra kynni áform sín og að umræður geti hafizt um þau.

Morgunblaðið 16.03.2008

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-