-Auglýsing-

Segja mikilvægt að læknir fylgi alltaf neyðarbílnum

BRÁÐALÆKNAR og fleiri hafa áhyggjur af þeirri ákvörðun að hætta að láta lækni fylgja neyðarbílnum. Kristín Sigurðardóttir bráðalæknir segir að verið sé að taka lækni úr fyrsta viðbragði utan spítala, lengja útkallstíma læknis, skerða þjónustu við sjúklinginn og vega að öryggi veikustu sjúklinga á vettvangi. Breytingin tók gildi í gær og sinna háskólamenntaðir bráðatæknar því hlutverki sem læknar sinntu áður en læknar geta farið í útköll frá LSH í Fossvogi ef þörf krefur.

Árangurinn með því besta
Kristín leggur áherslu á að gagnrýnin snúi ekki bráðatæknunum og sjúkraflutningamönnunum, því þeir vinni mjög gott starf, en það sé teymið í heild sem skipti máli. Það sé mjög öflugt, vinni vel saman og vinnubrögð á vettvangi séu mjög öguð og góð. Stundum sé það þó þannig að þekking og reynsla læknis skipti máli og það komi fyrir að það skipti sköpum að hann sé í teyminu. Hafa beri í huga að þótt endurlífgun sé aðeins um 3% af starfinu í neyðarbílnum, sé árangurinn með því besta sem gerist í heiminum. Hins vegar er jafnvel vandasamara að vinna við allra veikustu sjúklingana.

-Auglýsing-

Kristín segir að misvísandi ummæli í fjölmiðlum frá yfirstjórn slysa- og bráðadeildar Landspítalans og lækningaforstjóra í fjölmiðlum, um að ýmist sé verið að spara, hagræða eða efla þjónustuna séu undarleg. Ekki sé hægt að sjá hvernig þjónustan eflist við það að taka lækni úr teyminu. Upphaflega hafi átt að spara með því að taka lækninn úr neyðarbílnum og setja hann í vinnu á slysa- og bráðadeild en taka þaðan sérfræðing í burtu. Hún bætir við að það geti verið varhugavert að láta þennan lækni hlaupa fyrirvaralaust frá veikum sjúklingum inni á spítala til að sinna neyðartilvikum á vettvangi. Auk þess geti hann mætt of seint á staðinn, þegar hann fari ekki með neyðarbílnum og töfin geti skipt máli. Ennfremur bendir Kristín á að nú sé rætt um að kaupa nýjan, sérútbúinn og hraðskreiðan bíl, ráða bílstjóra og útbúa aðstöðu á slysa- og bráðadeild LSH til að flytja svo lækninn á vettvang. Eitthvað hljóti þetta að kosta og þessar 30 milljónir sem rætt hafi verið um að spara hljóti að hverfa fljótt.

Að sögn Kristínar væri nær að samnýta áfram núverandi neyðarbíl, sem sé hraðskreiður og sérútbúinn, til að koma sjúkraflutningsmanni eða bráðaliða og lækni á vettvang. Einnig kæmi til álita að flytja neyðarbílinn og hafa hann staðsettan á slysa- og bráðadeildinni frekar en hjá slökkviliðinu og samnýta þannig sjúkrabílinn í stað þess að leggja út í kostnað fyrir nýjum bíl og bílstjóra.

 Læknismeðferð utan spítala
Jón Magnús Kristjánsson, einn þriggja íslenskra sérfræðinga í slysa- og bráðalækningum og aðstoðaryfirlæknir á bráðamóttöku háskólasjúkrahússins í Lundi í Svíþjóð, segir að frá 2005 hafi neyðarbílar verið gerðir út frá fjórum bráðasjúkrahúsum á Skáni. Í skýrslu frá því í haust um áframhaldandi þörf á neyðarbílnum séu færð sterk rök fyrir því að læknismeðferð, sem hafin er utan spítala, hafi áhrif á þjáningar og jafnvel lífsmöguleika sjúklinga. Ennfremur sé margt í sambandi við gæðaeftirlit, rannsóknir og þróun á utanspítalaþjónustu sem krefjist þess að læknir sinni þeim þáttum. Niðurstaðan sé sú að klárlega eigi að vera neyðarbíll mannaður lækni við hlið sjúkrabíla og mikilvægt sé að auka verkefni hans. Þetta sé í takt við það sem sjáist í Kaupmannahöfn, þar sem verið sé að fjölga neyðarbílum sem mannaðir eru læknum, og í Noregi, þar sem verið sé að auka hlut lækna í utanspítalaþjónustu, bæði í þyrlum og sjúkrabílum. Í Finnlandi hafi komið fram í skýrslu að á einu svæði hafi læknir verið tekinn af neyðarbíl og í kjölfarið hafi dánarhlutfall eftir hjartastopp hækkað. „Ég held að það sé ákjósanlegt að það sé læknir í neyðarbíl,“ segir Jón. Hann bætir við að þótt hægt sé að breyta ríkjandi kerfi sé mikilvægt í öllum kerfum að hafa möguleika á að kalla út lækni. Mikilvægt sé að hann leggi af stað samtímis sjúkrabílnum og hann megi ekki vera fastur í annarri sjúklingavinnu.

Eftir Steinþór Guðbjartsson

- Auglýsing-

steinthor@mbl.is

Morgunblaðið 18.01.2008 

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-