-Auglýsing-

Samanburður á greiningarhæfni sneiðmyndatækis og kransæðaþræðingar

Í marshefti Læknablaðsins er áhugaverð grein um rannsókn sem nefnist “Greiningarhæfni 64 sneiða tölvusneiðmyndatækni til samanburðar við hefðbundna kransæðaþræðingu” greinin um rannsóknina er hin áhugaverðasta og fylgir hér brot úr henni en hægt er að sjá greinina í heild sinni inni á vef læknablaðsins

Tilgangur
: Markmið rannsóknarinnar var að meta greiningarhæfni (næmi, sértæki, jákvætt forspárgildi, neikvætt forspárgildi og nákvæmni) 64 sneiða tölvusneiðmyndatækni (TS-tækni) á kransæðasjúkdómi með hjartaþræðingu sem viðmið.


Efniviður og aðferðir:
Rannsóknarhópurinn samanstóð af 69 sjúklingum sem tóku þátt í rannsókn á endurþrengslum í stoðnetum kransæða. Framkvæmd var TS af kransæðum til að meta æðaþrengsli. Nokkrum dögum síðar voru þátttakendur hjartaþræddir. Kransæðatrénu var skipt upp í 15 hluta. Æðaþrengsli voru metin í öllum hlutum æðatrésins með báðum aðferðunum. Greiningarhæfni 64 sneiða TS-tækni var metin og kransæðaþræðing höfð sem viðmið.

Niðurstöður: Í rannsókninni voru 13 (19%) konur og 56 karlar. Meðalaldur þátttakenda var 63 (SD 10) ár, háþrýsting höfðu 67%, háar blóðfitur 54%, sykursýki 12% og ættarsaga um kransæðasjúkdóm var til staðar í 71% tilvika. Reykingamenn voru 22% og fyrrum reykingamenn 48%. Samtals 663 æðahlutar voru rannsakaðir. Af þeim voru 221 (33,4%) útilokaðir; 103 vegna stoðneta, 48 vegna truflana af völdum kalks, 41 vegna hreyfitruflana og 29 þar sem æðin var minni en 1,5 mm í þvermál. Meðaltími milli TS og hjartaþræðingar voru 6,3 (SD 12,1) dagar. Næmi 64 sneiða TS til greiningar marktækra þrengsla (?50% þrengsli samkvæmt hjartaþræðingu) var 20%, sértæki 94%, jákvætt forspárgildi 16%, neikvætt forspárgildi 95% og nákvæmni 89%.

Ályktun: Hátt neikvætt forspárgildi og hátt sértæki gefur til kynna að TS-rannsókn sé gagnleg til að útiloka kransæðasjúkdóm. Lágt næmi og lágt jákvætt forspárgildi benda til að aðferðin sé ekki góð til að meta hvort kransæðaþrengsli séu 50% eða meiri við hjartaþræðingu.

Inngangur
Hjarta- og æðasjúkdómar eru algengasta dánarorsök á Vesturlöndum (1-3). Á síðustu árum hefur verið lögð aukin áhersla á að greina og meðhöndla kransæðasjúkdóma á frumstigi og reyna þannig að koma í veg fyrir ótímabær hjartaáföll og dauðsföll (3-5).

Kransæðasjúkdómar stafa helst af æðahrörnun sem getur leitt til skellurofs, skellublæðingar, segamyndunar eða öflugs samdráttar kransæðar (1). Talað er um að æðarhrörnunarskella sé óstöðug og meiri líkur á skellurofi ef komnar eru dreifðar kalkanir, mikið af bólguþáttum og bandvefslagið yfir æðaskellunni er þunnt (5, 6). Einkenni og birtingarform kransæðasjúkdóms fer eftir útbreiðslu og alvöru þrengingarinnar og getur ýmist verið brjóstverkur, brátt hjartavöðvadrep, skyndidauði eða krónískur blóðþurrðarsjúkdómur og áunnin hjartabilun (1). Ef samsetning og myndgerð æðahrörnunarskellu í kransæð er metin er hægt að gera sér betur grein fyrir áhættu af völdum sjúkdómsins og fylgjast með framgangi hans (6).

- Auglýsing-

Greining kransæðasjúkdóma byggist á sögu, skoðun og rannsóknum. Lykilatriði í uppvinnslunni er að nota forspárgildi áhættuþátta (hás blóðþrýstings, sykursýki, reykinga, hækkaðra blóðfita, hás aldurs og erfða) og rannsóknaraðferðir sem valda litlu inngripi, svo sem áreynsluþolpróf, ómskoðun, tölvusneiðmyndatækni (TS-tækni) og segulómskoðun (5, 7). Slíkar aðferðir eru þó ekki fullkomnar og geta verið ónákvæmar. Að auki ber þeim oft ekki saman við klínísk einkenni sjúklingsins. Nýjar greiningaraðferðir eru því í sífelldri þróun þar sem lögð er áhersla á meiri nákvæmni og minni inngrip, áhættu og kostnað.

Kransæðamyndataka með hjartaþræðingu gefur mjög góða mynd af æðaholinu og er viðmiðunarstaðallinn (gold standard) í myndgreiningartækni nútímans við mat á þrengslum í holrými kransæða (8-12). Hægt er að víkka æðaþrengsl í sömu aðgerð ef þörf krefur sem er ótvíræður kostur. Hefðbundin kransæðaþræðing gefur þó minni upplýsingar um ástand æðaveggjarins en æðaholsins (8, 9). Alvara og dreifing kransæðasjúkdóms eru því vandmetin við kransæðaþræðingu nema um þrengsli á æðaholi sé að ræða. Auk þess er kransæðaþræðing töluvert inngrip og henni fylgir nokkur áhætta (8, 10, 13).

Undanfarin ár hefur TS-tækni rutt sér til rúms sem gerir læknum kleift að skoða kransæðar með meiri nákvæmni en áður. TS fylgir þó töluvert geislaálag (10-20 mSv) og aðferðin er ekki hættulaus með öllu (14, 15).

Áhugavert er að fá fram tölur yfir nákvæmni og áreiðanleika kransæðarannsókna í því TS-tæki sem er í notkun við þessar rannsóknir hér á landi. Það er tæki sem nýtti nýjustu tækni sem aðgengileg var þegar rannsóknin var gerð og er hjá Röntgen Domus í Reykjavík.

Markmið rannsóknarinnar var að meta hæfni (næmi, sértæki, jákvætt forspárgildi, neikvætt forspárgildi og nákvæmni, sjá töflu I) 64 sneiða TS-tækni til greiningar kransæðasjúkdóma með hjartaþræðingu sem viðmið. Markmiðið var einnig að skoða hvort munur væri á greiningarhæfni aðferðarinnar milli kynja, aldurshópa, kransæða, æðahluta og hvort aukin hjartsláttartíðni og stoðnet hefðu áhrif á greiningarhæfnina því erlendar rannsóknir hafa bent til að svo geti verið.

Greinina í heild sinni er hægt að nálgast hér en hún birtist í Læknablaðinu 03. tbl. 94. árg. 2008

www.laeknabladid.is

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-